Litmerkjabyssur - PaintBall

Litmerkibyssur skulu vera í eigu fyrirtækis eða félagasamtaka sem hafa litboltaleik að markmiði og hafa fengið viðurkenningu Ríkislögreglustjóra.

Dómsmálaráðherra hefur sett reglur um litmerkibyssur (e. paintball) nr. 464/2000, sem aðgengilegar eru á síðu dómsmálaráðuneytisins.

Með reglunum eru merkibyssur sem eingöngu eru hannaðar til að skjóta litboltum sem eru að minnsta kosti 16 mm í þvermál, auk hleðslukúta og -hylkja, sem framleidd eru sérstaklega fyrir slíkar merkibyssur, undanskilin ákvæðum vopnalaga nr. 16/1998.

Litmerkibyssur skulu vera í eigu fyrirtækis eða félagasamtaka sem hafa litboltaleik að markmiði og hafa fengið viðurkenningu Ríkislögreglustjóra. Ríkislögreglustjóri getur veitt slíkum viðurkenndum aðilum leyfi til innflutnings á litmerkibyssum, auk þeirra sem hafa leyfi til að versla með skotvopn og skotfæri.  Innflutningur einstaklinga á litmerkibyssum er óheimill.

Varsla litmerkibyssa og litbolta

Litmerkibyssur og litboltar í þær skulu geymd í aðskildum læstum hirslum, í húsnæði búnu þjófavörn sem viðurkennt hefur verið af lögreglustjóra.

Notkun litmerkibyssa

Notkun litmerkibyssa er óheimil nema á afmörkuðum viðurkenndum svæðum.  Lögreglustjóri getur veitt fyrirtækjum og félagasamtökum, sem hlotið hafa viðurkenningu ríkislögreglustjóra, leyfi fyrir leiksvæðum, að fenginni umsögn sveitarstjórnar. Ytri mörk svæðis skulu vera í að minnsta kosti 150 metra fjarlægð frá næstu umferðargötu og ekki á opnum útivistarsvæðum. Fjarlægðarmörk má stytta, sé völlur girtur öryggisneti.