Álagning og innheimta vanrækslugjalds

Í umferðarlögum er kveðið á um að ef ökutæki sem skráð er hérlendis sé ekki fært til lögmæltrar skoðunar innan tilskilns tíma, skuli lagt á eiganda þess eða skráðan umráðamann vanrækslugjald að fjárhæð kr. 15.000. 

Meginreglan er sú að gjaldið leggist á eiganda ökutækis ef það er ekki fært til skoðunar innan tveggja mánaða frá lokum þess mánaðar sem endastafur á skráningarmerki vísar til. 

Um álagningu vanrækslugjalds

Ákvæði um skoðun ökutækja og álagningu vanrækslugjalds ef skoðun er vanrækt er að finna í 74. gr.  umferðarlaga nr. 77/2019  með síðari breytingum. Í greininni er mælt fyrir um að ráðherra setji reglur um skoðun ökutækja. Þær reglur er að finna í reglugerð nr. 8/2009 um skoðun ökutækja

Í reglugerðinni er mælt fyrir um álagningu vanrækslugjalds sé ökutæki ekki fært til aðalskoðunar eða endurskoðunar innan þeirra tímamarka sem þar er kveðið á um (sjá hér á eftir).  Skráður eigandi ökutækis ber ábyrgð á að það sé fært til skoðunar en umráðamaður þegar umráð þess byggjast á eignaleigusamningi við fjármálafyrirtæki. Gjaldið skal greitt við skoðun ökutækisins.  Sé gjaldið greitt og ökutæki fært til skoðunar, eftir atvikum aðalskoðunar eða endurskoðunar, innan mánaðar frá því að það var lagt á skal það lækka í 7.500 kr.

Sýslumaðurinn á Vestfjörðum annast álagningu og innheimtu vanrækslugjalds. Það skal lagt á með skriflegri tilkynningu sem send skal eiganda ökutækisins (umráðamanni). Mótbárur eða varnir vegna álagðs gjalds skulu hafa borist embætti hans innan innan tveggja mánaða frá álagningu. Taki sýslumaður mótbárur og varnir vegna álagningar vanrækslugjalds gildar, getur hann eftir atvikum frestað álagningu gjaldsins eða fellt hana niður. 

Athugasemdir eða mótbárur vegna álagningar vanrækslugjalds má senda Sýslumanninum á Vestfjörðum sem hér segir: 

 1. Bréflega á útibú Sýslumannsins á Vestfjörðum, Hafnarstræti 1, 400 Ísafirði. 
 2. Í netfangið vanraekslugjald@syslumenn.is 
 3. Á sérstökum eyðublöðum sjá hér (sjá einnig hér í dálknum til hægri): 

Upplýsingar um álagningu og innheimtu gjaldsins má fá hjá embættinu í s. 456-1200 á milli kl. 10:00 og 12:00.

Hvenær árs skal ökutæki í síðasta lagi fært til skoðunar: 

Ákvæði um þetta er að finna í II. og III. kafla reglugerðar um skoðun ökutækja.  Má í aðalatriðum flokka reglurnar í þrennt:

1)  Bifreið og eftirvagn skal færa til aðalskoðunar í þeim mánuði sem síðasti tölustafur á skráningarmerki ökutækis vísar til.  Þannig skal t.d. ökutæki með skráningarmerki sem endar á 1 fært til skoðunar í janúar, ökutæki með skráningarmerki sem endar á 3 í mars og ökutæki sem endar á 0 í október. 

2)  Ökutæki með einkamerki.  Hafi ökutæki með einkamerki tölustaf sem síðasta staf á skráningarmerki, ræðst skoðunarmánuður af honum.  Bókstafur sem síðasti stafur á skráningarmerki jafngildir hins vegar 5 sem síðasti tölustafur á skráningarmerki. 

3)  Fornbifreið, húsbifreið, bifhjól, þ.m.t. fornbifhjól og létt bifhjól, hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagn skal færa til skoðunar fyrir 1. ágúst á skoðunarári.

Hafi eigandi (umráðamaður) ökutækis ekki átt þess kost að færa ökutækið til aðal­skoðunar í skoðunarmánuði þess, skal það gert í síðasta lagi fyrir lok annars mánaðar þaðan í frá. 
Heimilt er þó að færa ökutæki til skoðunar allt að 6 mánuðum fyrr á almanaksárinu og 10 mánuðum fyrr, hafi ökutækið gilda skoðun sem fram fór fyrir 1. nóvember liðins árs. 

