Faðerni

Barn á rétt á að þekkja báða foreldra sína. Móður er skylt að feðra barn sitt ef hún er hvorki í hjónabandi né skráðri sambúð. Hafi móðir ekki feðrað barn sitt innan sex mánaða skorar sýslumaður á hana að gera ráðstafanir í þessu efni.

Hvers vegna á að feðra barn?

Feðrun hefur meðal annars í för með sér:

  • Faðir getur farið með forsjá barns.
  • Faðir og barn eiga gagnkvæman umgengnisrétt.
  • Faðir er framfærsluskyldur gagnvart barni.
  • Faðir og barn taka arf eftir hvort annað.
  • Barn má bera nafn föður sem kenninafn.

Hvernig verður barn feðrað?

Foreldrar í hjónabandi

Ef barn fæðist í hjónabandi móður þá telst eiginmaður hennar vera faðir barnsins.  Eiginmaðurinn telst einnig vera faðir barnsins ef það fæðist svo stuttu eftir að þau skilja að það sé hugsanlega getið í hjónabandinu.

Foreldrar í skráðri sambúð

Ef móðir er í skráðri sambúð í þjóðskrá við fæðingu barns þá telst sambúðarmaður hennar vera faðir þess. Ef móðir og maður sem hún hefur lýst föður barnsins skrá hins vegar sambúð síðar í þjóðskrá þá telst maðurinn faðir barnsins, ef það er ófeðrað.

Móðir hvorki gift eða í sambúð - Faðernisviðurkenning

Ef móðir er hvorki í hjónabandi né sambúð við fæðingu barns verður að feðra það sérstaklega eða með öðrum orðum að afla viðurkenningar manns þess sem hún hefur lýst föður barnsins á því að hann sé faðir þess.

Sýslumaður í umdæmi þar sem móðir eða lýstur barnsfaðir býr getur annast afgreiðslu slíks máls. Móðir snýr sér þá til sýslumanns og fyllir út eyðublað þar sem hún lýsir ákveðinn mann föður að barni sínu og undirritar þá yfirlýsingu sína.  Ef hinn lýsti barnsfaðir viðurkennir faðerni barnsins undirritar hann yfirlýsinguna í viðurvist sýslumanns. Að því búnu sendir sýslumaður Þjóðskrá tilkynningu um feðrunina.

Móðir getur einnig óskað sérstakrar bréflegrar yfirlýsingar föður.  Skal undirritun föður staðfest af héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni eða tveimur vitundarvottum. Þar skal tekið fram að útgefandi yfirlýsingarinnar hafi ritað nafn sitt eða kannast við undirritun sína í viðurvist þess eða þeirra er undirskriftina staðfesta. Vitundarvottar skulu geta kennitölu sinnar eða eftir atvikum fæðingardags og heimilisfangs. 

Fyrir kemur að lýstur barnsfaðir óskar eftir að blóðrannsókn fari fram til sönnunar því að hann sé faðir barns áður en hann undirritar faðernisviðurkenningu. Þá er honum gefinn kostur á að undirrita sérstaka yfirlýsingu um að hann óski eftir að blóðrannsókn fari fram og að hann sé reiðubúinn að standa staum af þeim kostnaði sem þær rannsóknir hafi í för með sér, viðurkenni hann faðernið eftir að niðurstaða liggur fyrir. Neiti lýstur barnsfaðir að greiða kostnað af blóðrannsókn er móður kynnt sú niðurstaða og henni leiðbeint um að  höfða þurfi mál fyrir dómstólum til staðfestingar á faðerni barns.

Gangist lýstur barnsfaðir ekki við faðerni barns verður móðir, sem áður greinir, að höfða faðernismál fyrir dómi.

Dómsmál til feðrunar barns

Ef barn verður ekki feðrað með þeim hætti sem að ofan greinir verður að höfða barnsfeðrunarmál fyrir dómstóli. Þá getur verið þörf á að leita aðstoðar lögmanns.

Hver getur höfðað barnsfaðernismál?

Þeir sem geta höfðað faðernismál eru; barnið sjálft, móðir þess eða maður sem telur sig vera föður barnsins.

Þegar barnið sjálft höfðar mál gerir lögráðamaður þess það fyrir hönd barnsins. Það er oftast móðir en getur einnig verið annar einstaklingur.

Hver greiðir kostnað af máli?

Ef barnið sjálft höfðar málið greiðist kostnaður, sem er ákveðinn af dómara, úr ríkissjóði.

Ef móðir eða sá sem telur sig vera föður barnsins höfða málið, greiðist málskostnaður samkvæmt ákvörðun dómara. Rétt er að athuga, að hægt er að sækja um gjafsókn, það er að kostnaður greiðist úr ríkissjóði.

Rannsóknir

Dómari getur ákveðið með úrskurði að blóðrannsókn verði gerð á aðilum og barni og einnig aðrar sérfræðilegar kannanir. Þeir sem í hlut eiga eru skyldir til að hlíta blóðtöku og annarri rannsókn.

Lok máls

Faðernismáli getur lokið með sátt móður og manns þess sem hún kenndi barnið eða með dómi. Dómari sendir Þjóðskrá upplýsingar um feðrun barns.