Leyfi til opinberra fjársafnana

Opinber fjársöfnun

Almennt 

Heimilt er stofnunum, félögum eða samtökum manna að gangast fyrir opinberum fjársöfnunum í sérhverjum löglegum tilgangi. Nú gangast samtök fyrir fjársöfnun, og skulu þá minnst þrír menn bera ábyrgð á söfnuninni hverju sinni, og skulu a.m.k. tveir þeirra vera fjárráða íslenskir ríkisborgarar, sem lögheimili eiga hér á landi.

Fjársöfnun er opinber, ef henni er beint til annarra en þeirra, sem eru í persónulegum eða félagslegum tengslum við þá, sem fyrir slíkum fjársöfnunum standa, eða standa í sérstöku sambandi við þá.

Með opinberri fjársöfnun er átt við starfsemi þar sem almenningur er hvattur til að láta fé af hendi í þágu ákveðins málefnis án þess að endurgjald komi í staðinn. Þó svo að sá sem lætur fé af hendi til fjársöfnunar fái endurgjald í formi táknræns hlutar, telst hann ekki hafa fengið endurgjald, hafi hluturinn ekki sjálfstætt verðgildi.


Umsókn um leyfi

Opinber fjársöfnun á götum eða í húsum er háð leyfi sýslumanns. Sækja skal um leyfi til sýslumannsins á Suðurlandi fyrir opinberri fjársöfnun á sérstöku eyðublaði, Umsókn um leyfi fyrir opinbera fjársöfnun.

anns.Opinber fjársöfnun skal vera til tiltekins tíma, þó ekki lengri tíma en tveggja ára.

Fjársöfnun með keðjubréfum er óheimil.

Ekki er þörf á að sækja um leyfi né tilkynna sýslumanninum á Suðurlandi um:

a)    uppboð til góðgerðarmála, stuðningstónleika eða stuðningssamkomur,

b)    safnanir á notuðum verðlitlum hlutum,

c)    fjársafnanir á samkomum,

d)    fjársafnanir á vegum fjölmiðla í opinberu góðgerðarskyni, ef viðkomandi fjölmiðill birtir skrá yfir framlag allra gefenda. Ennfremur skal fjölmiðillinn birta viðurkenningu þeirra, er veita fénu viðtöku að söfnun lokinni.

Fé því sem safnast kann skal komið fyrir á banka eða gíróreikningi, sem stofnaður er í þessu sérstaka tilefni. Óheimilt er að nota féð í öðrum tilgangi en upphaflega var ætlað, nema með leyfi sýslumanns.

Tilkynning

Aðrar opinberar fjársafnanir ber að tilkynna til Sýslumannsins á Suðurlandi á sérstöku eyðublaði, Umsókn um leyfi fyrir opinbera fjársöfnun .

Reikningsyfirlit og birting

Halda skal nákvæmt reikningshald yfir söfnunarfé og öll útgjöld við hverja fjársöfnun. Reikningshaldið skal endurskoðað af löggiltum endurskoðanda. Innan 6 mánaða frá lokum fjársöfnunar skal sá sem fyrir henni stendur afhenda sýslumanninum á Suðurlandi:

a)    Endurskoðaðan reikning söfnunarinnar.

b)    Staðfestingu þess er móttekið hefur söfnunarfé.

c)    Upplýsingar um hvar og hvenær birting á reikningi söfnunarinnar fari fram. Sé söfnunarféð undir 500.000 kr. nægir þó að tilkynna opinberlega, að reikningsyfirlit fjársöfnunarinnar sé til sýnis í a.m.k. 14 daga á nánar tilteknum stað.