Um meðferð mála samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota

Lög um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota nr. nr. 69/1995 tóku gildi þann 1. júlí 1996. Markmið laganna er að bæta stöðu þolenda ofbeldisbrota með þeim hætti að ríkissjóður greiði bætur fyrir líkamstjón og miska vegna tjóns sem hlýst af broti á almennum hegningarlögum, enda er sá sem er valdur að misgjörðum yfirleitt ekki í stöðu til að greiða bæturnar.

Með líkamstjóni er átt við tjón sem getur verið grundvöllur bótagreiðslu samkvæmt I. kafla skaðabótalaga nr. 50/1993. Undir það tjón fellur t.d. sjúkrakostnaður, þjáningarbætur, vinnutap og svo varanlegar afleiðingar sem kunna að koma fram í formi örorku og varanlegs miska.

Varanleg örorka er óafturkræfur líkamsskaði sem veldur því að geta til þess að stunda atvinnu minnkar og varanlegur miski er óafturkræf skerðing á ýmsum lífsgæðum og möguleikum í lífinu. Með miska er átt við miska samkvæmt 26. gr. skaðabótalaganna en það er ýmiskonar ófjárhagslegt og tilfallandi tjón sem oft fylgir því að verða fyrir afbroti eins og óþægindi, vanlíðan og óttatilfinning svo nokkuð sé nefnt og er óháð hinum varanlega miska sem er getið að framan. Einnig eru greiddar bætur fyrir tjón á munum, en það er skilyrði að tjónið hafi orðið samhliða líkamsárás.

Bætur eru einkum greiddar vegna ofbeldisbrota. Undir það fellur líkamsárás, manndráp og kynferðisbrot en einnig getur þetta átt við önnur brot eins og t.d. ólögmæta frelsissviptingu, hótanir um ofbeldi eða brot sem felur í sér almannahættu. Yfirleitt er sá sem veldur tjóninu ekki fær um að greiða tjónþola bætur, eða hann hefur ekki hug á því. Tjónþoli á þá lögvarða kröfu á hendur ríkissjóði til greiðslu bótanna þegar skilyrði til greiðslu þeirra samkvæmt lögunum eru að öðru leyti uppfyllt. Ef ríkissjóður greiðir bætur eignast hann rétt tjónþola gagnvart tjónvaldi sem nemur fjárhæð bótanna. Ef kunnugt er hver hefur valdið tjóninu er hann jafnan krafinn um endurgreiðslu á því sem greitt hefur verið.

Ákvörðun um greiðslu bóta er tekin af sérstakri nefnd, bótanefnd. Nefndin metur hvort skilyrði bótagreiðslu séu til staðar og ákveður fjárhæð bóta, ef hún hefur ekki verið ákveðin með dómi. Bótanefnd kemur saman að jafnaði einu sinni í mánuði. Þegar dómur hefur gengið um bótakröfu er almennt miðað við að bætur verði greiddar í samræmi við niðurstöður hans. Það gildir þó ekki alltaf, eins og þegar tjónvaldur hefur til að mynda samþykkt allar bótakröfur, þá er slíkt samþykki ekki bindandi fyrir ríkissjóð, enda getur samþykkið lotið að bótagreiðslum sem eru miklu hærri en raunhæft gæti talist. Þá er útivistardómur í einkamáli heldur ekki bindandi fyrir ríkissjóð.

Lesa má meira um lögin, markmið þeirra og efni í athugasemdum með frumvarpi til laganna.

Lög um greiðslu skaðabóta til þolenda afbrota hafa nána tengingu við skaðabótalög nr. 50/1993

Reglugerð um starfshætti bótanefndar er nr. 280/2008.

Almenn skilyrði

Almennt er það skilyrði að brotið sé framið innan lögsögu íslenska ríkisins, það hafi verið kært til lögreglu og að tjónþoli hafi gert kröfu um greiðslu bóta úr hendi tjónvalds (hvort sem vitað er hver hann er eða ekki). Í sérstökum tilvikum er heimilt að greiða bætur fyrir tjón sem leiðir af broti sem framið var utan íslenska ríkisins, enda sé tjónþoli búsettur á Íslandi eða íslenskur ríkisborgari. Framkvæmdin hefur verið sú að þetta er ekki gert nema að því tilskildu að tjónvaldur sé einnig búsettur á Íslandi. Það er ófrávíkjanlegt skilyrði að brot verði varði við almenn hegningarlög. Brot á öðrum lögum sem geyma refsiákvæði, eða svonefndum sérrefsilögum eins og t.d. barnaverndarlög nægja ekki til greiðslu skaðabóta á grundvelli laga nr. 69/1995.

