Þinglýsingarvottorð (veðbókarvottorð) Upplýsingar um efni þess sem þinglýst er

Hvað er þinglýsingarvottorð (veðbókarvottorð)?

Þinglýsingarvottorð, oft í daglegu tali nefnt veðbókarvottorð, er vottorð eða staðfesting á því hvaða réttindi og eða skyldur hafa verið skráð í þinglýsingarbók á tiltekna eign, fasteign, skip, ökutæki, lausafé o.s.frv.  Hvað varðar fasteignir, þ.e. land auk mannvirkja sem við landið er skeytt, kemur þar fram hverjir eru eigendur hennar og í hvaða hlutföllum, hvaða veðbönd og kvaðir hvíla á henni, hvernig og í hvaða hlutföllum eign skiptist milli eigenda ef þeir eru fleiri en einn og um fjöleignahús er að ræða o.fr.v.

Þinglýsingarbækur

Í þinglýsingarlögum er gert ráð fyrir að meginatriði úr skjali sem komið er með til þinglýsingar sé fært í þinglýsingabók. Jafnframt er gert ráð fyrir að færa megi þinglýsingarbækur í tölvutæku formi.  Öll skjöll sem komið er með til þinglýsingar eru nú færð í tölvu, sem tengist Þjóðskrá Íslands, jafnframt því sem skjölin er skönnuð inn (myndlesin) þegar þeim er þinglýst. 
Sameiginlegur gagnabanki þinglýsingaskráningar sýslumanna, Þjóðskrár Íslands og sveitarfélaga er nefnd Landskrá fasteigna.

Hvernig má nálgast þinglýsingarvottorð eða upplýsingar úr þinglýsingabókum?

Hjá sýslumönnum (þinglýsingarstjórum) má fá þinglýsingarvottorð fyrir einstakar eignir og einnig hægt að fá ljósrit einstakra þinglýstra skjala.  Upplýsingar sem skráðar eru í þinglýsingabækur eru opinberar og er öllum heimilt að nálgast þær.  Nálgast má þinglýsingar-vottorð um hvaða eign sem er sem færð hefur verið í Landskrá fasteigna hjá hvaða embætti sýslumanns sem er.  Sama á við um ökutæki, skip og lausafé.

Aðilar eins og bankar og fasteignasölur, sem þurfa greiðan aðgang að upplýsingum um eignir, geta fengið sérstakan aðgang að þessum upplýsingum hjá Þjóðskrá Íslands og hjá Lánstrausti hf.  

Gjald

Gjald fyrir þinglýsingarvottorð og upplýsingar úr þinglýsingarbókum.