Breytingar á barnalögum 1. janúar 2013.

2.1.2013


Með lögum nr. 61/2012  um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum (forsjá og umgengni), sem tóku gildi 1. janúar 2013, voru gerðar margháttaðar breytingar á barnalögum frá 2003.  Um skeið var áformað  að seinka gildistöku breytingalaganna til 1. júlí 2013 en ákvæði um það í sérstöku frumvarpi til viðbótarbreytinga á barnalögum var fellt í meðförum Alþingis 22. desember 2012 (þingmál nr. 476/2012). Vegna þessa skamma fyrirvara er ýmsum undirbúningi vegna gildistöku laganna ekki lokið.  Hins vegar hefur verið tryggt fjármagn sem þarf til að breytingarnar geti orðið að veruleika. 

Af þessum sökum kann meðferð erinda hjá sýslumönnum sem byggjast á hinum nýju reglumað dragast eitthvað í upphafi árs en skipaður hefur verið sérstakur starfshópur fulltrúa innanríkisráðuneytisins og sýslumanna til að tryggja skjóta og góða framkvæmd við meðferð mála samkvæmt hinum nýju ákvæðum.  Er stefnt að því að fullmótaðar tillögur hans liggi fyrir ekki síðar en um miðjan janúar.

 

Meðal breytinga á barnalögum nr. 76/2003 sem nú hafa tekið gildi eru þessar:

 

1. Verkaskipting foreldra með sameiginlega forsjá sem ekki búa saman.  Nýjar reglur um inntak sameiginlegar forsjár eru í 1. mgr. 28. gr. a. Þar segir: “Þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns skulu þeir taka sameiginlega allar meiri háttar ákvarðanir sem varða barn. Ef foreldrar búa ekki saman hefur það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, svo sem um hvar barnið skuli eiga lögheimili innan lands, um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf. Foreldrar sem fara saman með forsjá barns skulu þó ávallt leitast við að hafa samráð áður en þessum málefnum barns er ráðið til lykta.

 

2. Forsjá stjúp- og sambúðarforeldris. Afnumin er sú regla að stjúp- og sambúðarforeldrar fái sjálfkrafa forsjá barns ásamt kynforeldri, þegar kynforeldrið er eitt með forsjá. Þess í stað er sett regla í 29. gr. a þess efnis að stjúpforeldri/sambúðarforeldri og kynforeldri sem fer eitt með forsjá, geti samið um að hafa sameiginlega forsjá barns.

 

3. Samningur um lögheimili barns. Sú breyting er gerð á 32. gr. barnalaga að samningar foreldra, sem eru með sameiginlega forsjá, um það hjá hvoru þeirra lögheimili barns á að vera, eru aðeins gildir að sýslumaður hafi staðfest samninginn. Eftir gildistöku laganna ber því foreldrum sem vilja færa lögheimili barns síns frá öðru foreldrinu til hins, að leita til sýslumanns til að fá samninginn staðfestan í stað þess að tilkynna breytinguna til Þjóðskrár Íslands.

 

4. Tilkynningaskylda foreldra um flutning lögheimilis. Þegar annað foreldri á umgengnisrétt við barn samkvæmt samningi,  úrskurði, dómi eða dómsátt, ber hvoru foreldri að tilkynna hinu með minnst sex vikna fyrirvara ef foreldri hyggst flytja lögheimili sitt og/eða barnsins, hvort sem er innanlands eða utan. Regla þessi er í 51. gr. barnalaga.  Tilkynningaskyldan hvílir á báðum foreldrum, óháð því hvernig forsjá er háttað.

 

5. Ágreiningur um utanlandsferð barns. Ef foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barns greinir á um utanlandsferð barns, er samkvæmt 51. gr. a hægt að gera kröfu um að sýslumaður úrskurði um rétt foreldri til að fara með barn úr landi.    

 

6. Réttur til upplýsinga um barn. Reglum 52. gr. barnalaga hefur verið breytt nokkuð og réttur forsjárlauss foreldris til upplýsinga um barn verið aukinn. Segir nú að forsjárlaust foreldri geti fengið aðgang að skriflegum upplýsingum um barn frá skóla og leikskóla.     

