Áfengisleyfi
Leyfi til framleiðslu, innflutnings eða heildsölu áfengis
Almenn skilyrði fyrir veitingu leyfis til framleiðslu, innflutnings eða heildsölu áfengis skv. 5. - 9. gr. áfengislaga nr. 75/1998:
Að aðili stundi í atvinnuskyni eitt af neðangreindu eða hafi leyfi til tollfrjálsrar verslunar:
- Innflutning og/eða heildsölu skv. lögum nr. 28/1998 um verslunaratvinnu.
- Framleiðslu áfengra drykkja og hafi til þess iðnaðarleyfi skv. iðnaðarlögum nr. 42/1978.
- Veitingarekstur í atvinnuskyni og hafi til þess leyfi til áfengisveitinga skv. lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.
Að aðili hafi tilkynnt ríkisskattstjóra um atvinnustarfsemi sína og verið færður á fyrirtækjaskrá
samkvæmt lögum um fyrirtækjaskrá.
Að aðili hafi tilkynnt ríkisskattstjóra um starfsemi sína samkvæmt lögum um virðisaukaskatt.
Sæki einstaklingur um skal hann vera orðinn 20 ára. .
Sæki félag með ótakmarkaðri ábyrgð um leyfi skulu eigendur og framkvæmdastjóri þess vera orðnir 20 ára.
Sæki félag með takmarkaðri ábyrgð skulu allir stjórnarmenn og framkvæmdastjóri þess vera orðnir 20 ára.
Gildistími leyfa og gjaldtaka
Framleiðslu-, innflutnings- eða heildsöluleyfi sem gefið er út til umsækjanda í fyrsta sinn gildir í eitt ár.
Ef leyfi er endurnýjað að ári er gildistími þess ótímabundinn, sbr. þó afturköllun skv. 24. gr. áfengislaga.
Útgefin leyfi eru bundin við nafn og kennitölu leyfishafa. Taki nýr aðili við rekstri skal hann sækja um nýtt leyfi.
Greiða skal gjald fyrir útgáfu nýs leyfis og endurnýjun þess, svo og eftirlitsgjald, skv. lögum um aukatekjur ríkissjóðs nr. 88/1991.
Leyfissviptingar, refsingar, eftirlit o.fl.
Leyfisveitandi skal afturkalla leyfi sem gefið er út samkvæmt lögum þessum ef leyfishafi fullnægir ekki lengur skilyrðum þeirra til að fá útgefið slíkt leyfi.
Verði leyfishafi uppvís að vanrækslu á skyldum sem á honum hvíla eða hann uppfyllir ekki skilyrði sem um reksturinn gilda skal leyfisveitandi veita honum skriflega áminningu. Áminning hefur gildi í tvö ár frá því hún hefur verið birt leyfishafa. Verði leyfishafi uppvís að frekari vanrækslu meðan áminning er í gildi varðar það sviptingu leyfis um ákveðinn tíma. Brot gegn áfengislögum og reglum settum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að sex árum.
Innflutningur, sala eða framleiðsla áfengis án leyfis varðar fangelsi auk sektar ef áfengið hefur verið ætlað til sölu eða veitinga fyrir borgun og brot er margítrekað eða að öðru leyti stórfellt.
Lögreglustjóri í því umdæmi þar sem starfsstöð leyfishafa er hefur eftirlit með starfsemi leyfishafa, auk þess að hafa almennt eftirlit með framleiðslu, sölu og meðferð áfengis skv. áfengislögum nr. 75/1998 .
Ríkisskattstjóri og tollstjóri hafa auk þess með höndum eftirlit með starfsemi leyfishafa, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 828/2005 .