Þinglýsingar, staðfestingar og skráningar

Almennt um þinglýsingar, staðfestingar og skráningar

Þinglýsing er opinber skráning skjala sem gegnir því hlutverki að afla réttindum þeim sem skjölin taka til, verndar gagnvart þriðja manni.

Aflýsing

Þegar réttarsambandi því, sem stofnað var til með skjali er lokið, skal aflýsa skjalinu úr þinglýsingabókum. Aflýsingin er færð í þinglýsingabók og kemur þinglýsing sú sem aflýst er ekki lengur fram á þinglýsingavottorði. Það er skilyrði fyrir aflýsingu að þinglýsingarstjóri fái í hendur frumrit skjals sem aflýsa á áritað af rétthafa.

Þinglýsingarumdæmi

  • Skjöl sem varða fasteignir ber að þinglýsa í því umdæmi sem fasteignin er.
  • Skjöl sem varða skip ber að þinglýsa í umdæmi þar sem skip er skráð. Skjöl sem varða skráð ökutæki ber að þinglýsa íumdæmi þar sem skráður eigandi á lögheimili og sama á við um lausafé sem ekki er skráð í ökutækja- eða skipaskrá.
  • Skjöl sem varða lausafé ber að þinglýsa í umdæmi þar sem skráður eigandi lausafjárins er með lögheimli.
  • Skjöl sem varða loftför ber að þinglýsa hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

 

(Texti í vinnslu   Um rétt útlendinga til að kaupa fasteignir eða fasteignaréttindi hérlendis gildir sú almenna regla að þeim er óheimlt að kaupa fasteignir hér á landi, nema með sérstöku leyfi innanríkisráðherra.  Þó er undantekning frá þessari reglu  í reglugerð  nr. 702/2002 um rétt útlendinga, sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu, til að öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum.   Er þar gert ráð fyrir að þeir fylli út sérstaka staðfestingu um búsetu sína á evrópska efnahagssvæðinu. )

 Þinglýsingavottorð / veðbókarvottorð

Þinglýsingavottorð, oft í daglegu tali nefnt veðbókarvottorð, er vottorð eða staðfesting á því hvað hefur verið skráð í þinglýsingabók um tiltekna eign. Hvað varðar fasteignir kemur þar fram hverjir séu þinglýstir eigendur hennar, hvaða veðbönd og kvaðir hvíla á henni og hvort eignaskiptayfirlýsingu hefur verið þinglýst ef um fjöleignahús er að ræða.

Þinglýsingabækur

Í þinglýsingarlögum er gert ráð fyrir að meginatriði úr skjali sem komið er með til þinglýsingar sé fært í þinglýsingabók. Jafnframt er gert ráð fyrir að færa megi þinglýsingarbækur í tölvutæku formi. Í langflestum umdæmum er efni langflestra þinglýstra skjala fært í tölvu, sem tengist gagnabanka Þjóðskrár Íslands, jafnframt því sem skjölin er skönnuð inn (myndlesin) þegar þeim er þinglýst. Sameiginlegur gagnabanki þinglýsingaskráningar sýslumanna, Þjóðskrá Íslands og sveitarfélaga hefur verið nefndur “Landskrá fasteigna”.

Hvar má nálgast upplýsingar úr þinglýsingabókum?

Hjá þinglýsingarstjórum má fá þinglýsingarvottorð fyrir einstakar eignir og einnig hægt að fá ljósrit einstakra þinglýstra skjala, svo sem eignaskiptayfirlýsingum. Nálgast má þinglýsingarvottorð um sérhverja fasteign sem færð hefur verið í Landskrá fasteigna hjá hvað embætti sýslumanns sem er. Sama á við um ökutæki, skip og lausafé, nálgast má þinglýsingarvottorð fyrir öll skráð ökutæki hjá hvaða sýslumannsembætti sem er.

Hægt er að kaupa aðgang að veðbandayfirlitum hjá Þjóðskrá Íslands og hjá Creditinfo hf. Sá aðgangur takmarkast við þær eignir sem skráðar eru í gagnagrunni Landskrár fasteigna.

Vakin skal athygli á að á vef Þjóðskjalasafn Íslands má nálgast upplýsingar úr eldri landamerkjabókum um mörk jarða eins og þau voru skráð áður fyrr. Sjá m.a. hér  

Kostnaður við þinglýsingar

Að jafnaði er fjárhæð stimpilgjalds 0,8% af fasteignamati fasteignar við þinglýsingu kaupsamnings eða afsals fyrir fasteign ef einstaklingur er að kaupa eign en 1,6% ef um lögaðila er að ræða. Við þinglýsingu kaupsamninga eða afsala fyrir skipum er stimpilgjaldlð reiknað af kaupverði skips, þó aldrei lægra en áhvílandi veðskuldir.

Lagatilvísanir: