Heimagisting

ATH. Opnað hefur verið fyrir nýskráningu heimagistingar og endurnýjun á heimagistingu vegna almanaksársins 2021. Einnig verið opnað fyrir skil á nýtingaryfirliti vegna almanaksársins 2020.  

ATH. Listi yfir skráðar heimagistingar almanaksárið 2021 er í vinnslu og verður birtur von bráðar.

Einstaklingum (ekki lögaðilum) er heimilt að skrá heimagistingu gegn endurgjaldi á fasteign þar sem þeir eru með skráð lögheimili eða í einni annarri fasteign sem þeir hafa til persónulegra nota og er í þeirra eigu (þinglýst eign).

Skráning heimagistingar:

Einstaklingur sem hyggst bjóða heimagistingu skal tilkynna sýslumanni að hann hyggist leigja út lögheimili sitt eða eina aðra fasteign í sinni eigu (þinglýst). Við skráningu ber viðkomandi aðila að staðfesta að húsnæðið uppfylli kröfur í reglugerð um brunavarnir, það hafi hlotið samþykki sem íbúðarhúsnæði og að húsnæðið sé fullnægjandi með tilliti til hollustuhátta samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Endurnýja þarf skráningu á ári hverju og við lok hvers almanaksárs skal aðili með skráða heimagistingu skila til sýslumanns yfirliti um þá daga sem húsnæði var leigt út ásamt upplýsingum um leigutekjur. Skil á upplýsingum skv. 1. málsl. er skilyrði fyrir endurnýjun skráningar á næsta almanaksári. Sýslumanni er heimilt að senda upplýsingar skv. 1. málsl. til skattyfirvalda.


Við skráningu heimagistingar skal sýslumaður úthluta aðila númeri skráningar og ber aðila að nota númerið í allri markaðssetningu og kynningu, þ.m.t. á vefsíðum, bókunarsíðum, á sjálfri fasteigninni og í auglýsingum hvers konar.

Fjöldi útleigðra daga í báðum eignum skal ekki fara yfir 90 daga samanlagt á hverju almanaksári hjá hverjum einstaklingi né skulu samanlagðar tekjur af leigu eignanna ekki nema hærri fjárhæð en kveðið er á um í 3. tölul. 4. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, sem nú er 2.000.000 kr.

Afskráning og synjun skráningar

Sýslumaður skal afskrá heimagistingu verði aðili uppvís að því að leigja út húsnæði sitt í heimagistingu til lengri tíma en 90 daga á ári hverju eða fyrir hærri fjárhæð en kveðið er á um í 3. tölul. 4. gr. laga um virðisaukaskatt.

Áður en  til afskráningar kemur skal sýslumaður senda skráningaraðila tilkynningu þar um þar sem fram kemur tilefni afskráningar og skal skráningaraðila gefinn frestur til að andmæla eða bæta úr annmörkum sé það mögulegt.

Sýslumaður skal enn fremur synja um skráningu hafi heimagisting ítrekað verið afskráð, nýtingaryfirliti og upplýsingum um leigutekjur ekki verið skilað eða aðili ítrekað misnotað skráningu sína.

Sýslumanni er heimilt að senda tilkynningar um fyrirhugaða afskráningu með rafrænum hætti á uppgefið netfang skráningaraðila.

Um gjald fyrr skráningu heimagistingar sjá hér.

Lög og reglugerð um heimagistingu:

Nánar er kveðið á um heimagistingu og skilyrði hennar í lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og lögum nr. 67/2016 um breytingu á þeim lögum .

Þá gilda um heimagistingu ákvæði reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sem tók gildi 1. janúar 2017.

Netfang umsjónar heimagistingar er heimagisting@syslumenn.is 

 

Uppfært 20.01.2021.

Spurningar og svör

Hvað kostar að skrá heimagistingu?


Það kostar 8.500 kr. að skrá heimagistingu.

Hvað gildir skráningin lengi?


