Leyfi til sölu notaðra ökutækja

Í 12. gr. laga nr. 28/1998 um verslunaratvinnu segir að hver sá sem vill reka verslun eða umboðssölu með notuð ökutæki skuli hafa til þess sérstakt leyfi sýslumanns í því umdæmi þar sem föst starfsstöð bifreiðasala er.

 Samkvæmt 11. gr. laganna nær leyfi sýslumanns til eftirgreindrar starfsemi:

 1. Milliganga um sölu notaðra skráningarskyldra ökutækja þegar slík viðskipti eru þáttur í atvinnustarfsemi milligönguaðila.
 2. Sala á notuðum skráningarskyldum ökutækjum í eigu seljandans þegar slík viðskipti eru þáttur í atvinnustarfsemi hans.

Skilyrði fyrir útgáfu leyfis 

Leyfi til sölu notaðra ökutækja eru veitt einstaklingum eða lögaðilum sem uppfylla eftirtalin skilyrði:

 • Eru búsettir á Íslandi.  Skilyrðið um búsetu á þó ekki við um ríkisborgara og lögaðila annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyinga og lögaðila í Færeyjum.
 • Hafa náð tuttugu ára aldri.
 • Eru lögráða og mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld, svo og lögum um sölu notaðra ökutækja.
 • Hafa forræði á búi sínu.
 • Hafa lagt fram skírteini því til sönnunar að þeir hafi tekið ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi sem hefur heimild til að veita þjónustu á Íslandi, aflað sér bankatryggingar eða lagt fram aðrar tryggingar sem ráðherra metur gildar og bæta viðskiptamönnum tjón er þeir kunna að baka þeim með störfum sínum sem bifreiðasalar. Nánari ákvæði um ábyrgðartrygginguna, m.a. um lágmarksfjárhæð og vátryggingarskilmála, skulu ákveðin með reglugerð.
 • Hafa sótt námskeið og lokið þar prófi samkvæmt prófkröfum sem settar eru í reglugerð3) sem ráðherra ákveður. Kostnað vegna námskeiða og prófa skal greiða með kennslu- og prófgjöldum er viðskiptaráðuneytið ákveður. Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði mæli sérstakar ástæður með því.
 • Allir stjórnarmenn lögaðila skulu fullnægja skilyrðum um búsetu, aldur, lögræði, sakaferil og búsforræði.  Hafi aðili verið sviptur starfsleyfi skal hann sitja námskeið og standast prófkröfur, áður en honum er veitt starfsleyfi á ný.

Umsókn um leyfi til sölu notaðra ökutækja

Umsóknum um leyfi til sölu notaðra ökutækja skal beina til viðkomandi sýslumanns. Með umsóknum skal leggja fram eftirfarandi gögn:

 • Vottorð um skráningu í firmaskrá / hlutafélagaskrá, sé umsækjandi lögaðili.
 • Afrit af skírteini starfsábyrgðartryggingar. Tryggingin skal gefin út á starfsemina en ekki tiltekna starfsmenn.
 • Afrit af prófskírteini forsvarsmanns sem staðfestir að viðkomandi hafi staðist próf prófnefndar bifreiðasala.
 • Sakavottorð forsvarsmanns og stjórnarmanna.
 • Vottorð um að forsvarsmaður og stjórnarmenn hafi forræði á búi sínu.
 • Búsetuvottorð forsvarsmanns og stjórnarmanna.
 • Sé stjórnarmaður ríkisborgari í ríki sem aðili er að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið skal leggja fram staðfestingu á ríkisfangi hans.

Próf bifreiðasala

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra skipar prófnefnd bifreiðasala sem sér um að halda próf fyrir bifreiðasala að undangengnu námskeiði þar sem m.a. er fjallað um réttarreglur um bifreiðasala, kauparétt, samningarétt, veðrétt og annað er viðkemur störfum bifreiðasala.

Nánari upplýsingar um tilhögun prófa, námskeiðslýsingar og fleira er að finna á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Eftirlit með starfsemi bifreiðasala

Eftirlit með starfsemi bifreiðasala er í höndum sýslumanns í því umdæmi þar sem starfsstöð bifreiðasala er.  

Sýslumaður heldur skrá yfir þá sem hafa leyfi til sölu notaðra ökutækja.

Nú fylgir bifreiðasali ekki lögum og reglum sem um starfsemi þessa gilda þrátt fyrir tilmæli sýslumanns eða fullnægir ekki skilyrðum laganna og skal sýslumaður þá að undangenginni aðvörun svipta viðkomandi starfsleyfi. Ákvörðun um sviptingu starfsleyfis er unnt að skjóta til ráðherra. Enn fremur má leita úrskurðar dómstóla.

Nú rekur aðili starfsemi sem leyfi þarf til samkvæmt lögum þessum án tilskilinna réttinda og skal þá sýslumaður þegar í stað stöðva þá starfsemi, þar á meðal með lokun starfsstöðvar.


Uppfært 26.02.2019.