Hjónavígslur

Skilyrði fyrir því að ganga megi í hjónaband - hjónavígsluskilyrði

Eftirfarandi skilyrði þarf að uppfylla svo tveir einstaklingar megi ganga saman í hjónaband:

Aldur

Tveir einstaklingar, óháð kyni, mega stofna til hjúskapar þegar báðir hafa náð 18 ára aldri. Dómsmálaráðuneytið getur veitt yngra fólki leyfi til að ganga í hjúskap, enda liggi fyrir afstaða forsjárforeldra til hjúskaparstofnunarinnar.

Lögræði

Hjónaefni þurfa að vera lögráða. Ef hjónaefni er svipt lögræði getur það ekki gengið í hjónaband nema með samþykki lögráðamanns síns.

Skyldleiki

Systkin og skyldmenni í beinan legg má ekki gefa saman í hjónaband.

Ættleiðing

Kjörforeldri og kjörbarn mega ekki giftast hvort öðru nema ættleiðing sé áður niður felld.

Tvíkvæni

Maður sem þegar er í hjúskap má ekki ganga í hjónaband.

Fjárskipti milli hjónaefnis og fyrri maka

Ef hjónaefni hefur verið í hjúskap er því óheimilt að ganga í hjúskap að nýju nema einkaskiptum sé lokið vegna fjárskipta þess og fyrri maka eða að opinber skipti séu hafin.

Könnun hjónavígsluskilyrða

Til að sýslumaður geti kannað hvort hjónaefni uppfylli skilyrði til að ganga í hjúskap þarf að leggja fram (eða sýna) eftirtalin gögn:

  1. Fæðingarvottorð frá Þjóðskrá Íslands. Hægt að panta hér.
  2. Persónuskilríki, t.d. vegabréf, ökuskírteini eða nafnskírteini. 
  3. Vottorð frá Þjóðskrá Íslands um hjúskaparstöðu eða sambærilegt vottorð frá erlendu yfirvaldi.
    Vottorð skv. þessari grein má ekki vera eldra en átta vikna. Hægt að panta hér.
  4. Gögn um að fyrra hjónabandi sé lokið (ef við á).
    Hafi fyrra hjúskap lokið með lögskilnaðarleyfi útgefnu hér á landi skal leggja fram vottorð Þjóðskrár Íslands um lögskilnað eða leyfisbréf um lögskilnað. Hafi hjónabandi verið slitið með dómi skal leggja dóminn fram. Sé fyrri maki látinn skal leggja fram dánarvottorð frá Þjóðskrá Íslands.  Sérreglur gilda um sönnun fyrir að hjúskap sé lokið hafi það gerst utan Íslands, sjá 7. gr. reglugerðar umkönnun hjónavígsluskilyrða.  

Hverjir annast könnun hjónavígsluskilyrða

Löggildir hjónavígslumenn annast könnun hjónavígsluskilyrða. Það eru sýslumenn, prestar, forstöðumenn skráðra trúfélaga.  Einungis  sýslumenn sjá þó um könnun hjónavígsluskilyrða, ef hjónaefni, annað eða bæði, eiga ekki lögheimili hér á landi. Þetta gildir þó að prestur eða forstöðumaður skráðs trúfélags annist hjónavígsluna sjálfa.

Hjá hvaða sýslumanni fer könnun fram

Könnun hjónavígsluskilyrða fer fram hjá sýslumanni í umdæmi þar sem annað hjónaefna á lögheimili. Ef hvorugt hjónaefna á lögheimili hér á landi á könnun að fara fram í því umdæmi þar sem annað þeirra dvelst.

