Meistarabréf

Rétt til að kenna sig í starfsheiti sínu við iðngrein sem löggilt hefur verið í reglugerð nr. 940/1999 um löggiltar iðngreinar, hafa þeir einir, er hafa sveinsbréf eða meistarabréf í iðngreininni.

Útgáfa meistarabréfa

Sýslumaður lætur af hendi meistarabréf samkvæmt ákvæðum iðnaðarlaga nr. 42/1978. Sá sem fengið hefur útgefið meistarabréf hefur leyfi til að reka þá iðngrein, sem meistarabréf hans tekur til.

Iðngreinar sem reknar skulu undir forstöðu meistara

Iðngreinar, sem reknar eru sem handiðnaður og löggiltar hafa verið í reglugerð nr. 940/1999 um löggiltar iðngreinar, skulu ávallt reknar undir forstöðu meistara. Meistari ber ábyrgð á því að öll vinna sé rétt og vel af hendi leyst.

Rétt til starfa í slíkum iðngreinum hafa meistarar, sveinar og nemendur í iðngreininni. Sérfélögum, sveina- og meistarafélagi í sömu iðn er heimilt að gera sín á milli samning um það, að ráða megi ólært verkafólk til iðnaðarstarfa undir stjórn lærðs iðnaðarmanns um ákveðinn stuttan tíma í senn, þegar sérstaklega stendur á og brýn þörf er á auknum vinnukrafti í iðninni.

Skilyrði útgáfu meistarabréfs

Hver sem uppfyllir eftirfarandi skilyrði getur leyst til sín meistarabréf í viðkomandi iðngrein:

 • Er íslenskur ríkisborgari. Erlendur ríkisborgari, sem á lögheimili hér á landi og hefur átt það samfellt í a.m.k. eitt ár, skal þó vera undanþeginn skilyrði um íslenskt ríkisfang. Ríkisborgarar annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eru undanþegnir skilyrðum um íslenskt ríkisfang og búsetu hér á landi samkvæmt nánari ákvæðum reglugerðar nr. 495/2001 um viðurkenningu á starfi og starfsþjálfun í iðnaði í öðru EES-ríki.
 • Hefur lokið sveinsprófi í iðngreininni.
 • Hefur unnið undir stjórn meistara í eitt ár minnst frá því að sveinsprófi var lokið.
 • Hefur lokið meistaraprófi í iðninni frá meistaraskóla.
 • Er lögráða.
 • Hefur forræði á búi sínu.
 • Hefur ekki hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað, slíkan sem um ræðir í 68. gr. hegningarlaga nr. 19/1940.
 • Hefur viðskiptaþekkingu, svo sem bókhaldskunnáttu, sem krafist er við burtfararpróf úr iðnskóla.
 • Fullnægir að öðru leyti skilyrðum þeim, sem sett eru í iðnaðarlögunum.

Missi handhafi meistarabréfs einhverra þeirra skilyrða sem getið er hér að ofan, hefur viðkomandi fyrirgert meistarabréfi sínu.

Synji sýslumaður um útgáfu meistarabréfs eða ágreiningur er um hvort handhafi meistarabréfs hafi fyrirgert rétti sínum til þess, er viðkomandi heimilt að bera ákvörðunina undir ráðherra eða dómstóla.

Umsókn um meistarabréf

Umsókn um útgáfu meistarabréfs skal beina til sýslumanns í því umdæmi sem viðkomandi á lögheimili.

Með umsókn skulu lögð fram eftirfarandi gögn:

 • Sveinsbréf.
 • Vottorð um vinnutíma frá meistara.
 • Prófskírteini meistaraskóla eða Tækniháskóla Íslands, hafi umsækjandi lokið námi í byggingaiðn, rafiðn eða véliðnfræði frá Tækniháskóla Íslands eftir 1. janúar 1994. Á aðeins við ef sveinsprófi er lokið eftir 1. janúar 1989.
 • Vottorð héraðsdóms þar sem viðkomandi býr um búsforræði.
 • Sakavottorð.

Nánar um gjald fyrir útgáfu meistarabréfa.


Uppf. 01.03.2019.