Lögheimili barns

Foreldrar með sameiginlega forsjá sem búa ekki saman og vilja flytja lögheimili barnsins frá öðru foreldrinu til hins, þurfa að leita eftir staðfestingu sýslumanns á samningnum, samanber 32. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Aðra flutninga á lögheimili barns skal tilkynna til Þjóðskrár Íslands, Borgartúni 21, Reykjavík, sjá nánar á www.skra.is

“Foreldrar“ eru hér einnig þeir stjúpforeldrar sem hafa fengið forsjá samkvæmt sérstökum samningi á grundvelli 29. gr. a barnalaga.

Foreldrar sem hafa samið um sameiginlega forsjá, hafa jafnframt samið um hjá hvoru þeirra barn hefur lögheimili og þar með að jafnaði búsetu. Ef foreldrarnir vilja breyta samningi sínum um lögheimili, þannig að lögheimili barnsins flytjist frá öðru þeirra til hins, þarf að gera slíkan samning hjá sýslumanni. Þetta á einnig við þegar aðeins annað foreldrið býr á Íslandi.

Beiðni um staðfestingu sýslumanns á samningi um lögheimili barns skal leggja fram á þar til gerðu eyðublaði.

Samningur um lögheimili getur verið tímabundinn, þó ekki til skemmri tíma en 6 mánaða. Að tímabilinu loknu flyst lögheimili til fyrra horfs á ný. Til þess að það gerist þarf að tímabilinu loknu að senda sérstaka flutningstilkynningu til Þjóðskrár Íslands, nægilegt er að sú tilkynning sé undirrituð af foreldrinu sem barn er að flytjast til á ný.

Sýslumaður getur kallað foreldra til viðtals vegna erindis um breytingu lögheimilis. Ef ágreiningur er milli foreldra getur hann boðið þeim sáttameðferð samkvæmt 33. gr. a barnalaga 76/2003. Einnig getur sýslumaður boðið aðilum upp á ráðgjöf samkvæmt 33. gr. barnalaga.

Samningur um breytingu lögheimilis öðlast gildi við staðfestingu sýslumanns. Staðfesting sýslumanns er send Þjóðskrá Íslands sem breytir skráðu lögheimili barnsins til samræmis. Hægt er að breyta skipan lögheimilis með nýjum samningi foreldra eða með dómi ef foreldra greinir á um lögheimili.

Samningur um meðlag öðlast gildi við staðfestingu sýslumanns. Hægt er að breyta slíkum samningi með nýjum samningi, eða með því að sýslumaður úrskurði um breytingu á honum. Einnig er hægt að gera meðlagskröfu fyrir dómi ef jafnframt er þar til meðferðar krafa um forsjá eða lögheimili. Meðlagsgreiðslur samkvæmt staðfestum samningi um meðlag eru kræfar með fjárnámi, sbr. 66. gr. barnalaga. Um skyldu Tryggingastofnunar ríkisins til greiðslu til rétthafa meðlags fer samkvæmt 67. gr. barnalaga.

Sýslumaður getur synjað um staðfestingu á samningi um lögheimili og meðlag ef hann þykir andstæður hag og þörfum barns.

Réttaráhrif þess að barn hafi lögheimili hjá foreldri með sameiginlega forsjá

Litið er svo á að barn hafi fasta búsetu hjá því foreldri sem það á lögheimili hjá. Barn á rétt til að umgangast með reglubundnum hætti það foreldri sem það býr ekki hjá og bera foreldrarnir sameiginlega þá skyldu að tryggja rétt barns til umgengni.

Skráning lögheimilis hefur margvísleg áhrif á ýmsum réttarsviðum. Sem dæmi má nefna að skyldur sveitarfélaga til að veita þjónustu innan velferðarkerfisins eru að mestu leyti bundnar við lögheimili eða búsetu í tilteknu sveitarfélagi, t.d. samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, lögum um leikskóla og lögum um grunnskóla. Önnur þjónusta miðast einnig við búsetu í tilteknu umdæmi svo sem samkvæmt lögum um málefni fatlaðra. Þá miða lagareglur stundum gagngert við lögheimili, t.d. lagaákvæði um birtingar í lögum um meðferð einkamála og sakamála og reglur barnaverndarlaga um samstarf og samþykki foreldra vegna tiltekinna ráðstafana.

Foreldrið sem barn er með lögheimili hjá, á rétt á að fá meðlag með barninu frá hinu foreldrinu.

Foreldrið sem barn á lögheimili hjá hefur stöðu einstæðs foreldris samkvæmt skattalögum. Barnabætur vegna barns greiðast framfæranda barns og er við mat á því hver telst framfærandi fyrst og fremst litið til þess hjá hverjum barn er skráð til lögheimilis í árslok hjá Þjóðskrá. Sjá nánar á www.rsk.is

Um ákvarðanatöku foreldra með sameiginlega forsjá er fjallað í 28. gr. a barnalaga en þar segir:

Þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns skulu þeir taka sameiginlega allar meiri háttar ákvarðanir sem varða barn. Ef foreldrar búa ekki saman hefur það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, svo sem um hvar barnið skuli eiga lögheimili innan lands, um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf. Foreldrar sem fara saman með forsjá barns skulu þó ávallt leitast við að hafa samráð áður en þessum málefnum barns er ráðið til lykta. Ef annað forsjárforeldra barns er hindrað í að sinna forsjárskyldum sínum eru nauðsynlegar ákvarðanir hins um persónulega hagi barns gildar.

Samþykki beggja foreldra með sameiginlega forsjá þarf til þess að barn fari til útlanda. Hægt er að krefjast úrskurðar sýslumanns vegna ágreinings foreldra um utanlandsferð barns.

Þegar annað foreldra á umgengnisrétt við barn samkvæmt samningi, úrskurði, dómi eða dómsátt, ber hvoru foreldri að tilkynna hinu með minnst sex vikna fyrirvara, ef foreldri hyggst flytja lögheimili sitt og/eða barnsins hvort sem er innan lands eða utan.