Fjárnám

Fjárnám er aðgerð framkvæmd af sýslumanni til að fullnægja skyldu um greiðslu peninga og felur í sér að taka veð í eignum skuldara til tryggingar kröfum á hendur honum. Fjárnám er ein tegund aðfarargerðar en um þær er fjallað í lögum nr. 90/1989 um aðför o.fl. með áorðnum breytingum (aðfararlög).

Hverjir eru aðilar að fjárnámi?

Aðilar að fjárnámi eru gerðarbeiðandi, (kröfueigandi) eða sá sem fer fram á að fjárnám verði gert, og gerðarþoli, sem er skuldari viðkomandi fjárkröfu, útgefandi tryggingabréfs, dómþoli eða sá sem skuldar gjöld til opinbers aðila. 

Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að krefjast megi fjárnáms?

Kröfuhafi getur krafist fjárnáms hjá skuldara ef krafa hans fullnægir ákveðnum skilyrðum sem talin eru upp í 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 og lúta að því að krafa hans sé í því formi að hún teljist aðfararheimild.  Aðfararheimildir eru m.a. dómar og úrskurðir íslenskra dómstóla, skuldabréf með beinni aðfararheimild, víxlar, skattkröfur, dómssáttir, úrskurðir yfirvalda og ógreidd en gjaldfallin gjöld til ríkis og sveitarfélaga.

Hvernig fer fyrirtaka fjárnáms fram?

Ef aðfararbeiðni fullnægir lagaskilyrðum boðar sýslumaður gerðarþola (skuldara) og gerðarbeiðanda (kröfuhafa) til fyrirtöku. Gerðarþoli er yfirleitt boðaður með kvaðningu sem birt er af stefnuvotti eða af starfsmanni póstsins. Heimilt er að láta hjá líða að boða gerðarþola til fyrirtöku að uppfylltum ákveðnum skilyrðum en í slíkum tilvikum hefst gerðin að jafnaði á lögheimili gerðarþola.

Það ræðst af því hvort gerðarþoli eða einhver fyrir hans hönd mætir eða ekki hvernig fjárnámið fer fram.  Ef gerðarþoli mætir eða einhver fyrir hans hönd hefst gerðin á því að gerðarþola er kynnt fjárnámsbeiðnin og meðfylgjandi gögn og aðilum gefinn kostur á að tjá sig um kröfuna.  Ef aðili er ólöglærður ber sýslumanni að leiðbeina honum um réttarstöðu hans.  Hafi gerðarþoli ekkert við hana að athuga er skorað á hann að greiða kröfuna.  Verði hann ekki við þeirri áskorun sem oftast er er skorað á hann ef gerðarbeiðandi krefst þess að benda á eignir sínar sem nægjanlegar eru til að tryggja kröfuna.  Fyrirtöku fjárnáms hjá sýslumanni lýkur með mismunandi hætti eftir því hvort gerðarþoli á eignir eða ekki.

Er hægt að fá fyrirtöku fjárnáms frestað?

Ef gerðarþoli óskar eftir að fá fyrirtöku fjárnáms frestað þarf hann að snúa sér til gerðarbeiðanda eða lögmanns hans eða eftir atvikum innheimtumanns ríkisins (sýslumanns)  ef hann er gerðarbeiðandi og reyna að ná samkomulagi um frestun gerðarinnar, þá gjarnan gegn því að greiða inn á kröfuna.  Ef um semst óskar gerðarbeiðandi eftir að fyrirtökunni verði annað hvort frestað og tilkynnir það sýslumanni eða afturkallar beiðni sína.

Ef gerðarþoli á eignir?

Eigi gerðarþoli eignir sem nægja til tryggingar kröfunni er fyrirtökunni lokið með fjárnámi í þeim eignum.  Sýslumaður skráir hvaða eignir það eru sem gert er fjárnám í og gerðarbeiðandi getur eftir atvikum látið þinglýsa því á þá eign eða eignir.  Eru þannig lögð veðbönd á eignina.  Fjórum vikum eftir að fjárnám hefur farið fram getur gerðarbeiðandi óskað eftir nauðungarsölu á eign, sem fjárnám var gert í.  Gerðarþola er óheimilt að fara með eign sem fjárnám hefur verið gert í á nokkurn hátt sem gæti brotið í bág við rétt gerðarbeiðanda. 

Nokkrar eignir eru undanþegnar fjárnámi og eru þessar helstar:  a) lausafjármunir , sem nauðsynlegir eru gerðarþola og heimilismönnum hans til að halda látlaust heimili með þeim hætti, sem almennt gerist;  b) munir sem hafa minjagildi;  c) munir sem eru nauðsynlegir vegna örorku eða heilsubrests;  d) námsgögn, sem eru nauðsynleg gerðarþola eða heimilismanni hans vegna skólagöngu eða e) munir sem gerðarþoli eða heimilismaður hans nýtir til atvinnu sinnar og er að samanlögðu verðmæti allt að 50.000 kr. (miðað við verðlaga 1991).

