Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar vegna kjörs forseta Íslands 30. júní 2012

7.5.2012

Upplýsingar um þjónustu sýslumanna við kjósendur á kjördag má nálgast hér

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar vegna kjörs forseta Íslands hófst hjá sýslumönnum laugardaginn 5. maí sl. eða átta vikum fyrir kjördag, eins og lög mæla fyrir um, en kjördagur skal var síðasti laugardagur í júní sem að þessu sinni ber upp á 30. júní.

Á síðu þeirra sýslumanna sem það kjósa má sjá hvar og hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram í umdæmum þeirra. Jafnframt skal vakin athygli á að kjósendum er heimilt að kjósa utan kjörfundar hjá sýslumanni eða eða útibúi hans hvar á landinu sem er án tillits til búsetu eða lögheimilis auk þess sem kjósa má utan kjörfundar á nokkrum stöðum utan Íslands. 

Til að mega kjósa þarf kjósandi að vera á kjörskrá. Upplýsingar um það hvort kjósandi er á kjörskrá má nálgast hjá sýslumönnum,  skrifstofum sveitarfélaganna og Þjóðskrá Íslands. Sveitarstjórnir skulu hafa lagt fram kjörskrá í síðasta lagi 20. júní. Um 15. júní verður opnað svæði á vefnum http://www.kosning.is/ þar sjá má hvort tiltekinn maður er á kjörskrá eða ekki.

Á vefnum http://www.kosning.is/ er að finna ýmsar upplýsingar um kosningar utan kjörfundar og eru neðangreindar upplýsingar fengnar af þeim vef:   

 

Kjörstaðir:

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram á eftirfarandi stöðum:

Hjá sýslumönnum um allt land, á aðalskrifstofum eða í útibúum þeirra. Þá getur sýslumaður einnig ákveðið að atkvæðagreiðsla á aðsetri embættis fari fram á sérstökum kjörstað utan aðalskrifstofu svo og að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stað í umdæmi hans.
Nokkrir sýslumenn hafa sett inn á sínar síður á vef sýslumanna upplýsingar um hvar og hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram í umdæmum þeirra.

Erlendis, á skrifstofu sendiráðs eða fastanefndar hjá alþjóðastofnun, í sendiræðisskrifstofu eða í skrifstofu kjörræðismanns samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins. Utanríkisráðuneytið getur þó ákveðið að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fari fram á öðrum stöðum erlendis. Utanríkisráðuneytið annast afgreiðslu kjörgagna til kjörstjóra erlendis og auglýsir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla geti farið fram.

Sjúkrahúsum, fangelsum, dvalar- og vistheimilum. Kjósanda, sem er til meðferðar á sjúkrahúsi eða vistmaður þar, á dvalarheimili aldraðra eða stofnun fyrir fatlaða, er heimilt að greiða atkvæði á stofnuninni. Með sama hætti fer um vistmann fangelsis. Slík atkvæðagreiðsla skal fara fram á þeim tíma sem kjörstjóri ákveður, á sjúkrahúsi sem næst kjördegi, að höfðu samráði við stjórn stofnunar. Hún má þó ekki fara fram fyrr en í fyrsta lagi 3 vikum fyrir kjördag, laugardaginn 9. júní 2012.
Sjá nánar um utankjörfundaratkvæðagreiðslu sjúkra  hér  (PDF).

 

Heimahúsi. Kjósanda, sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, er heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi nema hann eigi kost á að greiða atkvæði á stofnun, sbr. framangreint. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans. Slík atkvæðagreiðsla má þó ekki fara fram fyrr en í fyrsta lagi 3 vikum fyrir kjördag, laugardaginn 9. júní 2012, en ósk um atkvæðagreiðslu í heimahúsi verður að bera fram við hlutaðeigandi kjörstjóra eigi síðar en fjórum dögum fyrir kjördag, þriðjudaginn 26. júní 2012, kl. 16.
Sjá nánar um utankjörfundaratkvæðagreiðslu sjúkra hér (PDF) .

Umsóknareyðublað um að fá að greiða atkvæði í heimahúsi má nálgast hér (PDF) .

Um borð í íslensku skipi. Kjósandi, sem er í áhöfn eða farþegi um borð í íslensku skipi í siglingum erlendis eða á fjarlægum miðum, má kjósa um borð í skipinu. Skipstjóri eða sá sem hann tilnefnir skal vera kjörstjóri.

