Leyfi til dreifingar á ösku látins manns

Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra sér um að veita leyfi til dreifingar á ösku látins manns utan kirkjugarðs, samanber reglugerð nr. 104/2014 um breytingu á reglugerð nr. 203/2003

Leyfi til dreifingar á ösku utan kirkjugarðs

Frá og með 1. janúar 2015 fer sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra með útgáfu leyfa til dreifingar á ösku utan kirkjugarða á grundvelli laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993, reglugerðar nr. 203/2003 og reglugerðar 104/2014 um breytingu á henni. Það er skrifstofa embættisins á Siglufirði sem fer með málaflokkinn.

Samkvæmt 4. mgr.  7. gr. laganna getur innanríkisráðherra veitt heimild til þess að ösku sé dreift utan kirkjugarðs og sett nánari reglur þar um.  Þær reglur gilda að:

  • Aðeins er heimilt að dreifa ösku yfir örævi eða sjó.
  • Ekki er heimilt að dreifa ösku nærri byggð, eða þar sem mögulegt er að byggð rísi í fyrirsjáanlegri framtíð.
  • Ekki má dreifa ösku yfir ár eða vötn.
  • Ekki má dreifa öskunni á fleiri en einn stað.
  • Ekki má merkja eða auðkenna þann stað sem ösku er dreift á nokkurn hátt, til dæmis með því að setja upp minningarskjöld eða aðra merkingu, eða hlaða vörðu.

Fyrir dreifingu ösku þarf að liggja ótvíræð ósk hins látna um að það sé gert, eða staðfesting nánustu aðstandenda um að það hafi verið ósk hins látna að svo yrði gert.

Þegar dreifingu er lokið skal duftker afhent bálstofu þegar í stað til eyðingar og embættinu send undirrituð yfirlýsing þess efnis að dreifingin hafi farið fram eftir reglum. 

Umsókn um leyfi

Þegar sótt er um leyfi til dreifingar á ösku, skal það gert á því eyðublaði sem er að finna á þessari síðu og senda það í frumriti til sýslumannsins á Norðurlandi eystra, Gránugötu 4-6, 580 Siglufirði.

Fyrirspurnum ber að beina til Halldórs Þormars Halldórssonar á sama stað, í síma 458 2600, eða á netfangið truoglif@syslumenn.is

Ásamt umsókn skal senda

  • Undirritaða staðfestingu hins látna að það hafi verið hans vilji að ösku hans yrði dreift utan kirkjugarðs
  • Ef slík undirrituð ósk er ekki til, er nægilegt að senda staðfestingu undirritaða af nánustu aðstandendum þess efnis að þeir votti að það hafi verið einlæg ósk hins látna að ösku hans yrði dreift með þessum hætti. Ef maki er á lífi er nægilegt að maki undirriti yfirlýsinguna. Ef börn þess látna óska eftir leyfinu, ber meirihluti þeirra að undirrita hana. 
  • Lýsingu á þeim stað og staðháttum þar sem fyrirhugað er að dreifa öskunni. Ef það er á landi þarf að koma fram nokkuð nákvæm staðsetning og uppdráttur af svæðinu ef hann er til staðar

Ef sýslumaður telur að skilyrði laganna séu uppfyllt, gefur hann út leyfi til þess að ösku sé dreift á þeim stað sem sótt hefur verið um. Duftker er varðveitt í líkhúsi þar til að dreifingu öskunnar kemur. Að lokinni dreifingu skal duftkeri skilað til bálstofunnar í Fossvogi svo fljótt sem auðið verður.  Að lokinni dreifingu skal sá aðili sem sækir um hana skila til embættisins undirritaðri yfirlýsingu þess efnis að dreifing öskunnar hafi farið fram með þeim hætti  sem tilgreindur var í umsókn og í samræmi við lög og reglur. Skal yfirlýsingu skilað innan árs frá því dreifing fór fram.

Afgreiðsla umsóknar getur tekið nokkurn tíma þar sem  leita getur þurft upplýsinga um staðhætti á þeim stað sem til stendur að dreifa öskunni. Bent er á að góð aðferð við að leita að hentugum stað er að nota til þess Google Earth.