Ekki stendur það í vegi fyrir greiðslu bóta að brot hafi ekki verið upplýst, tjónvaldur sé ósakhæfur eða ekki sé vitað hvar tjónvaldur er staddur, svo framarlega sem leitt hefur verið í ljós að um brot á hegningarlögum hafi verið að ræða. Bótanefnd metur efnislega hvort þau skilyrði hafi verið uppfyllt.

Einnig ber að hafa reglur um tímamörk í huga, enda geta þær takmarkað rétt til bóta.

Tímamörk

Meginreglan er sú að umsókn um bætur verður að berast til bótanefndar innan tveggja ára frá því að brot var framið. Jafngilt telst að umsókn sé send dómsmálaráðuneytinu til að tímafrestur teljist rofinn. Mjög mikilvægt er að gæta þess að tímafrestinum og því er gert ráð fyrir að unnt sé að senda inn umsókn þó að mál sé enn í rannsókn hjá lögreglu eða meðferð hjá dómstólum. Ekki skiptir máli þótt fullmótuð bótakrafa sé ekki til staðar því ætið er hægt að leggja fram frekari gögn hjá bótanefnd þegar þau liggja fyrir. Góð regla er að senda tilkynningu til bótanefndar fljótlega eftir að brot hefur verið kært. Fresturinn telst þá rofinn og unnt að safna saman þeim gögnum sem verða lögð til stuðnings bótakröfu.

Unnt er að víkja frá skilyrðum um tveggja ára frestinn ef veigamikil rök eru fyrir því. Þessu undanþáguákvæði var bætt í lögin árið 1999 og tilgangur þess er einkum að bæta stöðu barna og ungmenna sem höfðu orðið þolendur alvarlegra afbrota eins og til dæmis kynferðisbrota en ekki haft aldur, þroska eða aðstæður til að gera uppvíst um brotið eða kæra það. Undanþágu ákvæðinu hefur einkum verið beitt þegar um er að ræða kynferðisbrot gegn börnum og langur tími líði þar til þau komust upp. Það er þó ekki skilyrði fyrir undanþágunni að svo hátti, heldur er hugsanlegt að víkja frá skilyrðinu við aðrar aðstæður. Þau tilvik hafa í framkvæmd verið afar fá. Bent er á að þrátt fyrir að skilyrði séu fyrir hendi til að vikið verði frá frestinum um þann tíma sem líður frá broti og þar til það hefur verið kært, þá er litið svo á að eftir að brot er komið til rannsóknar, sé hafinn nýr tveggja ára frestur sem þurfi að uppfylla.

Þegar frestur til að senda inn umsókn hefur verið rofinn er gert ráð fyrir að umsókninni sé fylgt eftir með framlögðum gögnum eins fljótt og þau liggja fyrir. Í sumum tilvikum getur þurft að bíða í marga mánuði eða 1-2 ár eftir að öll gögn liggi fyrir og umsókn verður á meðan ekki afgreidd. Þarna getur til dæmis verið átt við dómsniðurstöðu eða læknisfræðileg gögn, enda kemur tjón að fullu oft ekki fram fyrr en að liðnum nokkrum tíma frá því tjónsatburður varð. Eftir að öll gögn liggja fyrir reynir bótanefnd að afgreiða umsóknina við fyrsta tækifæri en vegna mikils málafjölda og manneklu getur afgreiðsla mála tekið um þrjá mánuði eftir að gögn liggja fyrir.

Hvaða tjón er bótunum ætlað að bæta?