Skipstjórar, sem eru kjörstjórar við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, skulu gæta þess að til séu í skipinu fyrir kosningar nægar birgðir kjörgagna til utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Það er skylda skipstjóra á íslenskum skipum, þá er fyrirskipaðar eru kosningar, að láta skipshöfnina vita um kjördaginn jafnskjótt og þeir vita um kosninguna.

Sýslumenn annast afgreiðslu kjörgagna til skipstjóra. Skipstjóri, sem veitir viðtöku utankjörfundargögnum, skal undirrita og afhenda hlutaðeigandi sýslumanni drengskaparyfirlýsingu um að kosning í skipi hans muni fara fram samkvæmt fyrirmælum laga um kosningar til Alþingis. Kjörgögnin skal varðveita á öruggum stað.

Hvernig fer kosning fram utan kjörfundar?

Kjósandi þarf að gera kjörstjóra grein fyrir sér með því að framvísa kennivottorði eða nafnskírteini, eða á annan fullnægjandi hátt að mati kjörstjóra. Kennivottorð er persónuskilríki með mynd, svo sem ökuskírteini eða vegabréf.

Að þessu loknu fær kjósandi afhent kjörgögn.

Skal kjósandi svo aðstoðarlaust og án þess að nokkur annar sjái rita atkvæði sitt á kjörseðilinn og setja atkvæðið í kjörseðilsumslagið. Ef kjörseðill ónýtist hjá kjósanda má hann fá annan í stað hins.

Þá áritar og undirritar kjósandi fylgibréfið í viðurvist kjörstjóra sem vottar atkvæðagreiðsluna.

Að lokum skal kjörseðilsumslagið ásamt fylgibréfinu lagt í sendi umslagið og því lokað vandlega. Umslagið skal síðan áritað til sýslumannsins eða kjörstjórnarinnar í því umdæmi þar sem kjósandinn telur sig standa á kjörskrá. Á sendi umslagið skal rita nafn kjósanda, kennitölu og lögheimili.

Kjósanda er heimilt að greiða atkvæði utan kjörfundar oftar en einu sinni og skal þá aðeins hið síðastgreidda atkvæði tekið til greina. Utankjörfundaratkvæði telst greitt þann dag sem fylgibréfið er dagsett.

Kjósandi þarf aðstoð

Ef kjósandi skýrir kjörstjóra frá því að hann sé ekki fær um að árita kjörseðilinn á fyrirskipaðan hátt eða árita og undirrita fylgibréfið sakir sjónleysis eða annarrar fötlunar, skal kjörstjóri veita honum aðstoð til þess í einrúmi, enda er hann bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem þeim fer þar á milli. Aðstoðin skal þó aðeins veitt að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir ótvírætt frá því hvernig hann vill greiða atkvæði sitt. Kjósandi verður sjálfur að biðja um aðstoð.

Hvernig fer með atkvæðið?

Ef atkvæðið er greitt hjá kjörstjóra í umdæmi þar sem kjósandi er á kjörskrá þá skilur hann þar eftir bréf með atkvæði sínu og skal sjálfur láta bréfið í venjulegan atkvæðakassa. Atkvæðakassinn skal innsiglaður af kjörstjóra ásamt hlutaðeigandi kjörstjórn.

Ef atkvæðið er greitt hjá kjörstjóra í öðru umdæmi en því sem kjósandi er á kjörskrá, þá annast og kostar hann sjálfur sendingu atkvæðisbréfs síns. Kjörstjóra er þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst.

Nægjanlegt er að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess kjördæmis þar sem kjósandi er á kjörskrá.

Utankjörfundaratkvæði skal vera komið í hendur kjörstjórnar fyrir lok kjörfundar á kjördag svo að hægt sé að taka það til greina við kosninguna.

Fyrirgerir atkvæðagreiðsla utan kjörfundar rétti manns til að greiða atkvæði á kjördag?

Nei, kjósanda er heimilt að greiða atkvæði á kjördag þó hann hafi greitt atkvæði utan kjörfundar og kemur utankjörfundaratkvæðaseðill hans þá ekki til greina við kosninguna.

 

 

 Uppfært 18.06.2012.