Sanngirnisbætur

Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra annast þau verkefni sem sýslumanni eru falin samkvæmt lögum nr. 47/2010 um sanngirnisbætur. Með lögunum er ríkissjóði heimilað að greiða sanngirnsbætur til einstaklinga sem voru vistaðir á stofnunum fyrir fötluð börn fyrir 1. febrúar 1993 og máttu sæta ofbeldi eða illri meðferð á meðan á vistun stóð.

Innköllun hefur ekki farið fram og er stefnt að því að hún verði gefin út í maí 2021. Innköllun stendur yfir í þrjá mánuði.

Athugið að ef kröfu er ekki lýst fellur hún niður.

Bætur eru skattfrjálsar og munu ekki skerða aðrar greiðslur eins og t.d. úr lífeyrissjóðum eða almannatryggingum.

Hámarksbætur eru 6 milljónir króna og hækka miðað við vísitölu neysluverðs um hver áramót.


Almennt um sanngirnisbætur

Skilyrði bótagreiðslu

Skilyrði fyrir greiðslu bóta eru að viðkomandi hafi verið vistmaður á stofnun fyrir fötluð börn fyrir 1. febrúar 1993 og hafi sætt illri meðferð eða ofbeldi sem leiddi til varanlegs skaða.

Tengiliður

Tengiliður vegna vistheimila mun aðstoða við framsetningu krafna og aðstoða vistmenn við að leita úrræða hjá opinberum aðilum vegna náms og endurhæfingar. Ekki hefur verið ráðið í starf tengiliðar, en ætlað er að tengiliður hefji störf í mars 2020.

Vefur tengiliðar: www.tengilidur.is

Innköllun krafna

Sýslumaður gefur út innköllun krafna og er það gert með auglýsingum sem birtar verða tvívegis í dagblöðum og á netinu með 14 daga millibili og verður skorað á alla þá sem voru vistaðir á stofnun fyrir fötluð börn á tilgreindum tíma og telja sig hafa orðið fyrir illri meðferð eða ofbeldi á meðan vistun stóð, að setja fram kröfu um bætur til sýslumanns. Viðkomandi getur óskað aðstoðar tengiliðar við framsetningu kröfunnar.

 Framsetning krafna /eyðublað

Á eyðublaði er hægt að setja fram kröfur. Eyðublaðið er einfalt í sniðum og það þarf ekki sérþekkingu til að fylla það út og setja fram kröfur. Eyðublaðið er hægt að fylla út í tölvunni, prenta það út og senda í pósti.  Hægt er að skila umsókn rafrænt. Til að það sé unnt þarf veflykill ríkisskattstjóra að vera fyrir hendi. Samhliða er annað eyðublað þar sem sá sem lýsir kröfu getur veitt sýslumanni heimild til að afla gagna sem flýtt geta fyrir og einfaldað meðferð málsins. Þar er aðallega um að ræða gögn sem varðveitt eru hjá vistheimilanefnd, en einnig önnur gögn sem skipt geta máli.  Heimildina þarf að prenta út, undirrita og senda í pósti, eða afhenda tengilið. Eyðublað verður tilbúið þegar innköllun hefst.

Sáttaboð sýslumanns

Þegar innköllunarfresti er lokið fer sýslumaður yfir kröfurnar og tekur afstöðu til þeirra. Kröfum sem hann telur ekki á rökum reistar skal hafnað með rökstuddu bréfi. Telji sýslumaður grundvöll til bótagreiðslu, skal hann gera viðkomandi sáttaboð. Hámarksbætur skv. lögunum nema kr. 6.000.000. Þær skulu taka verðbreytingum um hver áramót. Bætur bera ekki vexti. 

Úrskurðarnefnd

Tjónþoli getur hafnað sáttaboði sýslumanns eða samþykkt það. Hafni hann boðinu, eða hafi kröfu hans verið hafnað, getur hann innan þriggja mánaða skotið málinu til úrskurðarnefndar. Skal nefndin yfirfara kröfuna og öll gögn með ítarlegum hætti og kveða upp úrskurð. Er tjónþola heimilt að ráða sér lögmann til aðstoðar til að reka mál fyrir nefndinni og mun ríkissjóður greiða kostnað sem af því hlýst, en þó eigi hærri en tiltekna fjárhæð sem nánar verður auglýst síðar.  Úrskurður nefndarinnar er endanlegur og verður honum ekki hnekkt nema fyrir dómi. 

Greiðsla bóta

Ef fallist verður á bótakröfu, hvort sem það er á grundvelli sáttaboðs eða með úrskurði úrskurðarnefndar, verða bætur greiddar eigi síðar en 30 dögum eftir að sáttaboð eða úrskurður nefndar berst sýslumanni. 

Kröfur njóta erfðaréttar

Ef tjónþoli hefur sett fram kröfu til sýslumanns en andast áður en krafa hans er tekin til meðferðar, fer um kröfuna eftir erfðalögum. Geta þá lögerfingjar hans haldið kröfunni frammi. Lögerfingjar eru maki og niðjar viðkomandi, sem jafnframt eru skylduerfingjar eða fjarskildari ættingjar. Ef tjónþoli hefur látist áður en krafa var sett fram geta börn hans haldið henni frammi. Ekki þarf að greiða erfðafjárskatt af sanngirnisbótum í þeim tilvikum, en ef tjónþoli andast áður en hann hefur fengið allar greiðslur, má telja líklegt að eftirstöðvarnar verði hluti af dánarbúi sem skipta ber eftir reglum erfðalaga og verði þá erfðafjárskattskyldar.

Nánari upplýsingar veitir Halldór Þormar í síma 458 2600 á milli kl.11:00 og kl. 12:00 virka daga. Einnig má senda fyrirspurnir á netfangið halldor@syslumenn.is.

Uppfært 19. febrúar 2021.