Iðnaðarleyfi

Heiti iðnaðarlaga nr. 42/1978 var með lögum nr. 19/2020 breytt í lög um handiðnað. Sú breyting fól m.a. í sér að iðnaðarleyfi voru felld brott úr lögunum. Unnið er að uppfærslu þessarar síðu með tilliti til þess.

Samkvæmt 12 gr. laga nr. 42/1978 iðnaðarlögum má enginn reka iðnað á Íslandi nema hann hafi til þess leyfi sýslumanns. 

Það er sýslumaður í umdæmi þar sem aðili á lögheimil sem gefur leyfið út. Til iðnaðar telst bæði hand- og verksmiðjuiðnaður, hvaða efni eða orka, vélar eða önnur tæki sem notuð eru og hvaða vörur eða efni sem framleidd eru. Heimilisiðnaður er undanskilinn ákvæðum iðnaðarlaganna.

Athuga ber að meistarabréf veitir handhafa þess leyfi til að reka þá iðngrein, er meistarabréf hans tekur til.

Leyfi er bundið við nafn og skal í því greint hvers konar verksmiðjuiðnað heimilt er að reka samkvæmt leyfinu og hvar hann megi reka.

Gjald fyrir útgáfu iðnaðarleyfis er ákveðið í lögum nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs.

Iðngreinar sem reknar skulu undir forstöðu meistara

Iðngreinar, sem reknar eru sem handiðnaður og löggiltar hafa verið í reglugerð nr. 940/1999 um löggiltar iðngreinar, skulu ávallt reknar undir forstöðu meistara. Meistari ber ábyrgð á því að öll vinna sé rétt og vel af hendi leyst. Sjá umfjöllum um meistarabréf.

Rétt til starfa í slíkum iðngreinum hafa meistarar, sveinar og nemendur í iðngreininni. Sérfélögum, sveina- og meistarafélagi í sömu iðn er heimilt að gera sín á milli samning um það, að ráða megi ólært verkafólk til iðnaðarstarfa undir stjórn lærðs iðnaðarmanns um ákveðinn stuttan tíma í senn, þegar sérstaklega stendur á og brýn þörf er á auknum vinnukrafti í iðninni.

Skilyrði fyrir útgáfu iðnaðarleyfa

Hver sem fullnægir eftirfarandi skilyrðum getur fengið leyfi til að reka iðnað, handiðnað eða verksmiðjuiðnað:

 • Er íslenskur ríkisborgari. Erlendur ríkisborgari, sem á lögheimili hér á landi og hefur átt það samfellt í að minnsta kosti eitt ár, skal þó vera undanþeginn skilyrði um íslenskt ríkisfang. Ríkisborgarar annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eru undanþegnir skilyrðum um íslenskt ríkisfang og búsetu hér á landi samkvæmt nánari ákvæðum reglugerðar nr. 495/2001.
 • Er lögráða.
 • Hefur forræði á búi sínu.
 • Hefur ekki hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað, slíkan sem um ræðir í 68. gr. hegningarlaga nr. 19/1940.
 • Hefur viðskiptaþekkingu, svo sem bókhaldskunnáttu, sem krafist er við burtfararpróf úr iðnskóla.
 • Fullnægir að öðru leyti skilyrðum þeim, sem sett eru í iðnaðarlögunum.
   

Vilji félag eða annar lögaðili reka iðnað, getur slíkur aðili fengið til þess leyfi, enda uppfylli framkvæmdastjórar og stjórnarmenn lögaðila og, sé um að ræða félag þar sem allir eða sumir félagsmanna bera fulla ábyrgð á skuldbindingum félagsins, þeir félagsmanna, sem fulla ábyrgð bera á skuldbindingum félagsins, þau skilyrði sem að ofan eru rakin að frátöldu skilyrði um íslenskan ríkisborgararétt.  Sé um að ræða erlendan aðila eða íslenskan aðila, sem erlendur aðili á hlut í, skal enn fremur fullnægt skilyrðum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.

Leyfi glatast ef leyfishafi missir einhverra þeirra skilyrða sem getið er hér að ofan.

Synji sýslmaður um útgáfu iðnaðarleyfis eða ágreiningur er um hvort leyfishafi hafi misst rétt sinn til leyfis, er viðkomandi heimilt að bera ákvörðunina undir iðnaðarráðherra eða dómstóla.

Umsókn um iðnaðarleyfi

Sækja skal um iðnaðarleyfi hjá sýslumanni í því umdæmi sem umsækjandi á lögheimili. Í umsókn skal tilgreina hvaða iðnað fyrirhugað er að reka samkvæmt leyfinu.

Með umsókn skulu lögð fram eftirfarandi gögn:

 • Vottorð úr fyrirtækjaskrá.
 • Vottorð frá héraðsdómi þar sem viðkomandi býr um að umsækjandi hafi ekki orðið gjaldþrota eða að bú hans sé ekki undir gjaldþrotaskiptum.
 • Sakavottorð umsækjanda.
 • Staðfest virðisaukanúmer.
 • Afrit af prófskírteini meistara ef við á.
 • Vottorð um viðskiptaþekkingu, svo sem bókhaldskunnáttu.


Sé umsækjandi lögaðili skal leggja fram vottorð frá héraðsdómi og sakavottorð fyrir framkvæmdastjóra, stjórnarmenn og þá félagsmenn sem bera fulla ábyrgð á skuldbindingum félags.

 Uppfært: 27.04.2020