Greiðsla sanngirnisbóta

Lög um sanngirnisbætur nr. 47/2010 tóku gildi í maí 2010. Á grundvelli þeirra er ríkissjóði heimilt að greiða bætur til einstaklinga sem voru vistaðir sem börn á vistheimilum á vegum hins opinbera um og eftir síðustu öld og urðu fyrir ofbeldi eða annarskonar illri meðferð á meðan á vistuninni stóð. Forsenda bótagreiðslu er að fyrir liggi könnun vistheimilanefndar á starfsemi viðkomandi stofnunar. Í árslok 2015 var lögunum breytt til þess að unnt væri að taka til greina kröfur frá fyrrverandi nemendum Landakotsskóla án þess að á undan færi könnun vistheimilanefndar. Með dómi Hæstaréttar í desember 2015 var ríkissjóði einnig gert að greiða sanngirnisbætur til nemenda Heyrnleysingjaskólans sem voru þar fyrir árið 1947 eða eftir árið 1992.

Nú liggur fyrir skýrsla vistheimilanefndar um starfsemi Kópavogshælisins 1952-1993. Unnt er að nálgast hana hér. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um innköllun á bótakröfum en búast má við að ákvörðun verði tekin í febrúar eða mars 2017. 

Í júnímánuði 2016 lauk innköllun á bótakröfum frá fyrrum nemendum Landakotsskóla og og þeim sem voru nemendur Heyrnleysingjaskólans fyrir 1. janúar 1947 eða eftir 31. desember 1992. Þeim sem ekki lýstu kröfu innan þess frests er heimilt að senda kröfur inn í allt að tvö ár frá því innköllunarfresti lauk, eða til 10. júní 2018.016.

Tengiliður vistheimila aðstoðar þá sem vilja sækja um að fylla út umsókn og koma henni til skila án endurgjalds. Tengiliður hefur skrifstofu í Innanríkisráðuneytinu. Póstur tengiliðar er tengilidur@irr.is. Sími tengiliðar er 545 9045.

Frá og með 1. janúar 2015 fer sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra með þann hluta verkefnisins sem snýr að sýslumanni, en áður var það sýslumaðurinn á Siglufirði. Nú lokið innköllun vegan tíu stofnana og bætur verið greiddar.  Alls hafa borist um 960 umsóknir. Allur meginþorri krafnanna hefur komið í gegnum skrifstofu tengiliðar með vistheimilum, en starf tengiliðar var sett á fót til þess að aðstoða bótakrefjendur við að koma kröfum sínum á framfæri og einnig leita ýmissa félagslegra úrræða fyrir fyrrverandi vistmenn, óski þeir eftir því. Hafa embættið og tengiliður því átt mikið og gott samstarf vegna þessa málaflokks.  Þegar þetta er ritað hefur ríkissjóður skuldbundið sig til greiðslu á um 2,3 milljarða króna í bætur, en þær koma þó ekki allar til greiðslu í einu, heldur er greiðslum skipt niður í allt að 36 mánuði eftir fjárhæð þeirra.