Í lok hvers árs auglýsir Sýslumaðurinn á Vestfjörðum í einu dagblaði og Lögbirtingablaðinu hvenær vanrækslugjald leggst á árið á eftir og var síðasta auglýsing sem hér segir:

Auglýsing um álagningu vanrækslugjalds á árinu 2021: 

Álagning vanrækslugjalds á eigendur (umráðamenn) þeirra ökutækja sem skráð eru í ökutækjaskrá hérlendis og ekki hafa verið færð til aðalskoðunar frá og með 1. október 2020 hefst 5. janúar 2021.

Álagning gjaldsins byggir á 37. og 38. gr. reglugerðar nr. 8/2009 um skoðun ökutækja með síðari breytingum, sbr. 74. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Miðast álagning gjaldsins, með þeim undantekningum sem greinir hér að neðan, við endastaf á skráningarmerki ökutækis og leggst það á sem hér segir: 

 • 5. janúar vegna ökutækja með 0 sem endastaf og færa átti til skoðunar í október 2020.
 • 1. apríl vegna ökutækja með 1 sem endastaf. 
 • 1. maí vegna ökutækja með 2 sem endastaf.  
 • 1. júní vegna ökutækja með 3 í endastaf.
 • 1. júlí vegna ökutækja með 4 í endastaf.
 • 4. ágúst vegna ökutækja með 5 í endastaf. 
 • 1. september vegna ökutækja með 6 í endastaf.
 • 1. október vegna ökutækja með 7 í endastaf.   
 • 2. nóvember vegna ökutækja með 8 í endastaf.
 • 1. desember vegna ökutækja með 9 í endastaf.
 •  
 • 4. ágúst vegna ökutækja með einkamerki sem ekki enda á tölustaf.

 • 1. október vegna fornbifreiða, húsbifreiða, bifhjóla, þar með talin fornbifhjól og létt bifhjól, hjólhýsa (fellihýsa) og tjaldvagna, sbr. 7. gr. reglugerðar um skoðun ökutækja.
 • Vanrækslugjald leggst á vegna þeirra ökutækja sem ekki hafa verið færð til endurskoðunar skv. ákvæðum reglugerðar um skoðun ökutækja þegar liðinn er mánuður frá lokum þess mánaðar er ökutækið skyldi fært til endurskoðunar samkvæmt ákvörðun skoðunarmanns.       
 • Vanrækslugjald leggst á vegna ökutækja sem ekki hafa verið færð til skoðunar þegar liðinn er mánuður frá því að skráningarmerki var afhent tímabundið til þess að færa mætti ökutækið til skoðunar.

Tveimur mánuðum eftir álagningu vanrækslugjalds hefst innheimta þess hafi ökutækið ekki verið fært til skoðunar eða það skráð úr umferð og gjaldið greitt innan þess tíma.

Ísafirði, 27. nóvember 2020. 

Sýslumaðurinn á Vestfjörðum


Um það hvaða ár ökutæki á að færast til skoðunar og hve mörg ár skuli líða milli skoðana skal vísað til reglugerðar um skoðun ökutækja. Á vef Samgöngustofu má fletta skráningarnúmeri upp í ökutækjaskrá og sjá í hvaða mánuði það skal fært til skoðunar.

Í töflunni hér að neðan má sjá hvenær mánaðar gjaldið leggst á og síðasti dagur sem 50% afslátturinn helst (eindagi).

