Friðlýsing æðarvarpa

Fjallað er um friðlýsingu æðarvarpa í reglugerð nr. 252/1996 um friðun tiltekinna villtra fuglategunda, friðlýsingu æðarvarps, fuglamerkingar, hamskurð o.fl.

Þar segir:

Sýslumaður annast friðlýsingu æðarvarps. Beiðni til sýslumanns um friðlýsingu æðarvarps skal koma frá landeiganda, ábúanda eða umráðamanni æðarvarps. Skal í beiðninni tilgreina staðsetningu og mörk varpsins eða sýna svæðið skýrt á viðurkenndu korti eða loftmynd. Sýslumaður getur krafist þess að beiðni um friðlýsingu fylgi staðfesting tveggja kunnugra manna um að æðarvarp sé á umræddu svæði eða að líklegt sé að koma megi þar upp æðarvarpi. Sýslumaður skal fá staðfestingu byggingarfulltrúa um að aðstöðu sé rétt lýst.

Ákvörðun um friðlýsingu æðarvarps skal birt í Lögbirtingablaðinu og gildir í 10 ár frá birtingu.

Sýslumaður skal halda skrá um friðlýst æðarvörp og skal hún liggja frammi á skrifstofu hans. Skrá þessi, ásamt síðari breytingum, skal send til viðkomandi sveitastjórnar, embættis veiðistjóra og hlunnindaráðunautar Bændasamtaka Íslands.

Umsækjandi ber kostnað við friðlýsingu æðarvarps.

Friðlýsing æðarvarps gildir á tímabilinu frá 15. apríl til og með 14. júlí ár hvert. Friðlýsingin felur það í sér að öll skot eru bönnuð nær friðlýstu æðarvarpi en 2 km, nema brýna nauðsyn beri til. Á sama tíma má eigi án leyfis varpeiganda leggja net í sjó nær friðlýstu æðarvarpi en 250 m frá stórstraumsfjörumáli. Jafnframt felur friðlýsingin í sér að innan friðlýstra svæða er öll óviðkomandi umferð og röskun bönnuð, svo og óþarfa hávaði af völdum manna og véla, nema með leyfi varpeiganda. Friðlýst æðarvörp skal auðkenna með áberandi hætti, þar sem því verður við komið. Í óbyggðum eyjum og hólmum á þetta ekki við.

Yfirfarið 30.08.2016.