Umboð Sjúkratrygginga Íslands

Sjúkratryggingar Íslands heyra undir heilbrigðisráðuneytið og annast framkvæmd sjúkratrygginga.

Jafnframt semur stofnunin um og greiðir fyrir heilbrigðisþjónustu. Sjúkratryggingar Íslands starfa eftir lögum nr. 112/2008 um sjúkratryggingar.

Sjúkratryggingar Íslands taka m.a. þátt í eftirfarandi kostnaði almennings vegna heilbrigðisþjónustu:

  • Lækniskostnaði
  • Tannlæknakostnaði
  • Lyfjakostnaði
  • Þjálfunarkostnaði
  • Kostnaði við hjálpartæki
  • Kostnaði við ferðir og sjúkraflutning
  • Erlendum sjúkrakostnaði

Sjúkratryggingar Íslands sjá einnig um greiðslu sjúkradagpeninga, framkvæmd slysatrygginga og sjúklingatrygginga.  Slysatryggingar fela í sér greiðslu bóta vegna slysa við vinnu- heimilis- og íþróttaiðkun.  Sjúklingatrygging snýr að réttindum einstaklinga í ákveðnum tilvikum vegna bóta fyrir líkamlegt eða geðrænt tjón sem verður í tengslum við rannsóknir eða sjúkdómsmeðferð hér á landi.

Umboð sjúkratrygginga hjá sýslumannsembættum hafa það hlutverk að annast upplýsingagjöf um sjúkra-, slysa- og sjúklingatryggingu.   Umboðin annast einnig greiðslu á reikningum vegna  ferðakostnaðar auk þess að taka á móti reikningum og gögnum og senda áfram til höfuðstöðva Sjúkratrygginga Íslands til frekari úrvinnslu.

Allar frekari upplýsingar um Sjúkratryggingar Íslands og réttindi til sjúkra- slysa og sjúklingatrygginga má finna á vef Sjúkratrygginga Íslands.

Uppfært 28.08.2020..