Tímabil Dags fráDags tilGildisdagur álagningar GjalddagiEindagi vegna 50% afsláttar
2021 01 01.01.202131.01.202105.01.202105.01.202104.02.2021 
2021 02 01.02.202128.02.202102.02.202102.02.202101.03.2021
2021 03 01.03.202131.03.202102.03.202102.03.202106.04.2021
2021 04 01.04.202130.04.202101.04.202101.04.202130.04.2021 
2021 05 01.05.202131.05.202101.05.202101.05.202131.05.2021 
2021 06 01.06.202130.06.202101.06.202101.06.202130.06.2021
2021 07 01.07.202131.07.202101.07.202101.07.202104.08.2021
2021 08 01.08.202131.08.202104.08.202104.08.202103.09.2021
2021 09 01.09.202130.09.202101.09.202101.09.202130.09.2021
2021 10 01.10.202131.10.202101.10.202101.10.202102.11.2021
2021 11 01.11.202130.11.202102.11.202102.11.202101.12.2021
2021 12 01.12.202131.12.202101.12.202101.12.202103.01.2022 


Innheimta vanrækslugjalds

Tveimur mánuðum eftir álagningu vanrækslugjalds ber að hefja innheimtu þess hafi ökutækið sem krafan er sprottin af ekki verið fært til skoðunar og gjaldið greitt innan þess tíma.  Færist krafan þá í heimabanka eiganda (umráðamanns) og má greiða hana þar óháð því hvort ökutækið hafi verið fært til skoðunar eða ekki.  Þá ber skv. 3. mgr. 110. gr. umferðarlaga  að senda eiganda ökutækisins eða umráðamanni, á sannanlegan hátt, tilkynningu um að krafist verði aðfarar (fjárnáms) eða nauðungarsölu (uppboðs á ökutæki) að tilteknum tíma liðnum enda hafi greiðsla þá ekki verið innt af hendi.  Verði gjaldið ekki greitt innan tilgreinds frests og engar mótbárur eða varnir hafa verið hafðar uppi má krefjast nauðungarsölu á ökutækinu til lúkningar gjaldinu án undangengins fjárnáms, en gjaldið nýtur lögveðsréttar.  Einnig má krefjast fjárnáms hjá þeim sem ber ábyrgð á greiðslu gjaldsins skv. 1. mgr. án undangengins dóms eða sáttar. 

Ef óskað er má greiða gjaldið með því að leggja greiðslu inn á reikning embættisins nr. 0556, hb 26 reikningsnr. 7100. Kennitala er 411014-0100.

Kærur og beiðnir um endurákvarðanir

Ef ekki er unað við ákvörðun um álagningu vanrækslugjalds er heimilt að óska endurupptöku ákvörðunar með rökstuðningi sýslumanns. Uni kærandi ekki þeirri ákvörðun er honum heimilt að skjóta henni til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisin. Skal það gert innan þriggja mánaða frá ákvörðun sýslumanns.

Fáeinar ákvarðanir hafa fallið sem sætt hafa kæru og má nálgast þá á vef stjórnarráðsins, www.urskurdir.is:

Uppfært 30.12.2020.


Algengar spurningar:

Eru einhver úrræði til að afstýra því að vanrækslugjald leggist á vegna ökutækis sem ekki hefur verið fært til lögmæltrar skoðunar og frestur til að færa það til skoðunar að líða? 

 Álagningu vanrækslugjalds á ökutæki sem ekki hefur verið fært til skoðunar á tilsettum tíma samkvæmt reglugerð um skoðun ökutækja verður ekki afstýrt á annan hátt en hér segir:  

 1. Afskráningu ökutækis úr ökutækjaskrá. Nálgast má frekari upplýsingar og eyðublað fyrir afskráningarbeiðni ökutækis á vef Samgöngustofu hér. Við það er miðað að ef ökutæki er afskráð til úreldingar innan tveggja mánaða frá því að gjaldið var lagt á sé heimilt að fella álagninguna niður. Sama á við ef ökutæki er afskráð úr landi.  Séu skráningarmerki lögð inn til geymslu hjá skoðunarstöð eða Samgöngustofu og ökutæki síðan afskráð án þess að skráningarmerkin séu tekin út aftur þykir mega miða tveggja mánaða frestinn við þann dag sem skráningarmerkin voru lögð inn enda sé ökutækið afskráð innan sex mánaða  frá álagningu.  Hugsanlegan kostnað við innheimtuaðgerðir ber þó skráðum eiganda eða umráðamanni að greiða.
 2. Með því að leggja skráningarmerki ökutækis inn hjá Samgöngustofu eða skoðunarstöð.  Ef ökutæki verður ekki notað eða er eða verður óskoðunarhæft til lengri eða skemmri tíma má leggja inn skráningarmerki þess, þ.e. fjarlægja þau af ökutækinu og afhenda í skoðunarstöð eða hjá Samgöngustofu. 
 3. Tímabundin skráning ökutækis úr umferð.  Nálgast má beiðni um tímabundna skráningu ökutækis úr umferð á vef Samgöngustofu.  Sé fallist á beiðni fær umsækjandi sendan miða til að líma á skráningarmerki ökutækisins með áletruninni "Notkun bönnuð".   Einnig má óska tímabundinnar skráningar úr umferð í næstu skoðunarstofu.
 4. Sé skráður eigandi eða umráðamaður ökutækis búsettur fjær næstu skoðunarstofu en 80 km og hann hafi ekki átt þess kost að færa ökutæki sitt til skoðunar innan frests getur hann tilkynnt embætti Sýslumannsins á Vestfjörðum, að hann eigi þess ekki kost að færa ökutæki sitt til skoðunar innan frest skv. 2. mgr. 6. gr. reglugerðar um skoðun ökutækja og óska eftir viðbótarfresti í allt að tvo mánuði til að færa það til skoðunar. Miðað er við skráð lögheimili.

