Utanlandsferð barns

Fari foreldrar sameiginlega með forsjá barns er öðru foreldrinu óheimilt að fara með barnið úr landi án samþykkis hins. 

Til að tryggja formlega staðfestingu á samþykki foreldris, sem ekki fylgir barni úr landi, má ganga frá sérstakri yfirlýsingu um samþykki þess (sjá eyðublað hér t.h.). Ef annar fulltíða einstaklingur fer með barnið úr landi þarf staðfestingu beggja foreldra ef þau fara bæði með forsjá barns.

Ef ágreiningur er um utanlandsferð barns má leita úrskurðar sýslumanns.  

Staðfesting á heimild til að ferðast með barn eða börn milli landa

Þegar ferðast er með barn á milli landa, eða ef barn ferðast eitt, kunna landamærayfirvöld að krefjast sönnunar þess að barnið hafi heimild til ferðarinnar frá foreldrum eða forsjármönnum. Sé ekki sýnt fram á það getur viðkomandi átt á hættu að tefjast eða vera synjað um komu eða brottför.

Sé ætlunin að annar forsjáraðili eða aðrir ferðist með barn erlendis, eða að barn ferðist eitt, er ráðlagt að útbúin sé sérstök samþykkisyfirlýsing fyrir ferð barnsins. Ekki er lagaskylda að hafa meðferðis slíka yfirlýsingu en mælt er með því að slík sérstök heimild sé útbúin og höfð meðferðis.  Hefur til hægðarauka verið útbúið eyðublað fyrir slíka yfirlýsingu. Ekki er þó áskilnaður um að þetta tiltekna eyðublað sé notað.  Ef textinn þykir ekki eiga alls kostar við má einnig nálgast word útgáfu eyðublaðsins. Geta aðilar þá lagað textann að þörfum sínum. Æsklegt er að auk íslensku sé textinn á ensku eða tungu þess lands sem ferðast er til.

Mikilvægt er að það efni sem skráð í yfirlýsingunni sé efnislega rétt og skal í því sambandi bent á 10. gr. laga nr. 136/1998 um vegabréf þar sem fram kemur að það varði sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef maður gefur rangar upplýsingar um forsjá barns í þeim tilgangi að gefið verði út vegabréf til þess án samþykkis. 

Mælt er með því að undirskrift á samþykkisyfirlýsingu sé vottuð af lögbókanda (notarius publicus), og er leitað til sýslumanna til að fá slíka vottun.  Til að sýslumaður geti vottað undirskriftir einstaklinga, þurfa einstaklingar að mæta í eigin persónu til sýslumanns og framvísa löglegum persónuskilríkjum (vegabréf, ökuskírteini eða nafnskírteini).

Einnig er gert ráð fyrir því í eyðublaðinu að undirskriftin geti verið vottuð af tveimur vottum, en það á aðeins við ef skjalið er ekki vottað af lögbókanda.   Mikilvægt er því að til grundvallar staðfestingu lögbókanda liggi fyrir forsjárvottorð Þjóðskrár áður en staðfesting fer fram. Vottorðið má panta rafrænt á vef Þjóðskrár Íslands, www.skra.is.

Samþykkisyfirlýsingin lýtur að því að foreldrar/forsjármenn samþykki að barn fari til tiltekins/ tiltekinna landa erlendis, á tilteknum tíma eða tímabili, sem getur verið meira en eitt ár, eitt síns liðs, eða í fylgd annars einstaklings.

Ef foreldrar/forsjármenn eru tveir og hvorugur ferðast með barninu, er rétt að báðir gefi samþykkisyfirlýsinguna. Ef um er að ræða fleiri en eitt barn, er gerð sérstök yfirlýsing fyrir hvert þeirra.

Leita má eftir staðfestingu utanríkisráðuneytis á undirskrift lögbókanda á skjalið og er með því leitast við að tryggja enn frekar að skjalið verði tekið gilt af erlendu stjórnvaldi. Sjá nánar gátlista sem borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hefur tekið saman um atriði sem rétt er að huga að áður en haldið er af stað í ferðalag, þar á meðal þegar annað forsjárforeldra barns eða aðrir en forsjárforeldrar ferðast með börn.

Einstaklingur undir 18 ára aldri telst barn samkvæmt íslenskum lögum. Ef lög áfangalands eru um hærri aldur þá er ráðlagt að hafa meðferðis samþykkisyfirlýsingu ef sá sem ferðast hefur ekki náð þeim aldri. 

Fæðingarvottorð barns, sem sýnir hverjir eru foreldrar þess, er hægt að fá útgefið hjá Þjóðskrá Íslands. Þar er einnig hægt að fá vottorð um það hverjir fara með forsjá barns. Þessi gögn kann að vera gagnlegt að hafa meðferðis. Sjá nánar á vef Þjóðskrár Íslands.

Ágreiningur um utanlandsferð barns

Ef foreldrar sem fara sameiginlega með forsjá barns greinir á um utanlandsferð barns úrskurðar sýslumaður, að kröfu foreldris, um rétt til að fara í ferðalag með barn úr landi, samanber 51. gr. a barnalaga. Við úrlausn máls skal meðal annars líta til tilgangs ferðar, tímalengdar og áhrifa á umgengni.

Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 61/2012 segir meðal annars um ákvæðið að það standi í beinum tengslum við þá reglu að foreldri sé óheimilt að fara með barn úr landi án samþykkis hins þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns. Markmiðið með 51. gr. a er að tryggja að annað foreldri geti ekki staðið í vegi fyrir því að barn geti tekið þátt í skipulögðu frí eða ferðalagi til útlanda með hinu forsjárforeldri sínu. Þá má gera ráð fyrir að ákvæðið geti aukið samráð með því að hvetja foreldra til að leita samþykkis tímanlega til að unnt verði að fá úrskurð ef þörf krefur. 

Vert er að geta þess að ágreiningur um ferðalög til útlanda þykir allt annars eðlis en ágreiningur sem kann að rísa um flutning barns til annars lands. Ef lögheimilisforeldri vill flytja með barn úr landi án þess að fyrir liggi samþykki hins foreldrisins þykir rétt að dómstólar leysi þann ágreining sem myndi þá kalla á dóm um fyrirkomulag forsjárinnar. Í 2. mgr. er vikið að þeim sjónarmiðum sem helst ber að líta til þegar kveðinn er upp úrskurður um ferðalag til annars lands, þ.e. tilgangs ferðar, tímalengdar og áhrifa á umgengni. Þegar metinn er tilgangur ferðar er gert ráð fyrir að sérstaklega verði metið hvort álitin er hætta á að ekki verði snúið með barnið aftur til baka.

Um ólögmætt brottnám barna sjá hér