Umsóknir um nafnskírteini

Allir íslenskir ríkisborgarar, 14 ára og eldri, sem og erlendir ríkisborgarar sem skráðir eru með lögheimili á Íslandi og hafa haft það samfellt í 2 ár, geta fengið útgefið nafnskírteini.

Samþykki forsjáraðila skal liggja fyrir vegna einstaklinga yngri en 18 ára. Barn skal mæta á umsóknarstað í fylgd forráðamanns. Í undantekningartilvikum er heimilt að barn mæti í fylgd einhvers annars ef umboð forsjármanns liggur fyrir. 

Hvernig er sótt um nafnskírteini?

Hlutaðeigandi skal í öllum tilvikum mæta sjálfur á afgreiðslustað með mynd af sér. Fylla þarf út umsókn á umsóknarstað í afgreiðslu Þjóðskrár Íslands eða hjá sýslumönnum sé viðkomandi ekki búsettur á höfuðborgarsvæðinu.  

Umsækjandi þarf að framvísa löggildu skilríki þegar hann sækir um nafnskírteini (ökuskírteini eða vegabréf). Ef ekki er unnt að framvísa skilríki þá þurfa tveir vottar 18 ára og eldri, sem eiga lögheimili á Íslandi, að koma með umsækjanda sem geta staðfest hver umsækjandi er. Vottar þurfa að framvísa löggildum skilríkjum (nafnskírteini, ökuskírteini eða vegabréf). 

Skila skal inn tveimur passamyndum í stærðinni 3,5 x4,5 cm. Myndin þarf að líkjast umsækjanda vel og vera á endingargóðum ljósmyndapappír. Myndin þarf að vera nýleg (ekki eldri en 6 mánaða), skýr og án „aukahluta“  eins og t.d. sólgleraugna, húfa og hatta. Andlit skal vísa beint fram á mynd.  Andlit á mynd skal vera það stórt að andlitsdrættir séu greinilegir og skal miðað við að andlit fylli út í 2/3 myndflatar. Bakgrunnur skal vera ljós/hlutlaus. Mynd skal að öðru leyti vera fullnægjandi að mati starfsmanna Þjóðskrár Íslands eða sýslumannsembætta. Heimilt er að hafna útgáfu skírteinis ef mynd er ófullnægjandi.

Ef einstaklingur óskar eftir að fá útgefið nýtt skírteini í stað skemmds skírteinis, afhendir hann það Þjóðskrá eða sýslumanni og skal það eyðilagt við móttöku. Skila þarf inn nýrri mynd.

Afgreiðsla og verð

Útgáfa fyrsta nafnskírteinis er umsækjanda að kostnaðarlausu. Ef um endurútgáfu nafnskírteinis er að ræða er tekið gjald fyrir samkvæmt gjaldskrá Þjóðskrár Íslands, nú kr. 4.500.  Greiða þarf við afhendingu umsóknar.

Afgreiðslutími nafnskírteina hjá Þjóðskrá Íslands er tveir til þrír virkir dagar.

Sé nafnskírteini ekki sótt skal það sent á lögheimili eða skráð aðsetur viðkomandi að þremur mánuðum liðnum.

Hægt er að senda Þjóðskrá Íslands frekari fyrirspurnir um nafnskírteini á netfangið skra@skra.is.


Uppfært  28. maí 2014