Áhersla er lögð á að til þeirra úrræða sem nefnd hafa verið sé gripið áður en gjaldið er lagt á. 

Ef vanrækslugjald hefur þegar verið lagt á eiganda eða umráðamann ökutækis er hægt að halda þeim 50% afslætti sem veittur er þegar ökutæki er fært til skoðunar innan mánaðar frá álagningu ef gripið er til ráðstafna skv. liðum 2), 3) og 4) innan sama tíma.

Bent skal á að ekki er skylt að greiða þegar áfallið vanrækslugjald þegar ökutæki er afskráð, skráningarmerki þess lögð inn hjá skoðunarstöð eða óskað tímabundinnar skráningar ökutækis úr umferð (með miða). Innlögð skráningarmerki verða hins vegar ekki afhent eiganda ökutækis á ný nema álagt gjald sé greitt. Þá halda innheimtuaðgerðir áfram þótt skráningarmerki séu lögð inn, ökutæki skráð tímabundið úr umferð eða það afskráð hafi það verið lagt á og álagning ekki verið felld niður.    

 

Nú er ökutæki í því ástandi vegna bilunar eða vegna þess að varahlutir fást ekki að það telst ekki skoðunarhæft. Er hægt að fá undaþágu á eða frest frá álagningu gjaldsins meðan reynt er koma ökutækinu í samt lagf? 

Ekki er unnt að fá undanþágu en að öðru leyti er vísað til svara við spurningu nr. 1.  Þó er í 4. mgr. 13. gr. reglugerðar um skoðun ökutækja ákvæði sem kveður á um að sé við aðalskoðun gerð athugasemd um atriði, sem ekki er unnt vegna skorts á varahlutum að bæta úr innan tilskilins frests, sé heimilt að veita mánaðar frest til viðbótar áður útgefnum fresti, að því tilskildu að áður útgefinn frestur sé ekki útrunninn. Eigandi (umráðamaður) ökutækis skal framvísa staðfestingu frá skoðunarstofu þess efnis ef eftir því er leitað.

Er unnt að fá álagningu vanrækslugjalds frestað eða álagt gjald niðurfellt vegna veikinda eiganda/umráðamanns ökutækis, andláts hans eða af öðrum slíkum ástæðum?

Að jafnaði er ekki unnt að fá undanþágu vegna veikinda en í sérstökum tilfellum getur frestun álagningar komið til greina, þannig að henni verði frestað um t.d. einn mánuð.  Hefur þá verið miðað við veikindi a.m.k. síðustu 20 dagana áður en frestur rann út.  Skal þá að jafnaði framvísað læknisvottorði eða öðrum samsvarandi gögnum.  Eins er litið til þess ef skráður eigandi er 75 ára eða eldri og ber við aldri.
Ef skráður eigandi eða umráðamaður ökutækis er látinn er álagning felld niður allt að einu ári eftir  andlát viðkomandi.    

Hvaða áhrif hefur umsókn eða samþykki um greiðsluaðlögun skv. lögum nr. 101/2010 á skyldu til greiðslu vanrækslugjalds? 

Almenna reglan er sú að vanrækslugjald fellur ekki undir samninga um greiðsluaðlögun, sbr. f-lið 3. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. 

