Útburður

Um útburð er fjallað í 72. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sem er svohljóðandi:

Ef aðfararheimild kveður á um skyldu gerðarþola til að víkja af fasteign eða til að láta gerðarbeiðanda af hendi umráð hennar að einhverju leyti eða öllu, eða til að fjarlægja hluti af henni, skal sýslumaður fullnægja rétti gerðarbeiðanda með útburði gerðarþola eða þeirra hluta, sem fjarlægðir verða, og eftir atvikum með innsetningu gerðarbeiðanda.

Áður en beiðni um útburð er tekin fyrir þarf að liggja fyrir aðfararheimild, það er ákvörðun eða úrskurður dómara sem ótvírætt skyldar gerðarþola til að víkja af eign. Skal aðfararheimild lögð fram þegar mál er tekið fyrir hjá sýslumanni.

Framkvæmd útburðar fer að jafnaði þannig fram að fyrst er beiðni gerðarbeiðanda tekin fyrir á skrifstofu sýslumanns og kynnt gerðarþola og skorar sýslumaður á hann að yfirgefa eignina fyrir þann tíma sem gerðin á að fara fram og fjarlægja þaðan það sem honum tilheyrir og afhenda gerðarbeiðanda umráð hennar.  Ef gerðarþoli verður ekki við þessu er ákveðinn tími sem útburðurinn skal fara fram.  Skal gerðarbeiðandi eða fulltrúi hans vera viðstaddur. Hafi gerðarþoli ekki orðið við áskorun um að víkja af eign getur sýslumaður kallað til aðstoðarmenn til þess að komast inn í fasteign, til dæmis brjóta upp lása og bera út muni. Ef gerðarþoli sjálfur sýnir mótþróa er með hliðsjón af 30. gr. aðfararlaga rétt að kalla til lögreglu til að bera hann út. Á sama hátt má beita valdi gagnvart heimilisfólki gerðarþola og öðrum sem hittast fyrir innandyra og verða ekki við áskorun um að yfirgefa fasteignina. Ef börn undir 18 ára dvelja eða búa á eign er rétt að leita liðsinnnis viðkomandi barnaverndarnefndar.

Að jafnaði er óskað eftir að gert verði fjárnám til tryggingar kotnaði við gerðina, en kostnaður sem fellur til vegna flutninga á munum (sendibifreiðar og annað slíkt) er á ábyrgð gerðarbeiðanda, meðan ekki fæst greiðsla frá gerðarþola.

Ef gerðarþoli vísar ekki á stað sem færa má munina á skal gerðarbeiðandi reyna að finna viðunandi geymslu fyrir þá.  Ef gerðarþoli hirðir ekki um að taka þá til sín mætti síðan selja þá á uppboði upp í geymslukostnað eða farga þeim ef þeir teljast lítils virði. Áður skal þó reynt að koma þeim í hendur gerðarþola.