Lögráðamál

Almennt um lögræði

Um lögræði.  Lögræði er tvenns konar, sjálfræði og fjárræði.  Sjálfræði felur í sér réttinn til að ráða sjálfur persónulegum högum sínum, öðrum en fjármálum. Fjárræði felur í sér réttinn til að ráða sjálfur fjármálum sínum. Um lögræði er fjallað í lögræðislögum nr. 71/1997.  Menn verða lögráða, þ.e. bæði sjálfráða og fjárráða 18 ára. Ef maður stofnar til hjúskapar fyrir 18 ára aldur er hann lögráða upp frá því.

Svipting lögræðis:  Standi brýn þörf til, enda hafi önnur og vægari úrræði í formi aðstoðar verið fullreynd, er heimilt með úrskurði dómara að svipta mann tímabundið lögræði. Heimilt er að svipta mann sjálfræði einu sér, fjárræði einu sér eða hvoru tveggja.  Ástæður sviptingar geta verið að viðkomandi er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé vegna andlegs vanþroska, ellisljóleika eða geðsjúkdóms eða vegna annars konar alvarlegs heilsubrests svo og ef viðkomandi vegna ofdrykkju eða ofnotkunar ávana- og fíkniefna er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé og loks ef hann vegna líkamlegs vanþroska, heilsubrests eða annarra vanheilinda á óhægt með að ráða persónulegum högum sínum eða fé og æskir sjálfur lögræðissviptingar af þeim sökum.

 

Vera kann að úrræði sem nefnd eru í lögum nr. 88/2011 um réttindagæslu fatlaðs fólks eigi stundum betur við en úrræði samkvæmt lögræðislögum. Sjá einnig sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem var undirritaður af Íslands hálfu 30. mars 2007. 
Uppfært 04.02.2016.

 

 

Lögráðamenn fara með þau málefni ólögráða skjólstæðinga sem undir þá heyra. Foreldrar barns, sem ólögráða er fyrir æsku sakir, og þeir sem koma barni í foreldra stað ráða persónulegum högum þess. Nefnast þau lögráð forsjá og fer um hana samkvæmt ákvæðum barnalaga nr. 76/2003 og barnaverndarlögum nr. 80/2002.  Þeim sem sviptir eru lögræði, fjárræði, sjálfræði eða hvoru tveggja, skipar yfirlögráðndi sérstakan lögráðamann.

Yfirlögráðendur (sýslumenn) hafa eftirlit með fjárhaldi lögráðamanna þeirra sem ófjárráða eru fyrir æsku sakir. Þá skipa þeir þeim sem sviptir hafa verið lögræði lögráðamenn og hafa eftirlit með störfum þeirra. Yfirlögráðendur skipa einnig ráðsmenn og hafa eftirlit með störfum þeirra. Loks annast yfirlögráðendur nokkur önnur verkefni sem þeim eru falin í lögræðislögum og fleiri lögum.

Upplýsingar um lögræðissviptingar:  Dómari skal sjá til þess að niðurstaða úrskurðar um fjárræðissviptingu, sem ekki er bundin við tilteknar eignir, verði birt í Lögbirtingablaði. Skal sú birting fara fram svo fljótt sem við verður komið. 

Þjóðskrá Íslands heldur skrá á landsvísu um lögræðissvipta menn og skipaða lögráðamenn. Allir eiga rétt á upplýsingum um sviptingu fjárræðis og skipaða lögráðamenn viðkomandi, en aðeins þeir sem hafa lögvarða hagsmuni geta fengið upplýsingar um sviptingu sjálfræðis. 

Sýslumennn geta veitt sömu upplýsingar um lögráðamál sem undir þá heyra.

Önnur úrræði samkvæmt lögræðislögum:

Ráðsmenn.  Yfirlögráðandi getur skipað mann til að fara með umsjón tiltekinna eigna eða fjármuna skjólstæðings síns, sem á óhægt um vik með að sjá um fjármál sín vegna veikinda eða fötlunar. Nefnist hann ráðsmaður.  Sjá nánar umfjöllun um ráðsmenn hér.

Nauðungarvistun.  Með samþykki sýslumanns má vista sjálfráða mann gegn vilja sínum á sjúkrahúsi til meðferðar í allt að 21 sólarhring frá dagsetningu samþykkisins ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á að svo sé eða ástand hans er þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms, sem og ef maður á við alvarlega áfengisfíkn að stríða eða ofnautn ávana- og fíkniefna og nauðungarvistun er óhjákvæmileg að mati lækni. Sjá nánar umfjöllun um ráðsmenn hér.