Ef gerðarþoli á ekki eignir?

Eigi gerðarþoli hins vegar engar eignir eða ekki nægilegar eignir til að tryggja kröfuna lýkur fyrirtökunni með árangurslausu fjárnámi eða árangurslausu fjárnámi að hluta.

Árangurslausu fjárnámi er lokið með þeim hætti að sýslumaður bókar að gerðarþoli geti ekki bent á eignir til tryggingar kröfunni og að fjárnáminu sé lokið án árangurs. Við þetta fá  gerðarbeiðandi og aðrir kröfuhafar, sem eiga gjaldfallna kröfu á hendur gerðarþola, heimild til að óska eftir gjaldþrotaskiptum hjá gerðarþola fyrir dómi.  Heimild þessi gildir í þrjá mánuði frá bókun árangurslauss fjárnáms.

Haldin er skrá yfir árangurslaus fjárnám hjá fyrirtækinu Creditinfo-Lánstraust hf., og upplýsingum úr henni miðlað til meðal annars  banka, lánastofnana og fleiri.  Nöfn þeirra aðila, sem sæta árangurslausu fjárnám færast í þessa skrá. Á meðan krafan er óuppgerð er það síðan á valdi eiganda kröfunnar hvort nafn skuldara sem gert hefur verið hjá árangurslaust fjárnám hjá er á þessari skrá eða ekki. Má oft ná samkomulagi við kröfueigendur um að nafn þeirra verði fært af þessari skrá ef samningar takast um uppgjör kröfunnar.  Séu upplýsingarnar orðnar eldri en fjögurra ára er miðlun þeirra óheimil.

Sjá má gildandi starfsleyfi fyrir Creditinfo-Lánstraust á vef Persónuverndar, fyrir annars vegar einstaklinga og hins vegar lögaðila.

Ef gerðarþoli mætir ekki í fyrirtöku vegna fjárnáms?

Mæti gerðarþoli ekki við fyrirtöku fjárnámsbeiðni þrátt fyrir boðun er samt sem áður unnt að gera fjárnám í eignum hans ef einhverjar eru.  Þá eru eignirnar skrifaðar upp, gerðarþola tilkynnt um að fjárnám hafi verið gert í þeim og að það varði refsingu að ráðstafa þeim þannig að fari í bága við rétt gerðarbeiðanda samkvæmt fjárnáminu.  Í framhaldinu getur gerðarbeiðandi óskað nauðungarsölu á eignunum. 

Sé ekki vitað um eignir í eigu gerðarþola þegar beiðni um fjárnám er tekin fyrir standa gerðarbeiðanda til boða þrjú úrræði:

  1. Gerðarþoli boðaður til sýslumanns á ný með aðstoð lögreglu.  Lögreglu er skylt að veita sýslumanni atbeina sinn við að boða gerðarþola til gerðarinnar eða færa hann til hennar ef boðun er ekki sinnt.
  2. Sýslumaður getur farið ásamt gerðarbeiðanda eða umboðsamnni hans og reynt að hitta gerðarþola fyrir á heimili hans eða annars staðar þar sem líklegt er að hann hittist fyrir.
  3. Gert kröfu um að fjárnámi verði lokið án árangurs með heimild í 62. gr. laga um aðför, sbr. 1. gr. laga nr. 95/2010 um breytingu á þeim lögum.  Fylgja slíku fjárnámi sömu heimildir og þegar gerðarþoli mætir til fyrirtöku og lýsir yfir eignaleysi sínu, þ.e. hann lendir á vanskilaskrá og óska má gjaldþrotaskipta á búi hans fyrir héraðsdómi. Þegar svona stendur á og gerðarþoli telur sig eiga eignir til tryggingar kröfunni er honum heimilt að óska endurupptöku gerðarinnar.  Skal beiðni um það beint til sýslumanns sem tók málið fyrir.   

Er hægt að losna undan réttaráhrifum fjárnáms?

Gerðarþoli getur ávallt samið við gerðarbeiðanda eða lögmann hans um uppgjör kröfunnar sem var grundvöllur fjárnámsins.  Þegar krafan er uppgerð er réttur gerðarbeiðandi til eignarinnar niðurfallinn. Hafi fjárnáminu verið þinglýst er því aflýst af eign gerðarþola en ef gert hefur verið árangurslaust fjárnám skal það það tekið af skrá hjá Creditinfo Íslandi hf. Ber kröfueignada að annast það en ella skal gerðarþoli senda fyrirtækinu gögn er sýni uppgreiðslu kröfunnar svo sem fullnaðarkvittun á kröfu þeirri sem hið árangurslausa fjárnám byggði á.

Hver og einn getur fylgst með stöðu skráningar um sig á vefnum mittcreditinfo.is með því að fá lykilorð sent í heimabanka.

Uppfært 05.09.2019.