Embættin
Sýslumenn fara með framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, hver í sínu umdæmi, eftir því sem lög og reglugerðir eða önnur stjórnvaldsfyrirmæli kveða á um. Þar á meðal fara þeir með innheimtu opinberra gjalda, að því leyti sem hún er ekki falin öðrum.
Embætti sýslumanna heyra undir ráðherra, nú dómsmálaráðherra, samkvæmt forsetaúrskurði nr. 119/2018 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og forsetaúrskurði nr. 118/2018 um skiptingu stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti.
Landið skiptist í níu umdæmi sýslumanna
- Umdæmi Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu
- Umdæmi Sýslumannsins á Vesturlandi
- Umdæmi Sýslumannsins á Vestfjörðum
- Umdæmi Sýslumannsins á Norðurlandi vestra
- Umdæmi Sýslumannsins á Norðurlandi eystra
- Umdæmi Sýslumannsins á Austurlandi
- Umdæmi Sýslumannsins á Suðurlandi
- Umdæmi Sýslumannsins í Vestmannaeyjum
- Umdæmi Sýslumannsins á Suðurnesjum
Umdæmamörk sýslumannsembætta skulu ákveðin í reglugerð sem ráðherra setur með hliðsjón af skipulagi annarrar opinberrar þjónustu í umdæminu. Ákvæði um umdæmi, skrifstofur og útibú sýslumanna er að finna í reglugerð nr. 1151/2014 um umdæmi sýslumanna, með síðari breytingum, sbr. reglugerð nr. 44/2017 og reglugerð nr. 532/2017.
Nokkur verkefni sem sýslumenn sinna eru falin einu eða fleiri embættum á landsvísu, sjá nánar hér.