Leiðbeiningar um greiðslu til dánarbúa frá Tryggingastofnun vegna leiðréttingar

Í ljósi tilkynningar Tryggingastonfurnar sem birtist á vef stofnunarinnar 15. apríl sl. um afgreiðslu til útgreiðslu leiðrétt réttindi þeirra dánarbúa ellilífeyrisþega sem eiga réttindi fyrir janúar og febrúar 2017 og ekki var lokið við að afgreiða, sjá nánar hér á vef stofnunarinnar, eru hér með settar fram  svohljóðandi leiðbeiningar um greiðslu til dánarbúa: 

Eignalaus bú  
Ef dánarbúinu hefur verið lokið sem eignalausu þá tilheyrir endurgreiðslan dánarbúinu en erfingjar geta fengið heimild sýslumanns til að nýta hana til greiðslu á útfararkostnaði, öllum kostnaði við útför, erfidrykkju, auglýsingar o.þ.h. auk frágangs á leiði.

Umboðsmanni erfingja er bent á að óska eftir því við sýslumann að fá inneignina framselda til sín til greiðslu útfararkostnaðar. Erindið má senda með tölvupósti til þess embættis sem við á. Athugið að gögn um sundurliðun greiðslunnar þurfa að vera meðfylgjandi. Verði fallist á beiðnina sendir sýslumaður umboðsmanni skjal þess efnis með tölvupósti.

Einkaskiptum lokið – endurupptaka
Lög um skipti á dánarbúum o. fl. nr. 20/1991 kveða á um að taka beri upp einkaskipti komi síðar fram eignir sem hefðu átt að koma til skipta. Ekki er talin þörf á að endurupptaka skipti ef fjárhæð greiðslu er undir kr. 100.000.

Umboðsmanni erfingja er bent á að leggja fyrir sýslumann viðbótarerfðafjárskýrslu þar sem einungis er færðar inn upplýsingar um greiðsluna undir lið 5.8 Inneign hjá Tryggingastofnun - Leiðrétting á greiðslum v. janúar og febrúar 2017. Einungis skal færa inn fjárhæð leiðréttingarinnar, ekki vextina. Eyðublað fyrir erfðafjárskýrslu má nálgast á vefnum hér.

Erfðafjárskattur er 10% af fjárhæð leiðréttingarinnar enda hefur óskattskyldur arfshluti þegar verið nýttur að fullu. Tilkynning um álagningu erfðafjárskatts og upplýsingar um greiðslufyrirkomulag verður send umboðsmanni erfingja. Gjalddagi erfðafjárskattsins er tíu dögum frá dagsetningu tilkynningar.

Einkaskiptaleyfi veitt – skiptum ekki lokið
Ef einkaskiptum á dánarbúi er ólokið er umboðsmanni erfingja bent á að skila fullnægjandi umboði og bankaupplýsingum til Tryggingarstofnunar. Sé umboðsmaður tilgreindur í einkaskiptaleyfi og skiptum ólokið gildir umboð hans til að taka við greiðslunni. Upplýsingar um greiðsluna ber að telja fram á erfðafjárskýrslu sem síðar verður lögð fram við skiptalok þ.e. undir lið 5.8 Inneign hjá Tryggingastofnun - Leiðrétting á greiðslum v. janúar og febrúar 2017. Einungis skal færa inn fjárhæð leiðréttingarinnar, ekki vextina.

Dánarbúi lokið með opinberum skiptum
Lög um skipti á dánarbúum o. fl. nr. 20/1991 kveða á um að taka beri upp opinber skipti komi síðar fram eignir sem hefðu átt að koma til skipta. Ekki er talin þörf á að endurupptaka skipti ef fjárhæð greiðslu er undir kr. 100.000. Skiptastjóra er bent á að framvísa fullnægjandi umboði, s.s. úrskurði um opinber skipti og bankaupplýsingum til Tryggingastofnunar og leggja fyrir sýslumann viðbótarerfðafjárskýrslu.

Hér á þessum vef er að finna ítarlegar upplýsingar um dánarbú o.fl.