Ráðstöfun eigna

Ráðstöfun á eignum ófjárráða, á jafnt við um þá sem eru ófjárráða vegna aldurs og þá sem sviptir hafa verið fjárræði sínu.

Eignir ófjárráða skulu varðveittar tryggilega og ávaxtaðar eins og best er á hverjum tíma. Lögráðamanni ber að halda fjármunum skjólstæðings síns aðgreindum frá eigin fjármunum.  Eignir ófjárráða sem eru að verðmæti yfir kr. 1.206.710  skulu varðveittar og ávaxtaðar að höfðu samráði við yfirlögráðanda (sýslumann).  Þessi fjárhæð var við gildistöku lögræðislaga 1. janúar 1998 kr. 500.000 en með auglýsingu dómsmálaráðuneytisins sem birtist 28. desember 2018 í Lögbirtingablaðinu var tilkynnt um þessa breytingu á þeirri fjárhæð.    

Óheimilt er að ráðstafa fjármunum hins ófjárráða til að greiða kostnað af framfærslu hans, námi eða öðru án fyrirframfengins samþykkis yfirlögráðanda (sýslumanns).

Samþykki yfirlögráðanda (sýslumanns) þarf til að binda ófjárráða aðila við kaup eða sölu fasteignar, loftfars, skráningarskylds skips eða skráningarskylds ökutækis, svo og atvinnufyrirtækis. Sama gildir ef ófjárráða einstaklingur fær afhentar slíkar eignir án endurgjalds.

Í ákveðnum tilfellum þarf samþykki yfirlögráðanda til að leigusamningur um fasteign hins ófjárráða sé gildur.

Óheimilt er að veðsetja eignir ófjárráða eða lána fé hans án samþykkis yfirlögráðanda (sýslumanns).  

Samþykki yfrilögráðanda (sýslumanns) þarf til allra ráðstafana varðandi fjárhald ófjárráða aðila sem eru mikilsháttar eða óvenjulegar miðað við efni þess.

Beiðni lögráðamanns um að yfirlögráðandi samþykki tiltekna ráðstöfun vegna ófjárráða skjólstæðings, skal senda yfirlögráðanda (sýslumanni) skriflega á þar til gerðu eyðublaði.

Nánari fyrirmæli um meðferð á fjármunum ófjárráða manna er að finna í 66. til 73. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

Uppfært 02.05.2018.