Skráning kaupmála

Kaupmálar og skráning þeirra

Séreign hjóna - kaupmálar

Um fjármál hjóna, eignir og skuldir, er fjallað í hjúskaparlögun nr. 31/1993.  Samkvæmt þeim lögum er miðað við að við stofnun hjúskapar verði þær eignir sem hvort hjóna kemur með í hjúskapinn svonefnd hjúskapareign, þ.e. bæði hjón hafi sameiginlegan afnota- og ráðstöfunarrétt á þeim og að þær eða andvirði þeirra skiptist jafnt milli hjóna við skilnað eða andlát annars þeirra.

Ef óskað er eftir að eign sé ekki hjúskapareign þarf að gera hana að séreign. Séreign getur myndast fyrir ákvörðun hjóna eða tveggja einstaklinga sem ætla að ganga í hjónaband, hjónaefna, sem þá þurfa að gera um hana kaupmála. Einnig getur sá sem gefur öðru hjóna gjöf ákveðið með sannanlegum hætti að hún skuli vera séreign og einnig getur arfleiðandi sett ákvæði um þetta í erfðaskrá.  Hjón sjálf geta ekki breytt þessum ákvörðunum gefanda og arfleiðanda nema slíkt sé heimilað í gjafagerningi eða erfðaskrá eða leiði ótvírætt af þeim.

Séreign kemur ekki  til skipta við skilnað milli hjóna eða milli annars þeirra og erfingja hins nema sérstakar heimildir leiði til annars.

Séreignarákvæði er hægt að tímabinda, svo og skilyrða með þeim hætti að kaupmáli gildi ekki ef hjón eignast sameiginlega skylduerfingja.

Hjón geta enn fremur ákveðið í kaupmála að eign skuli vera séreign meðan bæði eru á lífi, en hlíta reglum um hjúskapareign að öðru hvoru látnu, ótilgreint eða einskorðað við að annað þeirra, sem nafngreint er, látist.

Verðmæti, sem koma í stað séreignar, verða einnig séreign, svo og arður af þessum verðmætum, nema annars sé getið í kaupmála eða í fyrirmælum gefanda eða arfleiðanda.

Ákvæðum kaupmála um séreignir er hægt að breyta eða fella þau niður með nýjum kaupmála.

Form kaupmála

Kaupmáli skal vera skriflegur. Undirritun hjóna eða hjónaefna skal staðfest af lögbókanda (sýslumanni), héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni eða fulltrúa þeirra eða af tveimur vottum sem skulu vera samtímis viðstaddir og rita nöfn sín og kennitölur á kaupmálann. Í vottorði þeirra skal koma fram að skjalið, sem vottað er, sé kaupmáli. Vottarnir skulu vera lögráða og staðfestingarhæfir samkvæmt réttarfarslögum.

Kaupmála skal skrá í kaupmálabók sem sýslumenn halda. Kaupmála, sem hjónaefni gera, skal skrá í lögsagnarumdæmi þar sem þau eiga lögheimili eða ætla sér að búa. Kaupmála hjóna skal skrá þar í umdæmi sem þau eiga lögheimili. Ef þau eiga ekki lögheimili hér á landi skal skrá kaupmálann í Reykjavík (hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu).  Haldin er allsherjarskrá um kaupmála á landsvísu og sér Sýslumaðurinn á Vesturlandi um hana. Ber sýslumanni sem veitir kaupmála viðtöku til skráningar að tilkynna um skráninguna til Sýslumannsins á Vesturlandi. Sér embætti hans síðan um að birta tilkynningu um kaupmálann í Lögbirtingablaðinu. Skulu í þeirri tilkynningu koma fram nöfn aðila, kennitölur, lögheimili og skráningardagur.

Nú varðar kaupmáli fasteign, skip, 5 smálestir eða stærra, eða skráð loftfar og skal sýslumaður þá auk skráningar í kaupmálabók skrá kaupmálann í veðmálaskrá viðkomandi eignar, enda sé eignin skráð í umdæmi hans.
Nú varðar kaupmálinn eign sem skráð er í öðru umdæmi og skal þá jafnframt þinglýsa kaupmálanum í því umdæmi.

Kaupmálar eru opinber gögn og eiga allir rétt á að kynna sér efni þeirra. Sýslumaðurinn á Vesturlandi heldur allsherjarskrá um kaupmála, sbr. reglugerð nr. 1126/2006 um vistun allsherjarskrár um kaupmála.

Upplýsingar um gjaldtöku fyrir skráningu kaupmála má finna hér.


Uppf. 27.08.2019