 

7. Ágreiningsmál um forsjá og lögheimili. Gerð hefur sú breyting á 34. gr. barnalaga að hægt er að höfða dómsmál til að leysa úr ágreiningi um hjá hvoru foreldri lögheimili barns á að vera. Einnig er nú hægt að krefjast þess fyrir dómi að ákveðið verði að foreldrar verði sameiginlega með forsjá.

 

8.  Lögfest hafa verið sjónarmið sem hafa ber í heiðri þegar þegar leyst er úr í deilum um umgengni. Segir í 47. gr. að líta beri til tengsla barns við báða foreldra, aldurs barns, stöðugleika í lífi barns, búsetu foreldra og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska.  Þá ber  að meta hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeildi og líta sérstaklega til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavaænleg skilyrði.


9. Inntak og ákvörðun um umgengni. Umgengni hefur nú verið skilgreind á víðari hátt en áður í 46. gr. barnalaga og segir að með umgengni sé átt við samveru og önnur samskipti. Þá hafa verið lögfestar reglur í 46. gr. sem segir að foreldri sem nýtur umgengni sé heimilt að taka þær nauðsynlegu ákvarðanir um daglegt líf barnsins sem fylgja umgengninni og að foreldri sem barn býr hjá beri að tryggja að foreldri sem nýtur umgengni fái nauðsynlegar upplýsingar til þess að umgengnin þjóni hag og þörfum barnsins.  Samkvæmt 47. gr. er nú heimilt, þegar sérstaklega stendur á, að ákveða umgengni í 7 daga af hverjum 14 dögum. Þá getur sýslumaður samkvæmt 47. gr. a kveðið upp úrskurð um umgengni til bráðabirgða sem gildir tímabundið eða þar til máli hefur verið ráðið endanlega til lykta. Sýslumaður getur einnig, að kröfu aðila, ákveðið að ekki megi fara með barnið úr landi á meðan umgengnismál er til meðferðar.

 

10. Umgengni við aðra en foreldra. Reglur um slíka umgengni hafa tekið breytingum og eru nú í 46. gr. a. Þær eiga við ef foreldri er látið, ef foreldri er ókleift að rækja umgengnisskyldur sínar eða ef foreldri nýtur takmarkaðrar eða engrar umgengni við barn. Barn á þá rétt til umgengni við nána vandamenn þess foreldri, eða aðra nákomna barni, enda sé það til hagsbóta fyrir barnið.

 

11. Ráðgjöf á vegum sýslumanna. Samkvæmt 33. gr. barnalaga getur sýslumaður nú boðið aðilum tiltekinna deilumála ráðgjöf sérfræðings í málefnum barna, þ.e. fagaðila með nauðsynlega þekkingu á þörfum barna og stöðu foreldra.  Markmið sérfræðiráðgjafarinnar er að aðilar fái leiðbeiningar sem hjálpi þeim að meta hvaða lausn er barni fyrir bestu.

 

12. Skyldubundin sáttameðferð. Í 33. gr. a segir nú að áður en krafist er úrskurðar eða höfðað mál um forsjá, lögheimili, umgengni eða dagsektir, beri foreldrum skylda til að leita sátta. Sýslumaður skal bjóða aðilum þessara mála sáttameðferð, en einnig er hægt að leita til annarra sem hafa sérþekkingu á sáttameðferð.  Markmið sáttameðferðarinnar er að hjálpa foreldrum við að finna þá lausn sem barni er fyrir bestu.

 

13. Álitsumleitan. Í þeim málum sem koma til kasta sýslumanns á grundvelli barnalaga, getur sýslumaður á öllum stigum máls, leitað liðsinnis í sérfræðings í málefnum barna.  Jafnframt því sem þessi regla er sett í 74. gr. barnalaga er afnumin heimild sýslumanns til að leita liðsinnis barnaverndarnefndar vegna máls.