Sektir og sakarkostnaður

Á haustmánuðum 2005 ákvað Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, að innheimta sekta og sakarkostnaðar á landsvísu yrði flutt til sýslumannsembættisins á Blönduósi, en þessi verkefni voru áður hjá 26 sýslumanna- og lögreglustjóraembættum. Um er að ræða mál sem hlotið hafa endanleg málalok fyrir dómstólum eða stjórnvöldum landsins og öðrum Norðurlöndum.

Með þessari breytingu var stefnt að því að samræma, einfalda og efla innheimtuna svo og að ná fram auknu hagræði og samlegð með annarri starfsemi sýslumannsembættisins.

Í apríl mánuði 2006 hófst starfsemin og í dag starfa við innheimtumiðstöðina alls 13 manns.

Þann 4. janúar 2008 skipaði forsætisráðherra nefnd sem var ætlað að fjalla um leiðir til að styrkja atvinnulíf og samfélag á Norðurlandi vestra eða norðvesturnefndin. Norðvesturnefndin lagði til að fleiri innheimtuverkefni opinberra aðila yrði flutt til innheimtumiðstöðvarinnar með áherslu á að einfalda innheimtu og gera hana skilvikari og samræma vinnubrögð á landsvísu.

Á grundvelli tillagna nefndarinnar hefur sýslumaðurinn á Blönduósi tekið við innheimtu á kröfum fyrir hönd Fjármálaeftirlitsins, Tryggingarstofnunar ríkisins, Vinnumálastofnunar, bótanefndar fyrir þolendur afbrota og vegna gjafsóknarmála.

Endurkröfur bóta sem ríkissjóður hefur greitt þolendum afbrota

Vorið 2008 var innheimtumiðstöðinni falið af dómsmálaráðuneytinu að innheimta bætur sem ríkissjóður greiðir til þolenda tiltekinna afbrota og tekur bótanefnd sem starfar skv. l. nr. 69/1995, ákvörðun um bætur.  Þegar ríkissjóður greiðir bætur til þolenda afbrota getur myndast endurkröfurréttur ríkisins á hendur brotavalds.

Endurkröfur vegna gjafsóknarmála

Vorið 2008 fól dómsmálaráðuneytið innheimtumiðstöðinni að innheimta endurkröfur vegna gjafsóknarmála.
Gjafsókn er veitt vegna mála sem rekin eru fyrir íslenskum dómstólum. Gjafsókn skuldbindur ríkið til að greiða þann málskostnað sem gjafsóknarhafi hefur sjálfur af máli, þ.e. þóknun lögmanns o.fl.

Stjórnvaldssektir, févíti, dagsektir, sáttir og eftirlitsgjald Fjármálaeftirlitsins

Þann 8. desember 2009 gerðu sýslumaðurinn á Blönduósi og Fjármálaeftirlitið með sér samning um innheimtu. Samningurinn fól með sér að IMST tæki að sér innheimtu á eftirfarandi kröfum Fjármálaeftirlitsins:

  • Dagsektum og févíti.
  • Stjórnvaldssektum sem Fjármálaeftirlitið leggur á einstaklinga og lögaðila.
  • Sáttarboð og sáttargerðir sem Fjármálaeftirlitinu er heimilt að gera.
  • Eftirlitsgjald Fjármálaeftirlitsins sem leggst á eftirlitsskylda aðila skv. lögum nr. 99/1999.

Kröfur sem Tryggingastofnun ríkisins hefur innt af hendi umfram rétt

Sýslumaðurinn á Blönduósi og Tryggingarstofnun ríkisins (TR) gerðu með sér samstarfssamning 9. apríl 2010.  Samningurinn fól með sér að innheimtumiðstöðin tæki að sér innheimtu á þeim kröfum TR, sem væru vegna greiðslna sem TR eða umboð hennar hafa innt af hendi umfram rétt samkvæmt lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 og lögum um félagslega aðstoð nr. 99/2007

Endurkröfur vegna ofgreiðslna hjá Vinnumálastofnun

Þann 9. apríl 2010 gerði sýslumaðurinn á Blönduósi samstarfssamning við Vinnumálastofnun um að innheimtumiðstöðin innheimti eftirtaldar kröfur:

  • Endurkröfur á ofgreiðslum úr atvinnuleysistryggingarsjóði sbr. 39.  gr. l. nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
  • Endurköfur á ofgreiðslum úr Fæðingarorlofsjóð sbr. 15. gr. a. l. um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000.
  • Endurkröfur á ofgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði eða Atvinnuleysistryggingarsjóði fela í sér höfuðstól kröfunnar með 15% álagi á höfuðstól sbr. 2. mgr. 39. gr. l. nr. 54/2006 og 2. mgr. 15. gr. a. l. nr. 95/2000.

Nánari upplýsingar um hvern lið er að finna á síðunni undir tengt efni.