Leyfi til tilfærslu á líkum í kirkjugörðum
Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra veitir leyfi til tilfærslu líka í kirkjugarði eða flutning þeirra í annan kirkjugarð eða í grafreit, samanber reglugerð nr. 105/2014 um leyfi til tilfærslu eða flutnings líka. Skrifstofa embættisins á Siglufirði annast umsjón þessa málaflokks.
Leyfi til flutnings á líkum milli grafreita
Um er að ræða leyfi til þess að lík sem þegar hefur verið jarðsett í grafreit verði grafið upp og flutt í annan grafreit. Ástæður fyrir slíkum tilflutningi geta verið nokkrar, en þetta á einkum við þegar heimagrafreitir eru lagðir niður, eða að einstaklingur hefur látist og verið jarðsettur í grafreit þar sem ekki er til dæmis pláss fyrir maka hans sem andast síðar.
Um þetta gilda eftirfarandi reglur:
- Um leyfið geta sótt, maki, sambúðarmaki, börn, eða aðrir niðjar og foreldri og systkini hins látna.
- Í umsókninni þarf að koma fram dánardægur hins látna, aldur hans á dánardegi, greftrunardagur og dánarmein ef það er vitað, þá þarf að koma fram ástæða fyrir flutningi og hver nýr greftrunarstaður verður
- Umsókn ber að beina til sýslumannsins á Norðurlandi eystra, skrifstofu að Gránugötu 4-6, 580 Siglufirði eða til kirkjugarðsstjórnar í viðkomandi kirkjugarði, sem framsendir erindið til sýslumanns ef hún samþykkir flutninginn.
- Kirkjugarðsstjórn þar sem viðkomandi er grafinn þarf að samþykkja flutninginn, eða á báðum stöðum ef um er að ræða flutning á milli kirkjugarða.
- Sýslumaður gefur út leyfið eftir að hafa fengið samþykki biskups fyrir flutningnum, sem og samþykki yfirlæknis á heilsugæslu.
Umsóknir sendist bréflega til kirkjugarðstjórnar á hverjum stað, eða til skrifstofu sýslumannsembættisins á Norðurlandi eystra, Gránugötu 4-6, 580 Siglufirði. Athugið að nokkurn tíma getur tekið að afgreiða umsóknir svo sækja þarf um tímanlega, ef vilji stendur til að framkvæmdin verði á tilteknum degi.
Fyrirspurnum má beina til Halldórs Þormars Halldórssonar hjá embættinu í síma 458 2600, eða á netfangið truoglif@syslumenn.is