 1. Líkamstjón

  Ríkissjóður greiðir bætur vegna líkamstjóns eða andláts þegar tjónið leiðir af brotum á almennum hegningarlögum og þegar líkamstjón hefur orðið af borgaralegri handtöku eða þegar refsiverðri háttsemi er afstýrt, þ.e. þegar einstaklingur slasast t.d. við að aðstoða lögreglu, eða koma í veg fyrir að annar einstaklingur verði fyrir tjóni eða eignaspjöll verði. Með líkamstjóni er átt við tjón sem getur verið grundvöllur til bóta skv. I. kafla skaðabótalaga (Undir þetta fellur atvinnutjón, sjúkrakostnaður og annað fjártjón sem af líkamstjóninu hlýst og bætur fyrir örorku, þ.e. varanlegan missi eða skerðingu á getu til að afla vinnutekna).

  Undir líkamstjón falla einnig tvenns konar bætur vegna skerðingar hugrænna gæða sem fylgt geta líkamstjóni. Í fyrsta lagi bætur vegna varanlegs miska skv. 4. gr. skaðabótalaga en við mat á varanlegum miska er litið til þess hversu mikil áhrif líkamstjónið muni hafa á líf og lífsgæði tjónþolans, til frambúðar. Í öðru lagi falla þjáningarbætur skv. 3. gr. skaðabótalaga undir líkamstjón. Þjáningarbætur eru greiddar fyrir tímabilið frá því verknaður er framinn, þar til heilsufar tjónþola er orðið stöðugt.

 2. Líkamstjón sem leiðir af brotum á almennum hegningarlögum.

  Skilyrði: Að líkamstjónið leiði af broti á almennum hegningarlögum.

  Ef tjónvaldur er ákærður í opinberu máli fyrir brot á almennum hegningarlögum er bótanefnd bundin af niðurstöðu dómsins. Ef tjónvaldur hefur hinsvegar ekki verið ákærður í opinberu máli eða dómur gengur ekki efnislega um mál hans af öðrum ástæðum, t.d. vísar bótakröfunni frá, metur bótanefnd sjálfstætt hvort um brot á almennum hegningarlögum hafi verið að ræða. Bótanefnd metur hvort verknaðarlýsing viðkomandi hegningarlagaákvæðis, hlutlægt séð, er til staðar, svo og önnur refsiskilyrði.

 3. Andlát sem leiðir af brotum á almennum hegningarlögum.

  Skilyrði: Að andlát leiði af broti á almennum hegningarlögum

  Verði afleiðing hins refsiverða verknaðar sú að brotaþoli andast skulu bætur greiddar vegna hæfilegs útfararkostnaðar og bætur vegna missis framfæranda. Skilyrðið um að brot skuli varða við almenn hegningarlög er samskonar og gildir um líkamstjón vegna brota á almennum hegningarlögum (1).

 4. Líkamstjón sem stafar af aðstoð við lögreglu vegna handtöku, borgaralegrar handtöku eða því að afstýrt er refsiverðri háttsemi.

  Í þessum undantekningartilvikum er ekki skilyrði að tjónið verði vegna brots á almennum hegningarlögum. Þessar undantekningar eru mjög matskenndar og ræðst það mjög af aðstæðum í hverju máli hvort þær geti talist eiga við. Það telst til undantekninga ef til greiðsluskyldu ríkissjóðs kemur af þessum ástæðum enda eru heimildir hins almenna borgara til afskipta af háttsemi annarra mjög takmarkaðar.

Bætur fyrir miska

Miskabætur hafa almennt verið skilgreindar sem bætur vegna tjóns sem er fólgið í skerðingu persónubundinna hugrænna gæða sem erfitt er að meta til fjár. Mælt er fyrir um það tjón sem hér fellur undir í 26. gr. skaðabótalaga þ.e. ófjárhagslegt tjón vegna meingerðar gegn frelsi, persónu, friði eða æru. Lög um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota gera þó ekki ráð fyrir að miskabætur verði greiddar úr ríkissjóði þegar brot varðar eingöngu við XXV. kafla almennra hegningarlaga sem fjallar um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs, nema einhver tengsl við annað hegningarlagabrot, t.d. kynferðisbrot, komi til.

Munatjón

 1. Tjón á fatnaði og öðrum persónulegum munum samhliða líkamstjóni

  Hér falla undir bætur vegna fataskemmda, brotinna eða týndra gleraugna, tapaðs eða skemmds armbandsúrs og skemmda á öðrum persónulegum munum sem tjónþoli hafði á sér þegar brotið átti sér stað. Í reynd hefur verið erfitt að leggja sönnur á slíkt tjón, bæði fyrir dómstólum og bótanefnd.

