Tækifærisleyfi til skemmtanahalds, tímabundið áfengisveitingaleyfi

Um tækifærisleyfi til skemmtanahalds og tímabundin áfengisveitingaleyfi er fjallað í 17. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og 30. til 37. gr. reglugerðar nr. 1277/2016  um sama efni.

Með tækifærisleyfi fyrir einstakar skemmtanir eða viðburði er átt við:

  • Leyfi til að standa fyrir einstökum samkomum, skemmtunum eða viðburðum svo sem skóladansleikjum, tónleikahaldi, almennum dansleikjum, útihátíðum og öðrum svipuðum samkomum sem eru til þess fallnir að valda ónæði, svo sem vegna hávaða, og kalla á eftirlit og/eða löggæslu og fara fram á stöðum sem ekki hafa rekstrarleyfi samkvæmt lögum um veitinga- og gististaði. Að jafnaði er miðað við að ekki þurfi að sækja um tækifærisleyfi nema seldur sé aðgangur að þeirri skemmtun eða samkomu sem um ræðir.    

Með tækifærisleyfi til tímabundinna áfengisveitinga er átt við: 

  • a) Leyfi sem afla þarf til sölu og/eða afhendingar áfengis við einstök tækifæri í atvinnuskyni hvort sem um beina sölu eða hvers kyns afhendingu áfengisins er að ræða, svo sem í kynningarskyni, á sýningum eða sem lið í  samkomu- og/eða ráðstefnuhaldi, hvort sem er innan dyra, úti undir berum himni eða í tjaldi. Tækifærisleyfi til tímabundinna áfengisveitinga verða eingöngu gefin út þegar atburður fer fram á stað sem ekki hefur rekstrarleyfi en þó almennt ekki oftar en tólf sinnum ár hvert vegna sama staðar. 
  • b) Leyfi sem er viðbót við gildandi rekstrarleyfi vegna lengri afgreiðslutíma áfengis á stað sem hefur leyfi til áfengisveitinga.

Ekki þarf að sækja um tækifærisleyfi né leyfi til áfengisveitinga í einkasamkvæmum , en með einkasamkvæmum er í þessu sambandi átt við lokaðar samkomur fyrir afmarkaðan hóp manna þar sem eftir atvikum er veitt áfengi án endurgjalds og án þess að það sé í kynningar- eða söluskyni.    

Umsókn um tækifærisleyfi eða tímabundið 
áfengisveitingaleyfi  

Í umsókn um tækifærisleyfi eða tímabundið áfengsveitingaleyfi skal gerð grein fyrir hvers konar samkomu eða viðburð sótt er um samkvæmt ofanrituðu. Þá skal jafnframt gera grein fyrir eftirfarandi:

  • Staðsetningu skemmtunar eða viðburðar.
  • Áætluðum fjölda gesta.
  • Lengd skemmtunar eða viðburðar.
  • Aldursdreifingu gesta sem líklegt er að sæki skemmtunina eða viðburðinn.
  • Dagskrá skemmtunar eða viðburðar ef hún liggur fyrir.

Skilyrði sem umsækjandi um tækifærisleyfi / tímabundið áfengisveitingaleyfi þarf að uppfylla 

Umsækjandi og/eða forsvarsmaður umsækjanda ef umsækjandi er lögaðili skal uppfylla sömu skilyrði og umsækjandi um rekstrarleyfi eftir því sem við á. Leyfisveitanda er þó heimilt að víkja frá fjárræðisskilyrði þegar sótt er um tækifærisleyfi í því tilviki að umsækjandi hafi ekki náð tilskildum aldri enda verði tilnefndur ábyrgðarmaður að skemmtun eða viðburði sem uppfyllir skilyrðið.

Umsóknarfrestur

Leyfi til skemmtunar eða viðburða sem ekki er ætlað að standa lengur en í sólarhring skal sækja um með þriggja vikna fyrirvara.

Leyfi til skemmtunar eða viðburðar sem ætlað er að standa lengur en sólarhring skal sækja um með minnst 30 daga fyrirvara.

Sé skemmtun eða viðburður sérstaklega umfangsmikil, sem sagt gert ráð fyrir u.þ.b. 3.000 manns og kalli á mikinn undirbúning skal sækja um leyfi með minnst þriggja mánaða fyrirvara.   

Gjald

Nálgast má upplýsingar um gjald sem ber að greiða fyrir útgáfu leyfa samkvæmt þessari umfjöllun hér að neðan:   

Ef sótt er um tækifærisleyfi fyrir skemmtun þar sem jafnframt eru áfengisveitingar er miðað við að aðeins þurfi að sækja um og greiða fyrir tækifærisleyfi fyrir áfengisveitingar. 

Sérstök ákvæði:

Vakin skal athygli á því að umsækjendur um tækifærisleyfi skulu sækja um leyfi til flutnings tónlistar áður en hún er flutt á skemmtunum. Slíkt leyfi veitir Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF).

 

Uppfært 23.03. 2018.