Sáttaumleitun sýslumanna í einkamálum

Í lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamál í héraði, sem einkum fjalla um meðferð einkamála fyrir héraðsdómi, er sérstakur kafli., XV. kafli, um sáttir. Þar er í 107. gr. gert ráð fyrir að aðilar sem eiga í ágreiningi geti vísað máli til sáttaumleitunar (oft einnig nefnt sáttameðferð eða sáttamiðlun) hjá sýslumanni, jafnt áður en mál er höfðað og eftir málshöfðun.  

Ekki er hins vegar gert ráð fyrir að leita megi sátta fyrir dómi eða með atbeina dómara áður en mál er höfðað.

Ákvæði 107. gr. eml. eru sem hér segir: 

1. Dómari getur orðið við ósk aðila um að vísa sáttaumleitunum í máli til sýslumannsins í þeirri þinghá þar sem mál var höfðað ef dómari telur það vænlegt til árangurs og ekki leiða til óþarfra tafa.  Aðilum er og rétt að koma sér saman um að vísa máli sínu til sáttaumleitana sýslumanns án atbeina dómara milli þess að mál þeirra er tekið fyrir á dómþingi eða áður en mál er höfðað.

2. Þegar sáttaumleitunum er vísað til sýslumanns skal sá sem gerir það láta honum í té málsgögn í þeim mæli sem þörf krefur.  Skal sýslumaður síðan svo fljótt sem verða má kveðja aðila á sinn fund og reyna með þeim sættir.

3. Sýslumaður fellir niður sáttaumleitanir ef sáttafundur er ekki sóttur af hendi beggja aðila eða þegar hann telur annars sýnt að þær beri ekki árangur.

4. Ef sátt tekst fyrir sýslumanni skal hún bókuð í sérstakri gerðabók hans. Nú tekst sátt að nokkru leyti en ekki öllu, og fer þá um framhald máls fyrir dómi eftir 2. mgr. 108. gr.

5. Sátt, sem er gerð fyrir sýslumanni, felur í sér lok dómsmáls, eftir atvikum að því leyti sem sátt hefur tekist.  Fullnægja má skyldu samkvæmt sátt sem tekst fyrir sýslumanni með aðför.

Þau mál sem vísa má til sáttaumleitna sýslumanns eru öll ágreiningsmál sem fara má með fyrir dóm og aðilar fara með forræði á sakarefninu.  Því eiga t.d. refsimál ekki hér undir.  Þetta úrræði getur hins vegar nýst vel í ýmsum minni háttar deilumálum.  

Jafnt einstaklingar sem lögaðilar, þ.e. félög eða stofnanir, geta vísað máli til sátta-umleitunar sýslumanns.  Sáttaumleitun fyrir sýslumanni er án kostnaðar fyrir aðila.

Ef óskað er sáttaumleitunar sýslumanns má notast við sérstakt eyðublað.  Ef óskað er sátttaumleitunar í umgengni- og forsjármálum ber að nota þau eyðublöð sem vísað er til í umfjöllun um þá málaflokka.