Skotvopnaleyfi

Fjallað er um leyfi vegna skotvopna samkvæmt vopnalögum nr. 16/1998 og reglugerð um skotvopn skotfæri o.fl. nr. 787/1998. Sum þessara leyfa gefa lögreglustjórar út en í öðrum tilfellum gefur ríkislögreglustjóri út leyfi.

Almennt um meðferð skotvopna

Enginn má fara með eða nota skotvopn nema hafa til þess fullnægjandi leyfi.

Sá sem fer með eða notar skotvopn skal ætíð gæta fyllstu varúðar. Óheimilt er að bera skotvopn á almannafæri. Við burð og flutning á skotvopnum milli staða skulu þau vera óhlaðin og í umbúðum. Óheimilt er að bera þau á sér innan klæða.

Þeim sem er undir áhrifum áfengis eða annarra vímugjafa er óheimil meðferð skotvopns.

Ekki má hleypa af skoti á vegi, yfir veg, úr ökutæki, á almannafæri eða annars staðar þar sem hætta getur stafað af, nema nauðsyn krefji.

Ekki má hleypa af skoti á annars manns landi eða skjóta yfir annars manns land án leyfis landeiganda eða ábúanda nema lög mæli öðruvísi fyrir um.

Verslun með skotvopn

Enginn má versla með skotvopn eða skotfæri nema að fengnu leyfi ríkislögreglustjóra. Slík leyfi eru aðeins veitt einstaklingum með verslunar- og skotvopnaleyfi, sem hafa sérþekkingu á viðkomandi vörum og skráðum fyrirtækjum eða félögum sem tilnefna ábyrgðarmann sem fullnægir sömu skilyrðum og hefur umsjón með daglegri verslun og ábyrgist vörslur varanna ásamt forsvarsmönnum félagsins.

Framleiðsla og innflutningur skotvopna

Enginn má flytja til landsins skotvopn eða skotfæri nema að fengnu leyfi ríkislögreglustjóra. Leyfi til verslunar með skotvopn felur jafnframt í sér leyfi til innflutnings á sömu vörum.

Ríkislögreglustjóri getur veitt handhöfum skotvopnaleyfa leyfi til innflutnings á vopnum til eigin nota.

Óheimilt er að flytja til landsins:

 • Sjálfvirka eða hálfsjálfvirka skammbyssu.
 • Sjálfvirkan eða hálfsjálfvirkan riffil.
 • Sjálfvirka haglabyssu.
 • Hálfsjálfvirka eða handhlaðna fjölskota haglabyssu með skothylkjahólfum sem tekur fleiri en tvö skothylki nema henni hafi verið breytt til samræmis við þennan áskilnað.
 • Eftirlíkingar vopna, enda sé ástæða til að ætla að erfitt sé að greina þær frá fyrirmyndinni.

Skotvopnaleyfi

Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. vopnalaga nr. 16/1998 má enginn eignast eða nota skotvopn nema að fengnu skotvopnaleyfi. Hver sá sem fer með eða notar skotvopn skal hafa skotvopnaleyfi meðferðis og sýna það þegar lögregla krefst þess. Lögreglustjóri í því umdæmi sem umsækjandi á lögheimili gefur út skotvopnaleyfi.

Uppfylli umsækjandi skilyrði fyrir útgáfu skotvopnaleyfis gefur lögreglustjóri út skotvopnaleyfi. Skotvopnaleyfi eru skrifleg og eru gefin út til 10 ára. Í skotvopnaleyfi er tilgreint nákvæmlega hvaða skotvopn leyfishafa er heimilt að nota (flokkar skotvopna) og upplýsingar um öll skotvopn í eigu leyfishafa.

Skilyrði fyrir útgáfu skotvopnaleyfis eru:

 • Umsækjandi hafi náð 20 ára aldri.
 • Umsækjandi hafi ekki verið sviptur sjálfræði.
 • Umsækjandi hafi ekki gerst brotlegur við ákvæði almennra hegningarlaga, áfengislaga, laga um ávana- og fíkniefni, laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og vopnalaga.
 • Umsækjandi hafi nægilega kunnáttu til að fara með skotvopn, sé andlega heilbrigður og að öðru leyti hæfur til þess að fara með skotvopn.

Þeir sem sækja um skotvopnaleyfi skulu sækja námskeið og standast próf í meðferð og notkun skotvopna. Veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar hefur umsjón með námskeiðum fyrir þá sem sækja um skotvopnaleyfi og veiðikort. Upplýsingar um skráningu, framkvæmd og skipulag námskeiðanna er að finna á vef Umhverfisstofnunar.

