Lögmannsréttindi

Frá 1. janúar 2015 hefur Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra farið með þau málefni lögmanna samkvæmt lögum um lögmenn nr. 77/1998 og í samræmi við  reglugerð 90/2014.

Í þessu felst að embættið annast:

 •    Veitingu málflutningsréttinda, fyrir héraðsdómi, Landsrétti og Hæstarétti
 •    Að halda skrá yfir lögmenn
 •    Að taka við innlögn réttinda
 •   Að afhenda að nýju leyfi sem hafa verið innlögð
 •   Að fella niður leyfi ef lögmaður uppfyllir ekki skilyrði laganna
 •   Að endurveita leyfi ef það hefur verið fellt niður og hæfisskilyrði  hafa verið uppfyllt á ný
 •   Að gefa út vottorð um hæfi til flutnings prófmála fyrir Landsrétti og Hæstarétti

Öllum erindum ber að beina til sýslumannsins á Norðurlandi eystra, skrifstofu að Gránugötu 4-6, 580 Siglufirði. Fyrirspurnum ber að beina til Halldórs Þormars Halldórssonar á sama stað, í síma 458 2600 á milli 11:00 og 12:00 virka daga, eða á netfangið logmenn@syslumenn.is.

Þann 1. janúar 2018 tóku að fullu gildi ný lög um dómstóla nr 50/2016. Með þeim varð sú breyting  að nýtt dómsstig var sett á fót, en það er Landsréttur. Við þetta urðu nokkrar breytingar á lögum um lögmenn, eins og t.d. að hugtökin héraðsdómslögmaður og Hæstaréttarlögmaður féllu formlega niður. 

Útgáfa málflutningsréttinda

Um lögmenn gilda lög nr. 77/1998 og getur sá orðið lögmaður sem :

 1. Hefur lokið fullnaðarnámi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi við lagadeild háskóla sem er viðurkenndur hér á landi. Eftir atvikum getur sá sem hefur lokið sambærilegu námi við erlenda háskóla hlotið sömu réttindi
 2. Er svo á sig kominn andlega að hann sé fær um að gegna störfum lögmanns
 3. Hefur aldrei orðið að sæta því að bú hans sé tekið til gjaldþrotaskipta 
 4. Hefur ekki hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framin var eftir að 18 ára aldri var náð.
 5. Stenst prófraun skv. 7. gr. laganna, en þar er átt við prófraun sem þriggja manna dómnefnd sem skipuð er af ráðherra annast

Sá sem uppfyllir framangreind skilyrði getur sótt um það til sýslumannsins á Norðurlandi eystra, skrifstofu, á Siglufirði að fá útgefið leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi.  Réttaráhrif þess að fá slíkt leyfi eru þau að sá sem það hefur getur flutt mál fyrir héraðsdómi og gætt hagsmuna þess sem veitt hefur honum umboð til þess og tekið við tilnefningu sem réttargæslumaður eða verjandi í sakamáli. Lögmaður er verndað starfsheiti og telst opinber sýslunarmaður með þeim réttindum og skyldum sem í því felast.

Á þessum vef er sérstakt eyðublað sem þarf að fylla út og senda embættinu.

Með umsókn þurfa að fylgja:

 •   Prófskírteini sem staðfestir að umsækjandi hafi þreytt prófraun samkvæmt 7. gr. laganna
 •   Undirrituð yfirlýsing sem einnig er að finna á þessum vef
 •   Greiðsla á leyfisgjaldi kr. 11.000 - sem ber að leggja inn á reikning nr. 0348-26-000001, kt. 680814- 0820

Afgreiðsla umsóknar tekur mislangan tíma en þó vart lengri tíma en nokkra daga. Að því loknu fær umsækjandi leyfisbréf í pósti. Það ber lögmanni að varðveita á meðan réttindi hans eru virk. Jafnframt er útgáfa leyfis auglýst í Lögbirtingarblaðinu og Lögmannafélagi Íslands tilkynnt um útgáfu þess. Félagið fer með eftirlit með starfsemi lögmanna á grundvelli laganna og ber því meðal annars að fylgjast með því að lögmenn uppfylli skilyrði fyrir starfsréttindum, þ.m.t. að lögmaður hafi jafnan opna starfsstöð, sé með sérstaklega skráðan fjárvörslureikning og hafi í gildi starfsábyrgðartryggingu.  Jafnframt heldur félagið úti vef þar sem þeir sem eru með virk lögmannsréttindi eru skráðir. Félagið getur veitt undanþágu frá skilyrðum um starfsstöð ef lögmaður t.d. starfar innan stofnunar á vegum hins opinbera.

Leyfi til málflutnings fyrir Landsrétti

Sá sem hefur þegar hlotið réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi getur fengið leyfi til málflutnings fyrir Landsrétti að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Þessi skilyrði eru:

 1. Hafa haft réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi í fimm ár. Réttindin þurfa ekki að hafa verið virk allan þann tíma.
 2. Hafa að lágmarki flutt 25 mál munnlega fyrir héraðsdómi eða sérdómstóli, þar af a.m.k. 15 einkamál sem fullnægja skilyrðum um áfrýjun til Landsréttar eða fengið hafa leyfi Landsréttar til áfrýjunar.
 3. Sýnir fram á það með prófraun að hann sé hæfur til að öðlast réttindin, en prófraun felst í munnlegum flutningi fjögurra mála, sem flutt eru í Landsrétti. Þar af a.m.k. tvö einkamál

