Trú- og lífsskoðunarfélög

Sýslumaðurinn Norðurlandi eystra annast skráningu og eftirlit með skráðum trúfélögum og lífsskoðunarfélögum á grundvelli laga nr. 108/1999 og reglugerðar 106/2014.

Umsókn um skráningu trú- eða lífsskoðunarfélags

Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra annast skráningu á skráðum trúfélögum og lífsskoðunarfélögum í samræmi við lög nr. 108/1999 og reglugerð 106/2014. Embættið hefur jafnframt eftirlit með starfsemi þeirra félaga sem hlotið skráningu. 

Allar fyrirspurnir er varða þetta málefni skulu sendar á netfangið truoglif@syslumenn.is  eða þeim beint til Halldórs Þormars Halldórssonar á skrifstofu embættisins á Siglufirði. Heimilisfangið er Gránugata 4-6, 580 Siglufirði.

Við umsókn um skráningu ber að gera grein fyrir eftirfarandi:

 • Heiti félags, kennitala og heimilisfangi þess.
 • Nöfn stjórnarmanna og forstöðumanns, ásamt kennitölum.

Með umsókn þurfa að fylgja:

 • Nákvæmt félagatal þar sem fram koma nöfn, kennitölur og heimili félagsmanna.
 • Stefnuskrá og/eða trúarkenningar félagsins og tengsl þeirra við önnur trúarbrögð, trúarhreyfingar eða aðrar lífsskoðanir  eða lífsskoðunarfélög.
 • Áætlanir um starfsemi félagsins, svo sem reglulegt samkomuhald eða annað sem gefur til kynna að starfsemi þess sé stöðug og virk.
 • Reglur sem gilda um ráðstöfun fjármuna félagsins.


Eftirlit með skráðum trúfélögum og lífsskoðunarfélögum

Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra fer með eftirlit með trúfélögum og lífsskoðunarfélögum í samræmi við 5. gr. laga um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög. Það er skrifstofa embættisins á Siglufirði sem fer með verkefnið.

Þeim félögum sem þegar hafa hlotið skráningu ber í samræmi við ákvæði laganna að tilkynna til embættisins ef forstöðumaður félags lætur af störfum og annar tekur við, eða ef hann telst ekki lengur uppfylla skilyrði 7. gr. laganna um hæfisskilyrði.  Þá ber einnig að tilkynna ef félagið hefur í hyggju að tilnefna staðgengil eða staðgengla forstöðumanns, enda þarf sýslumaður að veita sérstakt leyfi fyrir því.  Þá skulu hin skráðu félög senda embættinu skýrslu fyrir 31. mars ár hvert þar sem gerð er grein fyrir:

 1. Nafni og heimilisfangi félags og breytingum þar á
 2. Starfi forstöðumanns, skipun hans eða starfslokum, eða breyttu heimilisfangi hans
 3. Verulegum breytingum á þeim kenningum sem félagið starfar eftir, eða varðandi samkomuhald aðra starfsemi, sem og á skipulagi félagsins
 4. Yfirlit yfir reglulega starfsemi og athafnir
 5. Ráðstöfun fjármuna félagins
 6. Helstu eignir og eignabreytingar