Meðlag

Á hverjum hvílir skylda til að framfæra barn?

Foreldrum barns ber skylda til þess að framfæra það. Með skyldu til framfærslu er átt við að foreldrum sé skylt að fæða og klæða barn og sjá því fyrir húsnæði, eða að leggja til fjárframlög í þessum tilgangi. Framfærslunni skal haga með hliðsjón af högum foreldranna og þörfum barnsins.

Stjúpforeldri og sambúðarforeldri ber einnig skylda til að framfæra barn maka síns en sú framfærsluskylda er einungis virk meðan hjúskapur eða sambúð við foreldri barns varir og einungis ef viðkomandi fer með forsjá barnsins ásamt foreldri þess.

Framfærsluskyldu foreldra lýkur þegar barn verður 18 ára, samanber þó um menntunarframlag hér að neðan. Ef barn giftist áður en það verður 18 ára fellur framfærsluskyldan þó niður nema sýslumaður ákveði að hún skuli haldast til 18 ára aldurs.

Þótt foreldri búi ekki á heimili barns síns ber því engu að síður að annast framfæslu þess.  Er þá gert ráð fyrir að það foreldri greiði hinu foreldrinu  meðlag með barni sínu, en meðlag eru reglulegar greiðslur (mánaðarlegar) greiðslur sem foreldri greiðir til framfærslu barns síns.

Hver getur krafist meðlags?

Það er sá sem greiðir kostnað vegna framfærslu barns sem getur krafist meðlags en viðkomandi verður að fara með forsjá þess eða barnið búi hjá viðkomandi með lögmætum hætti.

Ef foreldrar fara saman með forsjá barns (sameiginleg forsjá) getur það foreldri sem barnið á lögheimili hjá krafist þess að hinu foreldrinu verði gert að greiða meðlag.

Meðlagið tilheyrir barninu,en sá sem annast framfærsluna tekur við greiðslunum og notar til framfærslu barnsins.

Hvenær á að ákveða meðlagsgreiðslur?

Foreldrar verða að ákveða meðlagsgreiðslur um leið og forsjá barns er ákveðin, t.d. þegar hjón skilja, skráðri sambúð er slitið og við aðrar breytingar á forsjá barns.

Ef foreldrar semja um meðlagsgreiðslurnar verður sýslumaður að staðfesta samninginn svo hann öðlist gildi skv. barnalögum nr. 76/2003.

Ef ekki næst samkomulag um meðlagið getur sýslumaður úrskurðað foreldri til greiðslu meðlags. Ef foreldrar eiga í forsjármáli fyrir dómi getur dómari ákveðið meðlagsgreiðslur.

Einfalt meðlag

Foreldrum er óheimilt að semja um lægra meðlag en sem nemur barnalífeyri Tryggingastofnunar ríkisins, eins og hann er á hverjum tíma. Það kallast einfalt meðlag. Á sama hátt er óheimilt að úrskurða um lægra meðlag. Nálgast má upplýsingar um fjárhæð meðlags hverju sinni á vef Innheimtustofnunar sveitarfélaga, medlag.is.

Aukið meðlag

Ef meðlagsgreiðandi hefur fjárhagslegt bolmagn til þess að greiða hærra meðlag en sem nemur fjárhæð einfalds meðlags getur sýslumaður (dómari) úrskurðað viðkomandi til greiðslu aukins meðlags.

Ef gerð er krafa um aukið meðlag skal ákveða fjárhæð þess með hliðsjón af þörfum barnsins og fjárhagsstöðu og öðrum högum beggja foreldra, þar á meðal aflahæfi þeirra (möguleikum þeirra til að afla tekna). Þannig er t.d. tekið tillit til þess ef meðlagsgreiðandi hefur fyrir öðrum en eigin börnum að sjá. Á hinn bóginn er almennt ekki tekið sérstakt tillit til þess ef meðlagsgreiðandi hefur á heimili sínu stjúpbörn. Þá hafa eignir og skuldir meðlagsgreiðanda venjulega lítil áhrif við ákvörðun meðlagsfjárhæðar, en slíkt kemur helst til álita ef eignir eða skuldir eru verulega umfram það sem venjulegt getur talist, eða ef til óhjákvæmilegra skulda hefur verið stofnað. Þá er einni litið til aðstæðna barnsins sjálfs og þess foreldris sem það býr hjá. Má nefna að aukin útgjöld vegna sérþarfa eða veikinda barns eða skert aflahæfi foreldris vegna umönnunar barns geta skipt máli við ákvörðun meðlagsfjárhæðar.

