Almenn innheimta

Sýslumenn utan umdæmis Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu annast innheimtu opinberra gjalda fyrir ríkissjóð, en Ríkisskattstjóri í umdæmi hans. Nefnast þessir aðilar innheimtumenn ríkissjóðs.  

Helstu skattar og gjöld til innheimtu hjá sýslumönnum (innheimtumönnum ríkissjóðs) eru :

  • Þinggjöld (tekjuskattur, eignaskattur, serstakur eignaskattur, gjald í framkvæmdasjóð aldraðra og álagt tryggingagjald) sveitarsjóðsgjöld sem tengjast þeim
  • Virðisaukaskattur
  • Bifreiðagjöld
  • Þungaskattur
  • Skipagjöld
  • Skipulagsgjald
  • Skattsektir

Ríkisskattstjóri og öll embætti sýslumanna utan umdæmis sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu veita upplýsingar um stöðu gjaldenda úr miðlægu innheimtukerfi. Nánari upplýsingar um framgang einstakra innheimtumála og númer bankareikninga sem greiða má gjöldin inn á veitir embætti í því umdæmi sem gjaldandi er skráður til heimilis. Á síðum einstakra embætta má sjá númer bankakreikninga sem leggja skal inn á. Sjá upplýsingar um embættin hér .

Vanskil

Gjöld sem ekki hafa verið greidd á eindaga verða að skuld (kröfu).  Innheimtumanni er skylt að innheimta allar kröfur, einnig þær sem eru vegna áætlana frá skattyfirvöldum. Það frestar ekki vanskilaúrræðum þótt skattskýrslu hafi ekki verið skilað inn eða skattálagning verið kærð.

Vakin skal athygli á að innheimtumenn ríkissjóðs hafa ekki heimild til að semja um eða fella niður dráttarvexti eða vanskilaálögur né breyta álagningu skatta og gjalda. .

Dráttarvextir

Dráttarvextir samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu á gjaldfallna kröfu frá gjalddaga. Í einstöku tilvikum bætist við vanskilaálag sem reiknast af höfuðstól. Um einstök vanskilaúrræði má m.a. fá upplýsingar hér á vef Ríkisskattstjóra, www.rsk.is. 

Um upplýsingar um stöðu einstakra gjalda vísast á vef einstakra embætta.

Hér má sjá reglugerð nr. 1212/2018  um innheimtu þinggjalda og jöfnunargjalds á árinu 2019.

Uppfært 04.05.2019.