Sinubrenna

Sýslumenn veita leyfi til sinubrennu samkvæmt lögum nr. 40/2015 um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum og reglugerð nr.  325/2016. 

Almennt eru sinubrennur óheimilar.  Þó er ábúendum eða eigendum jarða á lögbýlum þar sem stundaður er landbúnaður heimilt að brenna sinu á tímabilinu 1. apríl til 1. maí ár hvert samkvæmt skriflegu leyfi sýslumanns enda sé tilgangurinn rökstuddur og augljósir hagsmunir vegna jarðræktar eða búfjárræktar. Þó getur sýslumaður, að höfðu samráði við umhverfis- og auðlindaráðuneytið, ákveðið aðra dagsetningu ef sérstakar veðurfarslegar ástæður gefa tilefni til en þó eigi fyrr en 15. mars og eigi lengur en til 15. maí ár hvert.  Aldrei má þó brenna sinu þar sem almannahætta stafar af eða tjón getur hlotist af á náttúruminjum, fuglalífi, mosa, lyng- eða trjágróðri, skógi eða mannvirkjum.

Sýslumaður veitir skriflegt leyfi fyrir sinubrennu, að höfðu samráði við lögreglustjóra og fengnu samþykki frá hlutaðeigandi búnaðarsambandi, heilbrigðisnefnd og slökkviliði. Leyfi skal einungis veitt fyrir yfirstandandi ár og skal það ná yfir það svæði sem afmarkað er í umsókn til sýslumanns. Sækja má um leyfi eftir 1. mars ár hvert og umsókn skal afgreiða eins fljótt og verða má og eigi síðar en tíu virkum dögum eftir að umsókn berst.

Heimilt er að binda leyfi sýslumanns skilyrðum samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Sýslumanni er og heimilt að afturkalla veitt leyfi samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.  Tilgreina skal í leyfi ábyrgðarmann sinubrennu og skal hann vera á vettvangi á meðan brenna fer fram. Við sinubrennu skal gæta ýtrustu varkárni og gæta þess að valda ekki óþarfa ónæði eða óþægindum.

Sýslumaður skal halda skrá um útgefin leyfi og tilkynna hlutaðeigandi slökkviliði og heilbrigðisnefnd um leyfin um leið og þau hafa verið gefin út.

Um gjald fyrir útgáfu leyfis, sjá hér.    


Uppfært 20.04.2016.

Lög og reglugerðir

Lög nr. 40/2015 um um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum
Reglugerð nr. 325/2016 um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum

Eyðublöð

Leyfi til að brenna sinu  / Stafrænt form