Um bótanefnd skv. lögum nr. 69/1995

Ríkissjóður greiðir bætur til þolenda tiltekinna afbrota

Einkum er þar um að ræða tjón sem verður vegna ofbeldiskenndra brota eins og líkamsárása, manndrápa, kynferðisbrota, ólögmætrar frelsissviptingu og brota sem valda almannahættu. Eftir atvikum geta önnur brot komið til greina. Ekki greiddar bætur vegna auðgunarbrota og eignaspjalla. Til þess að greiðsla bóta komi til álita þarf brot að hafa verið framið innan lögsögu íslenska ríkisins.  Bætur eru greiddar þótt ekki sé vitað hver framdi brotið eða þótt sá sem það framdi sé ósakhæfur. Ef svo háttar metur nefndin hvort tiltekið tjón sé afleiðing af refsiverðum verknaði.

Bótanefnd tekur ákvörðun um bætur og fjallar sérstaklega um hvert mál

Skrifstofa bótanefndar er hjá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, Gránugötu 4-6 á Siglufirði. Þangað ber að beina öllum fyrirspurnum um mál til meðferðar og hvaða reglur gilda. Upplýsingar eru veittar í síma 458 2600 á milli 11:00 og 12:00 virka daga eða með tölvupósti á netfangið:  botanefnd@syslumenn.is

Sækja þarf sérstaklega um greiðslu á bótum því það gerist ekki sjálfkrafa þótt bætur séu dæmdar

Það skilyrði er fyrir greiðslu að brot hafi verið kært til lögreglu án ástæðulauss dráttar og gerð bótakrafa á hendur þeim sem tjóni olli á meðan rannsókn máls stendur yfir. Það er einnig skilyrði fyrir greiðslu ríkissjóðs að umsókn berist bótanefnd innan tveggja ára frá því brot var framið. Frá þessu eru fáar undantekningar. Einkum á það við þegar brotaþolar hafa verið á barnsaldri. Bótanefnd er þá aðallega heimilt að framlengja frestinn frá þeim tíma þegar brot er framið og þar til telja má sanngjarna kröfu til þess að brotaþoli geti lagt fram umsókn um bætur. Hvert tilvik er þó metið sérstaklega. Að öðru leyti er rétt að afla nánari upplýsinga hjá bótanefnd.

Ekki er nauðsynlegt að bíða eftir dómi til að sækja um bætur

Það er einnig unnt að sækja um þótt tjón sé ekki að fullu ljóst. Unnt er að rjúfa tveggja ára frestinn með því að senda inn tilkynningu um tjónsatburðinn til bótanefndar og tilkynna að önnur gögn berist síðar. Ekki er nauðsynlegt að höfða einkamál á hendur þeim sem tjóni olli. Almennt er gert ráð fyrir að hver og einn geti lagt mál sitt fyrir nefndina án aðkomu lögmanns en þó getur verið nauðsynlegt að leita lögmanns við það, því uppgjör bóta getur krafist sérþekkingar.

TEKIÐ ER FRAM AÐ TVEGGJA ÁRA FRESTURINN GILDIR ÞRÁTT FYRIR AÐ MÁL SÉ TIL MEÐFERÐAR FYRIR DÓMI, EÐA ENN Í RANNSÓKN ÞEGAR HANN ER LIÐINN. 

Það er hámark og lágmark á því sem ríkissjóður greiðir

Ekki eru greiddar bætur nema höfuðstóll bóta nái að lágmarki kr. 400.000 ef brotið hefur verið framið eftir 1. júlí 2009. Ekki eru greiddar hærri miskabætur en kr. 3.000.000 og ekki eru greiddar hærri bætur vegna líkamstjóns en kr. 5.000.000. Hafi brot þó verið framið fyrir 26. júní 2012, eru fjárhæðirnar kr. 600.000 í miskabætur og kr. 2.500.000 vegna líkamstjóns.

Bótanefnd tekur umsókn um bætur ekki til meðferðar fyrr en ljóst er að endanlegur dómur liggur fyrir eða þegar lögreglurannsókn telst lokið án þess að mál hafi verið upplýst. Þegar öll gögn liggja fyrir má búast við að afgreiðsla umsóknar hjá bótanefnd geti tekið töluverðan tíma þar sem á undanfrnum árum hefur umsóknum sem berast til nefndarinnar fjölgað verulega. Nefndinni berast um 400-500 mál á ári hverju.

Sjá nánari umfjöllun um bótanefnd og þau lög og reglur sem gilda um málaflokkinn.

 

Ágrip helstu ákvarðana bótanefndar árið 2016