Skráningin gildir út almannaksárið. Endurnýja þarf skráningu á hverju ári ef ætlunin er að halda starfsemi áfram. Við lok hvers almanaksárs skal aðili með skráða heimagistingu skila til sýslumanns yfirliti yfir þá daga sem húsnæði var leigt út ásamt upplýsingum um leigutekjur. 

Hvað getur heimagisting rúmað marga?

 
Ef leigð eru út fleiri en fimm herbergi eða rými fyrir fleiri en 10 einstaklinga í heimagistingu telst um gististað í flokki II að ræða þrátt fyrir að önnur skilyrði um heimagistingu séu uppfyllt

Getur félag skráð heimagistingu?

 
Nei. Skráning heimagistingar er bundin við einstaklinga. Vilji félag stunda gistirekstur þarf að sækja um hefðbundið rekstrarleyfi samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Hvaða áhrif hefur skráning heimagistingar á fasteignagjöld?

 
Samkvæmt  5. mgr. 13 gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, eins og henni  var breytt með lögum nr. 67/2016 um breytingu á lögum nr. 85/2007, telst heimagisting sem uppfyllir skilyrði laganna (þ.e. um að ekki sé seld heimagisting meira en 90 daga á hverju almanaksári og tekjur af henni séu að hámarki 2.000.000 kr.) ekki fara fram í atvinnuhúsnæði í skilningi laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995

Ef óskað er frekari upplýsinga skal vísað til sveitarfélags þar sem eign er að finna.

Hvað gerist ef ég nota ekki úthlutað skráninganúmer í markaðssetningu á bókunarvefjum á borð við airbnb.com og booking.com?

 
Þá er um að ræða brot á reglum um heimagistingu eða brot á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Geta slík brot varðað stjórnvaldssektum sem numið geta frá 10 þús. kr. til millj. kr. 

Hvað gerist ef ég stunda skammtímaleigu án skráningar eða rekstrarleyfis? 


Þá er um að ræða brot á reglum um heimagistingu eða brot á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald eftir umfangi starfsmi. Geta slík brot varðað stjórnvaldssektum sem numið geta frá 10 þús. kr. til millj. kr.  Samkvæmt 23. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald skal lögreglustjóri án fyrirvara eða aðvörunar stöðva leyfisskylda starfsemi sem fer fram án rekstrarleyfis.

Hvernig er skattlagningu af tekjum vegna heimagistingar háttað?

 
Fyrir frekari upplýsingar um skattheimtu vísast til embættis ríkisskattstjóra, www.rsk.is.

 Hvaða skatta greiði ég af heimagistingu?

 
Tekjur einstaklinga af útleigu sem fellur undir heimagistingu teljast vera fjármagnstekjur og eru skattlagðar á sama hátt og aðrar slíkar tekjur. Ekki er heimilt að færa neinn frádrátt á móti tekjunum. Gera þarf grein fyrir tekjunum í skattframtali (reitur 511) og er skatturinn ákvarðaður við álagningu. Við álagningu 2018 er skatthlutfallið 20% af tekjunum en við álagningu 2019 verður það 22% af tekjunum.

Hámarksfjárhæð tekna af heimagistingu getur ekki orðið hærri en 2.000.000 kr. á ári og er þá miðað við tekjur samtals ef um er að ræða útleigu á fleiri en einni eign. Fari fjárhæðin umfram 2.000.000 kr. telst vera um að ræða tekjur af atvinnurekstri og þarf að gera grein fyrir þeim í skattframtali sem slíkum.  

Frekari upplýsingar um fjármagnstekjur má finna hér:

https://www.rsk.is/einstaklingar/tekjur-og-fradraettir/fjarmagnstekjur/

 

Má ég selja heimagistingu ef ég flyt lögheimili mitt þar sem heimagisting var skráð?


Nei. Ekki ef grundvöllur skráningar heimagistingar hefur verið lögheimili þess sem skráði en ekki fasteign í hans eigu til persónulegra nota. Ber þegar að tilkynna sýslumanni flutning lögheimilis þannig að afskrá megi eign.  

