Sakavottorð

Sakavottorð er vottorð um þá dóma og viðurlög sem tiltekinn einstaklingur hefur sætt hjá dómstólum og öðrum tilgreindum yfirvöldum hérlendis og eftir atvikum erlendis, og færð hafa verið í sakaskrá ríkisins, sem ríkissaksóknari heldur.

Hvar má sækja um sakavottorð?

  1. Sækja má um sakavottorð (einkavottorð) rafrænt á vefnum www.island.is hér.
     Ferlið er sem hér segir: 


  • Umsækjandi skráir sig inn í umsókn með rafrænum skilríkjum. Samþykkja þarf að gögn úr sakaskrá verði sótt.
  •  Greiða með greiðslukorti (debet og kredit) 2.500 kr.
  •  Sakavottorð er svo sent í pósthólfið á vefsíðuna swww.island.is ásamt kvittun fyrir greiðslu

Skjalið sem inniheldur vottorðið er rafrænt undirritað af sýslumönnum og hægt að staðfesta þá undirritun með því að opna skjalið í forritinu Acrobat Reader og smella á stimpilinn.

2.  Sækja má um sakavottorð í afgreiðslum allra sýslumanna. Framvísa þarf persónuskilríkjum og             fullgildu umboði frá umsækjanda ef sótt er um fyrir annan.

    Ef engir dómar eða viðurlög eru skráð á vottorðið er auk íslensku hægt að fá sakavottorð útgefið        á ensku og dönsku.

Hverjir geta sótt um sakavottorð (einkavottorð)?

Allir einstaklingar 15 ára og eldri geta fengið  gefið út sakavottorð um sig sjálfa. 

Ef umsækjandi um sakavottorð getur ekki  nálgast vottorð sitt sjálfur vegna t.d. dvalar erlendis getur hann veitt þeim sem hann felur það skriflegt umboð vottað af tveimur vitundarvottum til að sækja um það og/eða veita því viðtöku hjá viðkomandi sýslumanni. Við það hefur verið miðað að slíkt umboð megi senda í faxi eða í  tölvupósti (á pdf-formi) til viðkomandi sýslumanns. Þá er við það miðað að viðkomandi umboðsmaður nálgist vottorðið í afgreiðslu þess sýslumanns sem um ræðir.  Nálgast má form umboðs til hvort heldur sem er að sækja um sakavottorð eða veita því viðtöku hér.

Hvað kemur fram í sakavottorði?

Misjafnt er hvað kemur fram í sakavottorði eftir því til hverra nota það er ætlað. Þar sem sýslumenn og lögreglustjórar gefa einungis út svokölluð einkavottorð, það er sakavottorð handa þeim sem þess óskar um viðkomandi sjálfan, miðast þessi umfjöllun fyrst og fremst við slík vottorð.

Samkvæmt 8. gr. reglna ríkissaksóknara skal í einkavottorðum einungis tilgreina upplýsingar um brot á almennum hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni með eftirgreindum takmörkunum:

  • Niðurstöður máls samkvæmt 3. gr. aðrar en fangelsisdóma skal ekki tilgreina ef liðin eru 3 ár frá því máli var lokið.
  • Fangelsisdómur skal ekki tilgreindur ef liðin eru 5 ár frá dómsuppkvaðningu eða frá því dómþoli var látinn laus hafi hann afplánað refsingu.
  • Ráðstafanir samkvæmt 62. - 67. gr. almennra hegningarlaga skal ekki tilgreina ef liðin eru 5 ár frá því ráðstöfun var felld niður.

Ríkissaksóknari getur í sérstökum tilvikum veitt undanþágu frá tímamörkum sem tilgreind eru í 2. mgr.

Sakavottorð samkvæmt þessum kafla skal hafa að geyma upplýsingar um hvað tilgreina ber á vottorði samkvæmt 2. mgr.

Samkvæmt þessu eru ekki tilgreind á einkavottorðum brot á umferðarlögum eða öðrum sérrefsilögum. Þess má hins vegar geta að einstaklingur getur sótt um hjá lögreglu að fá upplýsingar um ökuferil sinn úr málaskrá lögreglunnar. 

Löggjöf um sakavottorð

Um sakaskrá og sakavottorð er fjallað í 243. gr. til 245 gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Um sakavottorð gilda reglur ríkissaksóknara nr. 680/2009, um sakaskrá ríkisins, samanber reglur nr. 800/2009 og 398/2014 um breytingar á þeim. Sjá hér     

Önnur atriði

Sakavottorð er afgreitt jafnharðan og þess er beiðst ef ekki eru á því skráð brot.  Ella þarf embætti sem sótt er um hjá að kalla eftir því frá sakaskrá.  Ef engin brot eru skráð á sakavottorði um viðkomandi er auk íslensku hægt að fá það gefið út á ensku eða dönsku.  Ef einhverjar brot eru þar skráð eða aðrar sérstakar upplýsingar þarf þýðingu löggilts skjalaþýðanda á önnur tungumál en íslensku.

Vottun utanríkisráðuneytisins á að þar til bært stjórnvald hafi gefið sakavottorð út ("apostille")

Þegar nota á íslensk skjöl og vottorð erlendis kann viðtakandi skjalanna að óska eftir því að þau séu formlega staðfest. Með því er átt við að utanríkisráðuneytið stimpli og staðfesti með því að þar til bært yfirvald á Íslandi hafi gefið skjalið út eða vottað það.  Þetta getur átt við sakavottoð eins og önnur skjöl.

Nánar má fræðast um þessa vottun á vef utanríkisráðuneytisins og á vef ráðuneytisins má fræðast um Haag-samninginn um afnám áskilnaðar um staðfestingu erlendra opinberra skjala
Sjá lista yfir þau ríki sem eru aðilar að samningnum.

Gjald

Fyrir útgáfu sakavottorðs (einkavottorðs) ber að greiða gjald samkvæmt lögum nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs kr. 2.500.


Uppfært 08.07.2020.