 2.  Reiðufé sem tapast samhliða líkamstjóni

  Minni háttar reiðufé sem kann að hafa tapast, fæst bætt, ef sýnt er fram á tapið.

 3. Munatjón vegna athafna einstaklings sem vistaður er á stofnun ríkisins vegna afbrots eða gegn vilja sínum

  Samkvæmt 4. gr. laganna greiðir ríkissjóður bætur vegna tjóns á munum sem einstaklingar valda með athöfnum sínum, sem eru í fangelsi, í haldi hjá lögreglu eða í gæsluvarðhaldi, nauðungarvistaðir á sjúkrahúsi eða á vistaður á unglingaheimili gegn vilja sínum. Þessir einstaklingar eru sviptir persónulegu frelsi sínu, og eru því í raun á ábyrgð viðkomandi stofnana þegar þeir dvelja utan stofnananna eða hafa strokið og valda munatjóni.

 4.  Annað – fylgikröfur

  Lögmannskostnaður
  Samkvæmt gildandi lögum verður brotaþoli sjálfur að greiða kostnað við lögfræðiaðstoð sér til handa, óski hann eftir aðstoð vegna kæru, rannsókn eða meðferð opinbers máls. Ef tjónþola eru tildæmdar bætur í refsimáli á hendur tjónvaldi, tekur dómarinn yfirleitt afstöðu til þóknunar lögmanns hans.

  Ekki er talið nauðsynlegt að fá lögmann til að leggja bótakröfu fyrir bótanefndina en minnt er á að skaðabótakröfur geta verið flóknar og erfitt fyrir leikmann að setja þær saman. Ef tjónþoli hefur ráðið lögmann sér til aðstoðar getur bótanefndin ákveðið að auk skaðabóta skuli greiða lögmannskostnaðinn að nokkru eða öllu leyti.

  Eftir uppkvaðningu dóms í máli í Hæstarétti í maí 2005, er ótvírætt að ríkissjóður skal greiða vexti og dráttarvexti af tildæmdum höfuðstóli, en fram til þess tíma hafði bótanefndin ekki fallist á greiðslu dráttarvaxta. (Sjá dóm Hæstaréttar Íslands, uppkv. 12. maí 2005, í máli nr. 494/2004). Þrátt fyrir vaxtakröfu getur greiðsluskylda ríkissjóðs ekki farið fram úr hámarki bóta fyrir viðkomandi tjón en fjallað verður um hámark bóta hér neðar. Ef mál er óupplýst hefur bótanefnd almennt ekki fallist á greiðslu dráttarvaxta því þá verður kröfunni er aðeins beint að ríkissjóði og ekki hægt að líta svo á að vanskilum sé þar til að dreifa.

Hvað er bótunum ekki ætlað að bæta?

Almennt fjártjón skal ekki bætt samkvæmt lögunum. Þannig verða t.d. ekki greiddar bætur fyrir tjón sem er afleiðing þjófnaðar, fjárdráttar, fjársvika eða annarra sambærilegra brota.

Þegar svo háttar að bæði tjónþoli og tjónvaldur eru staddir á Íslandi um stundarsakir og eiga engin sérstök tengsl við landið, eru t.d. ferðamenn, þá eru ekki greiddar bætur.

Fjárhæð bótakröfu

Almennt

Hafi dómur gengið um kröfuna þá er fjárhæð bótakröfunnar ákveðin í samræmi við dómsorð hans, að teknu tilliti til hámarks og lágmarks bóta sem greiddar eru af ríkissjóði. Þó verður að gera þann fyrirvara að mál geta þróast þannig að endanlegt tjón tjónþola er ekki að fullu ljóst við meðferð málsins fyrir dómi. Þá er hægt að krefjast bóta fyrir slíkt tjón þrátt fyrir að þess hafi ekki verið getið í dómsorði. Þessa undantekningu ber þó að skilja þröngt. Hafi verið mögulegt að gera endanlega kröfu í dómsmálinu, en það hafi verið látið hjá líða, þá er of seint að koma henni að þegar dómur er fallinn í málinu. Það sem einna helst kemur til greina að bæta við eftir að dómur hefur fallið eru kröfur vegna varanlegs líkamstjóns eða varanlegs miska, enda getur verið erfitt að meta slíkt tjón fyrr en nokkuð er liðið frá tjónsatvikinu, jafnvel nokkur ár.