Þó gildir sú sérstaka undantekning að þeim sem sóttu um greiðsluaðlögun fyrir 1. júlí 2011 og samningur um greiðsluaðlögun hefur ekki enn verið staðfestur hjá er ekki heimilt að greiða gjaldið fyrr en eftir að samningur þeirra hefur verið staðfestur. Sá sem óskar eftir að fá frest á greiðslu vanrækslugjalds skal framvísa um það staðfestingu frá embætti Umboðsmanns skuldara. 

Ef svokallaður hemlaprófari fyrir ökutæki sem eru meira en 3,5 tonn að þyngd er ekki í skoðunarstöð eða ekki verður komist í hann í þeirri sömu skoðunarstöð nema á ákveðnum tímum ársins og önnur skoðunarstöð er ekki í nágrenninu er þá kostur að sækja um undanþágu frá greiðslu vanrækslugjalds?  

Þegar eins stendur á og hér er lýst þykir mega miða við að ákvæði 3. mgr. 6.gr. reglugerðar nr. 8/2009 um skoðun ökutækja eigi við.  Sjá umsókn til hliðar hér á síðunni.

Ákvæðið er svohljóðandi:  Hafi eigandi (umráðamaður) ökutækis, sem býr fjær næstu skoðunarstofu en 80 km ekki átt þess kost að færa ökutækið til skoðunar innan frests skv. 2. mgr. getur hann fengið viðbótarfrest í tvo mánuði með því að tilkynna Sýslumanninum á Vestfjörðum  um þá ósk sína. Tilkynningin þarf að hafa borist sýslumanni áður en frestur skv. 2. mgr. rennur út og má vera á rafrænu formi. 

Er möguleiki að greiða vanrækslugjaldið án þess að færa ökutæki til skoðunar til að fá helmings afsláttinn?  

Nei, ekki er unnt að greiða gjaldið svo gilt sé og njóta afsláttar.  Að liðnum tveimur mánuðum frá álagningu gjaldsins má þó greiða gjaldið (fullt gjald) án þess að ökutæki sé fært til skoðunar.  Þá hefur verið miðað við að þeir sem leggja skráningarmerki ökutækis inn hjá skoðunarstöð eða Samgöngustofu innan mánaðar frá álagningu gjaldsins njóti einnig 50% afsláttarins.  

Leggst einhver aukinn kostnaður á að liðnum tveimur mánuðum frá gjalddaga ef gjaldið er ekki greitt?  

Aukinn kostnaður leggst ekki á fyrr en sérstök innheimta gjaldsins hefst, yfirleitt að liðnum rúmum tveimur mánuðum frá álagningu. Þá leggst fyrst á gjald vegna ítrekunarbéfs að fjárhæð 400 kr. Greiðist gjaldið ekki í beinu framhaldi leggst á kostnaður vegna sendingar sérstakrar greiðsluáskorunar, að fjárhæð ca. 1.500 - 2.000 kr. (fer eftir gjaldskrá stefnuvotta og/eða  Íslandspóst).  Komi til beiðni um nauðungarsölu leggst á kostnaður skv. lögum um aukatekjur ríkissjóðs vegna beiðni um nauðungarsölu á lausafé (sjá hér), sem er gjald til ríkissjóðs.  Komi til sölu ökutækis á uppboði kann talsverður kostnaður að leggjast á við það, allt þó eftir atvikum máls.  Komi t.d. til þess að færa þurfi ökutæki á uppboðsstað eða annarra slíkra ráðstafana og það haft þar í geymslu má gera ráð fyrir að gjaldið hækki verulega. 

Hvar á landinu eru skoðunarstofur og hvar má nálgast upplýsingar um hvenær skoðað er?  

Nálgast má upplýsingar um hvar skoðunarstöðvar er að finna og hvar og hvenær skoðað er á vef þeirra fyrirtækja sem annast  skoðun, sem hér segir:
Aðalskoðun hf.
Betri skoðun ehf.
Frumherji hf.
Tékkland bifreiðaskoðun ehf.

Ýmsar aðrar upplýsingar um skoðun ökutækja er einnig að finna á vef þessara fyrirtækja.    


Uppf. 24.04.2020.