Getur annar einstaklingur leigt út heimagistingu í sama húsnæði eftir að sá sem fyrst skráir sig hefur leigt út í 90 daga?


Nei.  Samkvæmt lögum nr. 67/2016 er hámarkstími heimagistingar í hverri fasteign 90 dagar á ári.   

Hvað gerist ef ég leigi út í meira en 90 daga eða fyrir hærri fjárhæð en 2.000.000?


Þá er um að ræða brot á reglum um heimagistingu og getur það varðað afskráningu heimagistingar á nafni viðkomandi, synjun nýrrar skráningar árið eftir, viðurlögum í formi sektar og eftir atvikum tilkynningu til ríkisskattstjóra og sveitarfélags um að starfsemi sem flokka megi sem atvinnurekstur fari fram í viðkomandi húsnæði. 

Þarf ég að greiða gistináttagjald af heimagistingu?

 
Nei. Gistináttaskattur er einungis lagður á virðisaukaskattskylda veltu. Ef heimagisting er innan löglegra marka um samanlagða 90 daga útleigu og samanlagðar 2.000.000 kr. hámarkstekjur af starfseminni þarf ekki að greiða gistináttagjald af heimagistingu.

Get ég skráð heimagistingu í fjölbýlishúsi án samþykkis annarra eigenda?

 
Samþykki annarra eigenda í fjölbýlishúsi er ekki áskilið fyrir skráningu heimagistingar. Samkvæmt fjöleignahúslögum þarf hins vegar að afla samþykkis frá öðrum eigendum þegar um er að ræða meiri háttar breytingu á hagnýtingu séreignar. Sé uppi ágreiningur um það hvort umfang skráðrar heimagistingar í fjölbýli nái því marki að teljast meiri háttar breyting á hagnýtingu séreignar, geta aðilar leitað með ágreiningin til kærunefndar húsamála.

Hvert tilkynni ég óskráða heimagistingu


Upplýsingar og ábendingar um óskráða heimagistingu má senda á netfangið heimagisting@syslumenn.is .  Það athugist að því nákvæmari upplýsingar sem berast því auðveldara er fyrir sýslumann að bregðast við.  Æskilegt er að með ábendingum eða fyrirspurnum um óskráða heimagistingu fylgi sem nákvæmastar upplýsingar um staðsetningu starfseminnar sem og nafn rekstraraðila. Þá er ágætt að láta fylgja með skjáskot og/eða tengla af bókunarsíðum þar sem gististarfsemin er auglýst.

Þarf ég að skrá heimagistingu ef ég er með gilt rekstrarleyfi?


Nei, rekstrarleyfi sem gefin voru út í gildistíð eldri laga halda sínu gildi út gildistímann.

Er gæludýr á heimilinu þar sem rekin er heimagisting?


Ef gæludýr eru á heimili þar sem rekin er heimagisting, skal það koma fram í markaðssetningu og gestum tilkynnt það sérstaklega þegar bókað er. 

Er neysluhæft vatn í sumarhúsinu þar sem rekin er heimagisting?


Ef ekki er hægt að tryggja aðgengi að neysluvatni í sumarhúsi þar sem rekin er heimagisting, skal koma fram í markaðssetningu að vatnið sé óneysluhæft og gestum tilkynnt það sérstaklega þegar bókað er og gefa til kynna við krana að vatn sé óneysluhæft á myndrænan hátt með merki, sbr. ÍST EN 7010.

Hvernig sýni ég fram á að aðgengi sé að neysluvatni? 


Sumarhúsið er tengt við opinbera vatnsveitu eða að til sé vottorð um að vatnið sé neysluhæft.

 Hvernig nálgast ég bókunarsögu mína á Airbnb?


Hægt er að nálgast upplýsingar um bókunarsögu frá airbnb með því að far í „Account Settings“ og velja svo „Transaction History“

Nánari upplýsingar má finna hér:

https://www.airbnb.com/help/article/304/where-do-i-find-my-payout-information