Ráðsmenn

Fjárráða maður, sem á óhægt með að sjá um fjármál sín vegna veikinda eða fötlunar, getur óskað eftir því að yfirlögráðandi (sýslumaður) skipi honum ráðsmann.

Skilyrði er að sá sem óskar eftir skipun ráðsmanns geri sér grein fyrir þýðingu þeirrar ráðstöfunar.  Læknisvottorð skal fylgja því til staðfestingar, en einnig ber sýslumanni að ræða við umsækjanda um umsóknina og þýðingu hennar.

 Þegar manni hefur verið skipaður ráðsmaður glatar hann rétti til að fara með, ráðstafa og takast á herðar skuldbindingar vegna þeirra eigna sem ráðsmanni hafa verið faldar til umsjónar.

 Heimilt er að fela ráðsmanni umsjón eftirtalinna eigna:

-Fasteigna, loftfara, skráningarskyldra skipa og skráningarskyldra ökutækja.

-Viðskiptabréfa, fjármuna á innlánsreikningum og inneigna í verðbréfasjóðum.

 Í umsókninni ber að tilgreina nákvæmlega hvaða eignir óskað er eftir að fela ráðsmanninum til umsjónar, t.d. tilgreina fasteignanúmer fasteignar og númer innlánsreiknings.

 Hafi ráðsmanni verið falin umsjón fasteignar, loftfars, skráningarskylds skips eða skráningarskylds ökutækis skal skipun hans þinglýst á viðkomandi eign.

Hafi umsækjandi ekki óskað eftir því að tiltekinn maður verði skipaður ráðsmaður verður ráðsmaður valinn í samráði við umsækjanda. Ef umsækjandi er í hjúskap skal maka hans veitt færi á að tjá sig um málið, þar á meðal um val á ráðsmanni. Það sama gildir um sambúðarmaka.

 Við skipun ráðsmanns ákveður yfirlögráðandi þóknun hans með tilliti til eðlis og umfangs starfans.  Þóknun ráðsmanns skal greidd af skjólstæðingi hans.  Má gera ráð fyrir að við ákvörðun þóknunar verði litið til reglna nr. 965/2015 um þóknun og útlagðan kostnað skipaðra lögráðamanna.  Sjá hér til hliðar.

 Við skipun á ráðsmanni gefur sýslumaður út skipunarbréf til hans.

 Ráðsmaður skal fyrir 1. mars ár hvert gefa sýslumanni skýrslu, á eyðublaði sem hann leggur til, um helstu ákvarðanir sem teknar hafa verið á fyrra ári um fjárhald og eignaumsýslu skjólstæðings síns.

Breytist heilsufar skjólstæðings ráðsmanns svo að hann uppfyllir ekki lengur skilyrði skipunar ráðsmanns skal ráðsmaður vekja athygli sýslumanns á því. Skal þá sýslumaður taka ákvörðun um hvort ráðsmanni skuli þá þegar veitt lausn frá störfum eða hvort beðið skuli úrskurðar í fjárræðissviptingarmáli.

Fyrir skipun ráðsmanns og breytingar á störfum hans skal greiða samkvæmt ákvæðum laga um aukatekjur ríkissjóðs, sjá hér

 Eyðublað fyrir árlega skýrslu ráðsmanns er að finna á vef sýslumanna www.syslumenn.is