Sá sem uppfyllir þessi skilyrði getur sótt um leyfi til málflutnings fyrir Landsrétti. Áður en kemur að flutningi prófmála samkvæmt þriðja lið hér að ofan, leggur hann fram beiðni til embættisins í bréfaformi þar sem hann fer þess á leit að fá útgefið vottorð um að hann standist skilyrði þau sem koma fram í liðum eitt og tvö. Með umsókn hans þarf að fylgja yfirlit um þau mál sem hann hefur flutt munnlega, vottað af viðkomandi héraðsdómsstól. Þegar hann hefur fengið vottorð sýslumanns í hendur getur hann leitað eftir því við Landsrétt að fá að flytja prófmál er getur um í þriðja lið og að loknum flutningi þeirra sækir hann um til embættisins að fá útgefið leyfi til málflutnings fyrir Landsrétti. Með beiðni hans skal fylgja vottorð frá réttinum um að hann hafi staðist flutning prófmála. Málflutningsleyfi fyrir Landsrétti kostar kr. 11.000 - og skal greiða gjaldið inn á reikning nr 0348-26-000001, kt. 680814-0820.

Sjá þó:

 • Hafi lögmaður 1. janúar 2018 lokið þremur prófmálum fyrir Hæstarétti má veita honum málflutningsréttindi fyrir Landsrétti.
 • Hafi lögmaður 1. janúar 2018 lokið tveimur prófmálum fyrir Hæstarétti má veita honum málflutningsréttindi fyrir Landsrétti þótt hann flytji þar einungis eitt prófmál, 
 • Hafi lögmaður 1. janúar 2018 lokið einu prófmáli fyrir Hæstarétti má veita honum málflutningsréttindi fyrir Landsrétti þótt hann flytji þar aðeins tvö prófmál.

Leyfi til málflutnings fyrir Hæstarétti

Sá sem hefur þegar hlotið málflutningsréttindi fyrir Landsrétti, getur að uppfylltum tilteknum skilyrðum sótt um að fá leyfi til málflutnings fyrir Hæstarétti.

Þessi skilyrði eru:

 1. Hafa haft réttindi til málflutningsréttindi fyrir Landsrétti í þrjú ár. Réttindin þurfa ekki að hafa verið virk allan þann tíma.
 2. Hafa að lágmarki flutt 15 mál munnlega fyrir Landsrétti, þar af a.m.k. tíu einkamál.

Sá sem uppfyllir þessi skilyrði getur sótt um leyfi til að vera hæstaréttarlögmaður og getur því flutt mál fyrir öllum dómstólum landsins. Sótt er um réttindin til embættisins og skal fylgja með henni staðfesting Landsréttar um málflutning. Málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti kosta kr. 11.000 -  og skal greiða gjaldið á reikning nr. 0348-26-000001, kt. 680814-0820.

Innlögn lögmannsréttinda og afhending þeirra

Hafi lögmaður sem er með virk lögmannsréttindi ekki í hyggju að sinna lögmannsstörfum, getur hann lagt réttindi sín inn til sýslumannsins á Norðurlandi eystra, skrifstofunnar á Siglufirði. Réttindin eru óvirk á meðan þau eru innlögð og á meðan er ekki heimilt að nota starfsheitið lögmaður, flytja mál fyrir dómi og ekki taka að sér umsýslan þá sem lögmönnum er heimil. Hann er á meðan ekki bundinn af þeim skyldum sem lagðar eru á lögmenn um að vera með opna starfsstöð, fjárvörslureikning og starfsábyrgðartryggingu. Sá sem fær útgefið lögmannsleyfi getur lagt það inn jafnhliða umsókn um veitingu leyfisins.

Þegar lögmaður leggur leyfi sitt inn þá:

 • Fyllir hann út tilkynningu sem er að finna á þessum vef þar sem hann leggur leyfi sitt inn og sendir hana til sýslumannsins á Norðurlandi eystra, skrifstofu á Siglufirði í frumriti.
 • Með tilkynningunni sendir hann frumritið af leyfisbréfi sínu.

Innlögn réttinda er jafnan auglýst í Lögbirtingarblaðinu, auk þess sem tilkynning er send Lögmannafélagi Íslands.

Hafi sá sem hefur lagt inn réttindi sín í hyggju að stunda lögmannsstörf, getur hann óskað eftir að fá leyfi sitt afhent aftur án sérstakra takmarkana og án endurgjalds, ef hann uppfyllir önnur skilyrði fyrir því að vera lögmaður.

Þegar óskað er afhendingar á innlögðum réttindum er útfyllt beiðni sem er að finna á þessari síðu og hún send í frumriti til embættisins. Eftir að gengið hefur verið úr skugga um að viðkomandi uppfylli skilyrði laganna til að starfa sem lögmaður fær hann leyfisbréf sitt sent í ábyrgðarpósti. Jafnframt er auglýsing um að réttindi hans séu virk að nýju send til birtingar í Lögbirtingarblaðinu og tilkynning þess efnis til Lögmannafélags Íslands.

Niðurfelling lögmannsréttinda

Ef sá sem starfar sem lögmaður uppfyllir ekki skilyrði laganna af því bú hans hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta eða hann hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað, eða að  hann getur ekki lengur sinnt skyldum sínum vegna veikinda eða andlegra annmarka, ber að fella réttindi hans niður. Viðkomandi getur fengið réttindin veitt aftur að tilteknum skilyrðum uppfylltum, en aðeins að tillögu Lögmannafélagsins. Ef lögmaður uppfyllir ekki skilyrði fyrir starfsemi lögmanna um að hafa opna starfsstöð, gilda starfsábyrgðartryggingu og skráðan vörslureikning, ber Lögmannafélaginu að leggja til við sýslumann að réttindin verði felld niður. Verði það gert getur viðkomandi fengið þau aftur, þegar hann sýnir fram á að hann hafi bætt úr.