Greiðsla sanngirnisbóta

Lög um sanngirnisbætur nr. 47/2010 tóku gildi í maí 2010. Á grundvelli þeirra var ríkissjóði heimilt að greiða bætur til einstaklinga sem voru vistaðir sem börn á vistheimilum á vegum hins opinbera um og eftir síðustu öld og urðu fyrir ofbeldi eða annarskonar illri meðferð á meðan á vistuninni stóð. Forsenda bótagreiðslu er að fyrir liggi könnun vistheimilanefndar á starfsemi viðkomandi stofnunar. Alls voru greiddar bætur til um 1.200 einstaklinga vegna 11 stofnana og heimila.

Með lagabreytingu í desember 2020 var lögum um sanngirnisbætur breytt á þann veg að nú er ríkissjóði heimilað að greiða bætur til einstaklinga sem voru vistaðir á stofnunum fyrir fötluð börn fyrir 1. febrúar 1993.

Það er sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra sem fer með þann hluta verkefnisins sem snýr að sýslumanni, en áður var það sýslumaðurinn á Siglufirði.  Stefnt er að því að innköllun á kröfum frá þeim sem voru vistaðir á stofnunum fyrir fötluð börn og urðu fyrir illri meðferð, verði gefin út í lok apríl n.k. Innköllunartími er þrír mánuðir. 

Innköllun verður birt tvívegis í útbreiddu dagblaði, sem og í Lögbirtingarblaðinu.  Eftir að innköllun hefur verið gefin út verður umsóknareyðublað aðgengilegt á vefnum.

Nú stendur yfir vinna við undirbúning málsins og þar með talið ráðningu í stöðu tengiliðar sem mun verða umsækjendum innan handar við framsetningu krafna.