Hvernig fer könnun fram

Sá, sem kannar hjónavígsluskilyrði, kallar eftir eða afhendir hjónaefnum sérstakt eyðublað, sem nefnt er hjónavígsluskýrslu, og er jafnframt ætlað sem vottorð um könnun hjónavígslu-skilyrða og vottorð svaramanna, sem ábyrgjast að engir lagatálmar séu á fyrirhuguðum hjúskap.  Þetta eyðublað fylla hjónaefni út, en þar er kallað eftir upplýsingum um þau atriði sem eru tilgreind hér að framan, þ.e. aldur, lögræði, fyrri hjúskap o.s.frv.  Þá þurfa tveir svaramenn að undirrita eyðublaðið áður en það er afhent könnunarmanni til áritunar.  Nálgast má eyðublaðið hér á vef Þjóðskrár, www.skra.is .

Svaramannavottorð

Samkvæmt hjúskaparlögum þurfa tveir áreiðanlegir svaramenn að ábyrgjast að ekkert sé því til fyrirstöðu að hjónaefni gangi í hjónaband. Svaramenn árita hjónavígsluskýrsluna / könnunarvottorðið og er það vottorð þeirra um að ekkert sé hjónabandi til fyrirstöðu.

Könnunarvottorð

Þegar könnunarmaður hefur kannað hvort skilyrði fyrir hjónavígslu eru uppfyllt áritar hann hjónavígsluskýrsluna / könnunarvottorðið um það. Er áritunin vottorð um að könnun hafi farið fram.  Hjónavígsla má ekki fara fram nema þetta vottorð liggi fyrir.

Ef hjónaefni eiga ekki lögheimili hér á landi  kanna sýslumenn eða löglærðir fulltrúar þeirra hvort skilyrði fyrir hjónavígslu séu fyrir hendi og þeir árita því hjónavígsluskýrslu/könnunarvottorð í þessum tilvikum.

Hverjir annast hjónavígslur

Sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra annast borgaralegar hjónavígslur, hver í sínu umdæmi.

Aðrar hjónavígslur annast prestar þjóðkirkjunnar eða forstöðumenn annarra skráðra trúfélaga hér á landi sem fengið hafa löggildingu til þess.  Sjá hér á vef sýslumanna.  

Hvar fer hjónavígsla fram

Borgaraleg hjónavígsla

Borgaraleg hjónavígsla fer fram á embætti sýslumanns nema samkomulag verði um annan stað.
Það fer eftir aðstæðum hjá hverju embætti hvort unnt er að verða við óskum um hjónavígslu utan skrifstofu og á örðum tíma en skrifstofutíma (kl. 08:00 til 16:00). Ber að greiða fyrir slíka þjónustu skv. gjaldskrá sem sjá má hér á síðunni til hægri.   

Hjónavígslan

Hjónavígsla skal fara fram í viðurvist tveggja votta, vígsluvotta.  Ekki er nauðsyn að sömu einstaklingar séu svaramenn og vígsluvottar. Eftir að hafa lesið hjónaefnum þýðingu þess að ganga í hjónaband spyr vígslumaður hjónaefni, hvort fyrir sig, hvort þau vilji stofna til hjúskaparins og lýsir hann þau hjón þegar þau hafa játað því.

Skráning hjónavígslu 

Að vígslu lokinni áritar vígslumaður hjónavígsluskýrsluna / könnunarvottorðið og staðfestir þar með að vígslan hafi farið fram. Í framhaldinu sendir hann skýrsluna til Þjóðskrár Íslands sem skráir breytta hjúskaparstöðu í þjóðskrá. 

Gjald fyrir hjónavígslu

Fyrir hjónavígslu hjá sýslumanni ber að greiða samkæmvt lögum um aukatekjur ríkissjóðs, sjá hér.
Ekki er áskilin greiðsla fyrir útgáfu könnunarvottorðs.  

   

Spurningar og svör

Leggja embætti sýslumanna til vígsluvotta við hjónavígslu á skrifstofum embættanna?

Já yfirleitt leggur embættið til vígsluvotta sé þess óskað.

Þurfa svaramenn að vera með íslenskan ríkisborgararétt?

Hvorki hjúskaparlög nr. 31/1993 né reglugerðir settar með heimild í þeim lögum gera áskilnað um að svaramenn séu með íslenskt ríkisfang.

Sjá upplýsingar á um hjónavígslur á ensku hér. 


Uppfært 15.08.2018.