Flokkar leyfðra skotvopna

Fullnægi umsækjandi um skotvopnaleyfi skilyrðum fyrir útgáfu skotvopnaleyfis getur lögreglustjóri gefið út leyfi fyrir vopnum í eftirtöldum flokkum:

Flokkur A

 • Haglabyssur nr. 12 og minni, þó eigi sjálfvirkum eða hálfsjálfvirkum.
 • Rifflum cal. 22 og minni (long rifle og minni), þ.m.t. loftrifflum, þó eigi sjálfvirkjum eða hálfsjálfvirkum.

Flokkur B – aukin skotvopnaréttindi

 • Leyfi fyrir rifflum með hlaupvídd allt að cal. 30 og hálfsjálfvirkum haglabyssum skal ekki veitt nema sérstakar ástæður mæli með því, enda hafi umsækjandi haft skotvopnaleyfi í a.m.k. eitt ár.

Flokkur C - meindýraeyðar

 • Leyfi fyrir skotvopnum sem sérstaklega eru ætluð til minkaveiða eða meindýraeyðingar (t.d. skammbyssur fyrir haglaskot) má aðeins veita að fenginni umsögn veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar. Umsækjandi skal hafa haft aukin skotvopnaréttindi (B réttindi) í eitt ár. Slík leyfi vegna þeirra sem stunda minkaveiðar eru að jafnaði ekki veitt til að eignast skotvopn heldur einungis til láns eða leigu.

Flokkur D - skammbyssuskotfimi

 • Leyfi veitt einstaklingum eða skotfélögum fyrir skammbyssum vegna íþróttaskotfimi.

Söfnunarleyfi

Ríkislögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi, samtökum og opinberum söfnum leyfi til að eiga og varðveita skotvopn er hafa ótvírætt söfnunargildi vegna aldurs þeirra, tengsla þeirra við sögu landsins eða af öðrum sérstökum ástæðum. Sækja skal um slíkt leyfi til lögreglustjóra sem sendir umsóknina ásamt umsögn sinni til ríkislögreglustjóra.

Leyfi til hleðslu skothylkja

Lögreglustjóri getur veitt handhafa skotvopnaleyfis leyfi til að hlaða skothylki til nota í eigin þágu, enda sé að öðru leyti heimilt að nota slík skotfæri hér á landi. Leyfi til hleðslu skothylkja eru aðeins veitt þeim sem hafa nægilega þekkingu til þess að hlaða skothylki og fara með hleðslubúnað að mati lögreglustjóra, enda hafi viðkomandi aukin skotvopnaréttindi (flokkur B) og hafi gengist undir sérstakt námskeið í hleðslu skotfæra.

Heimild til að kaupa/eignast skotvopn - lánsheimild

Samkvæmt 19. gr. vopnalag nr. 16/1998 er eiganda skotvopns óheimilt að selja, gefa eða afhenda á annan hátt skotvopn til eignar, nema viðtakandi sýni fram á að hann hafi leyfi lögreglustjóra til að eiga það eða nota (kaupheimild). Sækja verður um heimild til að eignast skotvopn hjá lögreglustjóra í því umdæmi sem umsækjandi á lögheimili. Umsóknareyðublað má finna á vef Ríkislögreglustjóra.

Eiganda skotvopns er heimilt að lána það manni til tímabundinna afnota sem leyfi hefur til að nota sams konar skotvopn. Sá sem fer með eða notar skotvopn sem hann hefur að láni eða leigu skal hafa meðferðis skriflega lánsheimild og sýna hana þegar lögregla krefst þess. Lánsheimild skal undirrituð af eiganda og lántaka skotvopnsins og í henni skal greina upplýsingar um eiganda vopnsins, númer skotvopnaleyfis eiganda, upplýsingar um vopnið sem skráðar eru á skotvopnaleyfi, fyrirhugaða notkun og gildistíma heimildarinnar. Ef skotvopn er lánað um lengri tíma en 4 vikur skal það tilkynnt lögreglustjóra og skráð í skotvopnaskrá. Eyðublöð er varða tilkynningar um lán á skotvopni og niðurfellingu lánsheimildar má finna á vef Ríkislögreglustjóra.

Vörslur skotvopna

Mikilvægt er að meðferð og vörslur skotvopna og skotfæra séu með fullnægjandi hætti. Eigendur eða umráðamenn skotvopna skulu ábyrgjast vörslur þeirra og sjá til þess að óviðkomandi nái ekki til þeirra. Húsnæði er geymir skotvopn skal því ávallt læst ef íbúar eru fjarverandi. Við lengri fjarveru ber að gera skotvopn óvirkt.

 • Skotvopn skulu ávallt geymd óhlaðin.
 • Skotvopn og skotfæri skulu ávallt geymd í aðskildum læstum hirslum.
 • Ef einstaklingur á fleiri en þrjú skotvopn skal hann geyma þau í sérútbúnum vopnaskáp sem samþykktur er af lögreglustjóra.