Hafi ekki gengið dómur um kröfuna er fjárhæð bóta háð mati bótanefndarinnar. Við mat sitt styðst bótanefndin við almennar reglur skaðabótaréttar, þar á meðal við reglur um lækkun eða niðurfellingu bóta vegna eigin sakar eða áhættu tjónþola eins og ef tjónþoli hefur sjálfur með háttsemi sinni átt upptök að átökum sem leiddu til tjóns hans. Við mat á bótum fer bótanefnd almennt eftir dómaframkvæmd eins og hún hefur verið í sambærilegum málum.

Ekki er gert ráð fyrir því að höfða þurfi einkamál á hendur tjónvaldi til greiðslu á bótakröfu ef hún fellur undir gildissvið laga nr. 69/1995. Ef gengið hefur dómur í einkamáli hefur þó verið litið svo á að bótanefnd sé bundin við fjárhæð dómsins eins og þegar um er að ræða tildæmdar bætur í sakamáli. Þetta á þó ekki við í þeim tilvikum þar sem gengið hefur útivistardómur eða þegar tjónvaldur hefur án mótmæla samþykkt allar kröfur á hendur honum. Þá hefur dómstóllinn ekki tekið eiginlega afstöðu til krafnanna heldur bara samþykkt þær eins og þær voru fram settar. Þegar svo háttar ber bótanefnd að taka sjálfstæða efnislega afstöðu til þeirra.

Frá fjárhæð bótakröfu þarf að draga greiðslur sem tjónþoli hefur fengið eða samið um að fá greiddar frá tjónvaldi, greiðslur sem falla undir almannatryggingar, laun í veikindum, lífeyrisgreiðslur eða vátryggingabætur. Sama gildir um aðra fjárhagsaðstoð sem tjónþoli hefur fengið eða á rétt á vegna tjónsins. Ef tjónþoli leynir því að hann hafi fengið greiðslur vegna tjónsins frá öðrum leiðum er heimilt að krefja hann um að skila þeim bótum sem hann hefur fengið úr ríkissjóði með vöxtum og dráttarvöxtum.

Eigi ríkissjóður endurkröfu á hendur tjónþola á grundvelli 19. gr laganna, þ.e. ef hann hefur sjálfur valdið tjóni sem leiddi til greiðslu bóta á grundvelli þeirra, er heimilt er að draga frá þeim skaðabótum sem hann kann að eiga rétt á, þá fjárhæð sem ríkissjóður á í endurkröfu.

Hámark

Fyrir hvern einstakan verknað er greiðsluskylda ríkissjóðs takmörkuð við eftirtaldar fjárhæðir, að vöxtum meðtöldum:

 1. Fyrir tjón á munum skulu ekki greiddar hærri bætur en 250.000 kr.
 2. Fyrir líkamstjón skulu ekki greiddar hærri bætur en 2.500.000 kr. Fyrir brot sem framin eru eftir 22. júní 2012, kr 5.000.000.
 3.  Fyrir miska skulu ekki greiddar hærri bætur en 600.000 kr. Fyrir brot sem eru framin eftir 22. júní 2012, kr 3.000.000.
 4. Fyrir missi framfæranda skulu ekki greiddar hærri bætur en 2.500.000 kr.
 5. Vegna útfararkostnaðar eru ekki greiddar hærri bætur en kr 1.500.000. Er það miðað við brot sem framin eru eftir 22. júní 2012

Það skal sérstaklega tekið fram að mögulegt er að fá greiddar bætur vegna fleiri en eins liðar af ofangreindum liðum vegna sama verknaðar og gildir þá hámarksfjárhæðin aðeins fyrir hvern kröfulið fyrir sig. Almenna reglan er sú að lögmannskostnaður og annar kostnaður verður ekki greiddur til viðbótar við hámark bóta fremur en vextir, nema þar sé um að ræða kostnað sem bótanefnd hefur efnt til eins og t.d. með því að boða tjónþola á sinn fund eða krefjast einhverra gagna sem ekki verður aflað án þess að leggja í kostnað vegna hennar.

