Tilkynning vegna ákvörðunar um að hætta auglýsingum á byrjunum uppboða í dagblöðum

Uppboð sem sýslumenn halda fara eftir ákvæðum laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.  Meðferð beiðna um nauðungarsölu er í aðalatriðum tvenns konar og fer eftir því hvers konar eignir óskað hefur verið nauðungarsölu á.  Annars vegar er um að ræða nauðungarsölu á fasteignum, skipum yfir fimm brúttótonnum og skráðum loftförum og hins vegar á lausafé t.d. ökutækjum og öðrum eignum og réttindum en að framan greinir.

Um meðferða þessara beiðna gilda þær reglur að við nauðungarsölu á fasteignum, skipum yfir fimm brúttótonnum og loftförum er auglýsing um væntanlega fyrirtöku á beiðni um nauðungarsölu birt í Lögbirtingablaðinu og í framhaldinu tekin fyrir (fyrirtaka) á skrifstofu sýslumanns á áður auglýstum tíma.  Við þá fyrirtöku geta aðilar, gerðarþoli (eigandi eignar), gerðarbeiðandi (sá sem biður um nauðungarsöluna) og aðrir sem telja sig hafa hagsmuna að gæta mætt og komið á framfæri athugasemdum og mótmælum um gildi eða réttmæti kröfunnar sem nauðungarsölubeiðni byggir á eða um önnur formsatriði sem varðar beiðnina eða meðferð hennar.  Þá má einnig við fyrirtöku óska eftir að eign verði seld á frjálsum markaði - en ekki uppboði - ef telja má líkur á að þannig fáist hærra verð fyrir hana.

Ef ekki er mætt við fyrirtöku eða neinar athugasemdir gerðar, sem oftast er, ákveður sýslumaður að haldið skuli uppboð á eign. Er þá fyrst haldin svokölluð byrjun uppboðs.  Áður er hún auglýst í dagblöðum eins og kveðið er á um í lögum en þar segir að auglýsa skuli byrjun uppboðs á eign í dagblaði eða með samsvarandi hætti.  Ber að gera það með minnst þriggja daga fyrirvara.  Í auglýsingu skal koma fram heiti eignar, nafn eiganda, nafn þess eða þeirra sem biðja um uppboð og staður þess og stund.

Oft og iðulega er byrjun uppboðs frestað að beiðni gerðarþola og að fengnu samþykki gerðarbeiðanda (þess sem biður um uppboðið).  Er frestur oftast veittur í einn til þrjá mánuði. Allur gangur er á því hvort frestur er veittur áður eða eftir að auglýsing hefur birst. Oftast er frestur veittur gegn fyrirheitum gerðarþola um greiðslu inn á kröfu gerðarbeiðanda eða jafnvel fulla greiðslu.  Falla allmörg mál niður á þessu stigi og beiðnir um nauðungarsölu afturkallaðar.  Ef beiðni hefur ekki verið afturkölluð er byrjun uppboðs auglýst að nýju að fresti liðnum.  Oft eru veittir nýir frestir og byrjun uppboðs auglýst að nýju og svo koll af kolli, jafnvel þrisvar til fimm sinnum á grundvelli sömu beiðni.  Ekki er heimilt að fresta byrjun uppboðs lengur en svo að lokasala (framhald uppboðs) geti farið fram innan árs frá fyrirtöku nauðungarsölubeiðninnar.   

Það eru þessar auglýsingar um byrjun uppboðs sem áformað er að hætta að birta í dagblöðum og láta við það sitja að birta þær á vef sýslumanna.  Af birtingu þeirra í dagblöðum hlýst talsverður kostnaður en auk þess hagræðis sem næst af að birta allar auglýsingar um byrjun uppboða á einum stað á netinu má með því að hætta birtingu þeirra í dagblöðum spara á bilinu 20 - 30 m.kr. á ári.

Ef byrjun uppboðs fer fram ber að kalla eftir boðum í eign og er boð skuldbindandi þar til framhald uppboðs (lokasala) hefur farið fram sem má í síðasta lagi fara fram að liðnum fjórum vikum frá byrjun uppboðs nema ákveðið séð að láta boð duga, sem fram koma við byrjun uppboðs, sem nánast gerist aldrei.  Framhald uppboðs ber að auglýsa með sama hætti og byrjun uppboðs og fer það oftast fram á eigninni sjálfri ef um fasteign er að ræða en ella í skrifstofu sýslumanns ef um er að ræða skip eða loftfar.  Framhald uppboðs þarf að hafa farið fram í síðasta lagi innan árs frá fyrirtöku eins og áður segir.  Annars fellur beiðni um nauðungarsölu niður.

Ekki er áformað að svo stöddu að hætta auglýsingum í dagblöðum um framhald uppboðs (lokasölu) á fasteignum, skipum yfir fimm brúttótonn og loftförum þótt þær verði einnig birtar á vef sýslumanna.

 

Uppboð á lausafé og öðrum réttindum og eignum en að framan greinir fer að jafnaði fram án sérstakrar undangenginnar fyrirtöku nauðungarsölubeiðni.  Ef beiðni um nauðungarsölu á t.d. ökutæki er send sýslumanni áritar hann beiðnina um að gerðarbeiðanda eða öðrum handahaf hennar sé heimilt að krefjast afhendingar ökutækisins og sendir honum eintak beiðninnar jafnframt því að senda eiganda eignarinnar tilkynningu og þeim veðhöfum sem vitað er um. Síðan auglýsir sýslumaður uppboðið með a.m.k. sjö daga fyrirvara í dagblaði eða með samsvarandi hætti og ef ökutækið eða annað lausafé hefur verið fært á uppboðsstað, sem ákveðinn hefur verið, er það selt hæstbjóðanda.

Ekki er á þessu stigi áformað að hætta auglýsingum uppboða á lausafé og öðrum eignum og réttindum en að framan greinir í dagblöðum en þær verða jafnframt birtar á vef sýslumanna.

 

Bolungarvík, 14. október 2011.

 Jónas Guðmundsson,
sýslumaður í Bolungarvík
og verkefnisstjóri breytinga á auglýsingum uppboða.

 

Uppfært 14.10.2011.