Ný lög um frestun á nauðungarsölum hafa tekið gildi

23.9.2014

22. september sl.  samþykkti Alþingi breytingu á lögum um nauðungarsölu er varðar frestun á nauðungarsölum meðan vinnsla umsókna um höfuðstólslækkun stendur yfir. Lögin birtust í A deild Stjórnartíðinda sama dag og tóku gildi í dag 23. september.

Lögin heimila gerðarþola, án samþykkis gerðarbeiðanda, að óska eftir fresti á því að framhald uppboðs verði ákveðið eða að það fari fram. Jafnframt er, með samþykki allra gerðarbeiðenda, unnt að fresta uppgjöri til kröfuhafa á fasteign sem seld hefur verið við framhald uppboðs en er enn í svokölluðum samþykkisfresti.  Fresturinn mun hins vegar ekki taka til fyrstu skrefa nauðungarsölu þannig að þingfesting máls og byrjun uppboðs munu fara fram nema gerðarbeiðandi fresti aðgerðum.

Skilyrði fyrir því að unnt sé að óska eftir fresti er að um sé að ræða húsnæði sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda, að gerðarþoli haldi þar heimili og sé þar með skráð lögheimili. Einnig skal gerðarþoli leggja fram staðfestingu ríkisskattstjóra á að hann hafi sótt um leiðréttingu samkvæmt ákvæðum laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.

Sjá nánar um þetta úrræði hér

Eyðublað sem notast má við er í vinnslu en eldra eyðublað má nálgast hér.  

Sjá einnig: