Sektir og sakarkostnaður
Ákvörðun um sektir og sakarkostnað
Ákvörðun um að leggja á sekt eða sakarkostnað er einvörðungu í höndum lögreglustjóra eða dómstóla.
Innheimta sekta og sakarkostnaðar
Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar, sem heyrir undir Sýslumanninn á Norðurlandi vestra á Blönduósi (skammstafað IMST), annast innheimtu álagðra sekta og sakarkostnaðar fyrir landið allt nema sektarboða (lögreglustjórar hver í sínu umdæmi sem fara með forræði þeirra mála).
Skv. reglugerð nr. 208/2006 um innheimtu sekta og sakarkostnaðar er innheimta á eftirtöldum kröfum á hendi innheimtumiðstöðvarinnar:
- Dómum eða viðurlagaákvörðunum ákvörðuðum af dómstólum.
- Sektum skv. sektarboðum sem hafa verið árituð af héraðsdómi.
- Sektum og sakarkostnaði skv. staðfestum lögreglustjórasektum.
- Innheimta sekta og sakarkostnaðar skv. samningi milli Norðurlandanna.
Sektarboð
Sektarboð felur í sér að lögreglustjóri gefur sakborningi kost á að ljúka sakamáli, ef brot er smávægilegt, t.d. mál vegna brots á umferarlögum, með greiðslu sektar. Lögreglustjórar, hver í sínu umdæmi, senda út sektarboð, en innheimtumiðstöðin á Blönduósi sér um símsvörun vegna þessara mála og veitir grunnupplýsingar. Forræði þessara mála er þó hjá lögreglustjórunum og þeirra að ákveða, ef sekt er ekki greidd á tilsettum tíma, hvort heldið verði áfram með málið og það sent dómstólum til meðferðar með ósk um staðfestingu dómstóls með áritun á sektarboð eða með útgáfu ákæru á hendur sakborningi.
Innheimtumiðstöðinni er ekki heimilt að samþykkja að greiðslum vegna sektarboða verði drefit yfir ákveðið tímabil.
Almennt innheimtuferli
Við innheimtu sekta og sakarkostnaðar koma til eftirgreind úrræði til að knýja á um greiðslu:
- Innheimtubréf – samningar
- Skuldajöfnuður
- Fjárnám
- Nauðungarsala
- Afplánun vararefsingar
Greiðsludreifing
Beiðni um greiðsludreifingu þarf að berast skriflega á netfangið innheimta@syslumenn.is eða með bréfi til embættisins. Athugið að lágmarksfjárhæð mánaðarlegra greiðslna í greiðsludreifingu er kr. 10.000,- og má dreifa greiðslum á allt að 12 mánuði. Heimilt er að veita lengri greiðslufrest ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi en sækja þarf um slíkt á sérstöku eyðublaði sem hægt er að nálgast hjá starfsmönnum.
Þá er einnig hægt er að greiða með greiðslukorti og gera boðgreiðslusamning.
Fjárnám/nauðungarsala
Ef sekt er ekki greidd eða samið um greiðslur innan tilskilins frests skal innheimta hana eða eftirstöðvar með fjárnámi skv. 1. mgr. 93. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016. Ef fjárnám skilar árangri er útbúin beiðni um nauðungarsölu á hinu fjárnumda hafi sektarþoli ekki greitt eða samið. Sama á við um sakarkostnað.
Vararefsing
Ef fjárnámsgerð er árangurslaus eða fyrir liggur að viðkomandi er eignarlaus og hafi ekki greiðslugetu skv. öðrum fyrirliggjandi upplýsingum tekur innheimtumiðstöðin ákvörðun um að vararefsingu sektar verði beitt.
Mæti sektarþoli hvorki til afplánunar á tilskildum tíma né sektin greidd, má hann búast við handtöku og því að verða færður til afplánunar. Ef sekt greiðist að fullu fellur afplánun niður. Innborgun frestar ekki afplánun.
Samfélagsþjónusta
Hafi ákvörðun verið tekin um afplánun vararefsingar sektar, og fjárhæð hennar er kr. 100.000,- eða hærri, er heimilt skv. 89. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga að fullnusta vararefsingu með ólaunaðri samfélagsþjónustu, minnst 40 klst. en mest 480 klst.
Umsókn um samfélagsþjónustu skal skila til IMST sem framsendir hana Fangelsismálastofnun til meðferðar. Fangelsismálastofnun metur hvort skilyrði samfélagsþjónustu teljist uppfyllt og eftir atvikum samþykkir eða synjar umsókn. Þá ákveður Fangelsismálastofnun hvar og á hvaða tímabili samfélagsþjónusta skuli fara fram.