Dómsmálaráðuneytið lætur sýslumönnum árlega í té viðmiðunarfjárhæðir sem hafðar eru til leiðbeiningar við ákvarðanatöku í málum vegna krafna um aukið meðlag. Meginmarkmiðið með því að veita slíkar leiðbeiningar er að tryggja að samræmis og jafnræðis sé gætt við ákvarðanatöku í meðlagsmálum, en ekki er fortakslaus skylda að fara eftir þeim.

Samkvæmt bréfi ráðuneytisins frá 5. janúar 2021 eru fjárhæðirnar sem hér segir, en þær eru uppfærðar árlega miðað við vísitölu neysluverðs, sem í desember 2020 var 490,3 stig.

Tekjur á mánuði 1 barn 2 börn 3 börn
U.þ.b. kr. 529.000 Lágm.meðlag + 50% Lágm.meðlag + 25%
U.þ.b. kr. 594.000 Lágm.meðlag + 75%
U.þ.b. kr. 638.000 Lágm.meðlag + 100% Lágm.meðlag + 50% Lágm.meðlag +25%
U.þ.b. kr. 703.000 Lágm..meðlag + 75%
U.þ.b. kr. 774.000 Lágm.meðlag+100% Lágmarksmeðlag + 50%
U.þ.b. kr. 851.000 Lágmarksmeðlag +75%
U.þ.b. kr. 935.000 Lágmarksmeðlag +100%

Við útreikning tekna aðila eru venjulega lagðar til grundvallar meðaltekjur þeirra tvö til þrjú næstliðin ár, m.a. í því skyni að jafna út þær sveiflur sem kunna að vera í tekjuöflun milli ára, án þess að um varanlegar breytingar á tekjum sé að ræða.

Fjárhæðirnar sem tilgreindar eru, eru aðeins til leiðbeiningar sem áður segir, þar sem  eftir sem áður ber að ákveða fjárhæð meðlags með hliðsjón af þörfum barns og fjárhagsstöðu og öðrum högum beggja foreldra, þ. á m. aflahæfi þeirra, sbr. 2. mgr. 57. gr. barnalaga. 

Breytingar á meðlagsgreiðslum

Foreldrar geta hvenær sem er breytt fyrri ákvörðun um meðlag með samningi sín á milli svo framarlega að greitt sé að minnsta kosti einfalt meðlag eftir breytinguna. Sýslumaður verður að staðfesta samning foreldranna.

Sýslumaður getur breytt meðlagsákvörðun ef rökstudd krafa kemur fram um það frá foreldri, en mismunandi kröfur eru gerðar eftir því hvort um samning, úrskurð eða dóm er að ræða. Sýslumaður má breyta samningi foreldra ef; aðstæður hafa breyst verulega; ef samningurinn gengur í berhögg við þarfir barns eða ef samningurinn er ekki í samræmi við fjárhagsstöðu foreldra. Sýslumaður getur á hinn bóginn breytt úrskurði sínum eða dómi ef hagir foreldra eða barns hafa breyst.

Almennt verður samningi, úrskurði eða dómi ekki breytt aftur í tímann heldur miðast breytingin við þann dag er krafan er sett fram eða síðara tímamark.

Greiðsla meðlags

Tryggingastofnun ríkisins er skylt að greiða foreldri bæði meðlag og sérstök framlög hvort sem greiðsluskylda byggir á dómi eða dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi sem staðfestur hefur verið af honum. Meðlagsviðtakandi verður þó að vera búsettur hér á landi til þess að hann njóti greiðslna frá stofnuninni. Þá er greiðsluskylda stofnunarinnar er einnig takmörkuð varðandi meðlag, þ.e. stofnunin greiðir aldrei meira en einfalt meðlag með barni. Meðlagsviðtakandi verður því sjálfur að annast innheimtu aukins meðlags ef það greiðist ekki.

Uppfært 06.01.2021.