Þessar fjárhæðir eru ekki verðbættar.

Lágmark

Greiðsluskylda ríkissjóðs á bótum stofnast ekki, vegna einstaks verknaðar, nema höfuðstóll kröfu nemi 100.000 krónum eða hærri fjárhæð vegna brota sem framin voru fyrir 1. júlí 2009 en kr 400.000 vegna brota sem framin voru eftir 1. júlí 2009.

Hvað þarf að koma fram í umsókn?

Umsókn skal vera skrifleg. Í umsókninni þarf eftirfarandi að koma fram:

 • Nafn, heimilisfang og kennitala tjónþola.
 • Tilgreining á fulltrúa tjónþola ef tjónþoli rekur mál sitt ekki sjálfur fyrir nefndinni
 •  Tilgreining á því hvar og hvenær tjónsatvikið átti sér stað
 • Hvort dómur hafi fallið um kröfuna, og ef ekki, hverjar ástæður þess eru.
 • Hvort tjónþoli hafi fengið einhvern hluta kröfunnar greiddan frá tjónvaldi eða öðrum, og þá hversu mikið.
 • Umsóknin þarf að vera undirrituð af tjónþola eða fulltrúa hans og dagsett.
 • Ef gögn liggja ekki öll fyrir þarf að taka fram að þau berist síðar og ástæður þess
 • Fjárhæð bótakröfu. Unnt er að gera bráðabirgðakröfu og áskilja sér rétt til að leggja síðar fram breyttar kröfur.

Hvaða gögn þurfa að fylgja umsókn?

Það ræðst nær alfarið af eðli tjónsins hvaða gögn þurfa að fylgja umsókn. Allir kröfuliðir þurfa að vera nægilega studdir gögnum. Ef ekki hefur gengið dómur um bótakröfu þarf bótanefnd að taka til hennar afstöðu og kröfur um sönnun á tjóni eru þær sömu og fyrir dómi. Ef um líkamstjón er að ræða getur þurft að skila áverkavottorði og öðrum læknisvottorðum, læknisfræðilegum matsgerðum ef t.d. um langvarandi eða varanlegt líkamstjón er að ræða og reikningum vegna útlagðs kostnaðar, t.d. vegna komu á slysadeild. Ef um miskabótakröfu er að ræða er það fyrst og fremst matsgerðir sem getur þurft að leggja fram. Varðandi munatjón eru það kvittanir eða matsgerðir sem bera með sér verðmæti muna. Ef dómur hefur fallið um kröfuna getur verið nægilegt að leggja fram afrit af honum. Ef dómur hefur ekki fallið um kröfuna er alltaf er nauðsynlegt að leggja fram afrit af öllum lögregluskýrslum sem máli geta skipt um atvikalýsingu og niðurstöðu kröfunnar.

Almennt er gert ráð fyrir að málsmeðferð fyrir bótanefnd sé skrifleg og byggist fyrst og fremst á þeim gögnum sem tjónþoli leggur fram með umsókn. Bótanefndin getur þó aflað frekari upplýsinga frá tjónþola, tjónvaldi og öðrum og kallað þá fyrir sig til að gefa skýringar, t.d. er miðað er við að bótanefnd gefi tjónvaldi kost á andmælum í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga. Bótanefnd getur einnig óskað eftir því við tjónþola að hann gangist undir rannsókn hjá lækni og að nefndinni sé heimilt að fá afrit úr sjúkraskrá tjónþola. Hafni tjónþoli slíkri beiðni getur það leitt til þess að beiðni hans um greiðslu bóta verði hafnað. Í tilvikum þegar refsimál er ekki höfðað getur í undantekningartilvikum verið nauðsynlegt að teknar séu skýrslur af vitnum fyrir dómi samkvæmt XII. kafla laga um meðferð einkamála.

Hvert á að senda umsókn?

Umsókn skal senda til sýslumannsins á Norðurlandi eystra, skrifstofa bótanefndar, Gránugötu 4-6, 580 Siglufirði.

Netfang: botanefnd@syslumenn.is