Umgengni

Hver er tilgangur með umgengni?

Umgengni er ætlað að tryggja að barn fái að umgangast og halda sambandi við það foreldri sitt sem það býr ekki hjá. Það er einnig réttur þess foreldris að fá að umgangast barn sitt og á því hvílir skylda að sinna umgengni við barnið.

Hver getur óskað eftir umgengni?

Það eru fyrst og fremst foreldrar barns sem geta óskað eftir að fá viðurkenndan rétt til umgengni við barn sitt. Barn á rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess.  Ef annað foreldra barns er látið eða bæði á barnið rétt á umgengni við nána vandamenn þess foreldris eða foreldra eða aðra nákomna barni, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið. Ef foreldri er ókleift að rækja umgengnisskyldur sínar við barn eða foreldri nýtur verulega takmarkaðrar umgengni á barnið rétt á umgengni við nána vandamenn þess foreldris eða aðra nákomna barni, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið. 

Hvað á umgengni að vera mikil?

Engar reglur eru í barnalögum um hve umgengni á að vera mikil. Foreldrar geta því í raun samið um hvaða fyrirkomulag á umgengni sem er. Ef þeir eru hins vegar ekki sammála um fyrirkomulagið og sýslumaður þarf að úrskurða um umgengni er stuðst við ákveðnar verklagsreglur sem hafa myndast í framkvæmd. Reglur þessar eru mjög svipaðar hér á landi og erlendis og í reynd eru flestir samningar sem foreldrar gera sjálfir sín á milli í samræmi við þessar reglur. Verklagsreglurnar miða við að barn dveljist hjá foreldri að lágmarki aðra hverja helgi, um jól, áramót, páska og í sumarleyfi. Nánari útfærsla á þessari umgengni fer síðan eftir aðstæðum í hverju einstöku máli.

Samningar um umgengni

Foreldrar geta gert með sér samning um umgengni, annað hvort munnlegan eða skriflegan, og þeir geta óskað eftir því að sýslumaður staðfesti samninginn (sjá eyðublað). Staðfesting sýslumanns á samningi hefur þá þýðingu að fari forsjárforeldri ekki eftir samningnum getur foreldrið sem á umgengnisréttinn óskað eftir því að þvingunarúrræðum verði beitt. Gerð verður grein fyrir þessum úrræðum, dagsektum og aðför, hér á eftir.

Sýslumaður getur hafnað því að staðfesta samning um umgengni ef hann telur að samningurinn þjóni ekki hagsmunum barns.

Úrskurðir um umgengni

Ef foreldrar eru ekki sammála um hvernig umgengi á að vera er hægt að óska eftir úrskurði sýslumanns. Hann úrskurðar eftir því sem hann telur barninu vera fyrir bestu.

Í umgengnisúrskurði er ákveðið hvað umgengni á að vera mikil og oft eru fyrirmæli um hvernig á að framkvæma umgengnina. Við ákvörðun um það hve mikil umgengni á að vera koma ýmis atriði til skoðunar. Hér á eftir verða  nokkur þeirra talin upp:

Tengsl barns við umgengnisforeldri

Hér skiptir máli hvernig og hve mikil umgengni hefur verið áður. Ef umgengni er til dæmis ákveðin í framhaldi af skilnaði eða sambúðarslitum foreldra mælir það með mikilli umgengni.

Aldur barns

Aldur barns getur skipt miklu máli þegar umgengni er ákveðin. Ef barn er mjög ungt getur það skipt máli varðandi lengd dvalar og hvort það skuli gista hjá umgengnisforeldri eða ekki. Þannig er ekki úrskurðað um gistingu mjög ungs barns hjá umgengisforeldri gegn vilja forsjárforeldris.

Vilji barns

Ef um stálpuð börn er að ræða skiptir vilji þeirra miklu máli. Ekki er úrskurðað gegn vilja stálpaðs barns.

Búseta foreldra

Ef foreldrar búa í sitt hvorum landshlutanum gilda aðrar umgengnisreglur en þegar foreldrar búa í sama sveitarfélagi.

Hvernig umgengni var hagað áður

Hafi ákveðið fyrirkomulag verið á umgengni er tekið mið af því.

Gagnkvæm umgengni

Ef systkini búa sitt hjá hvoru foreldrinu verður að gera þeim mögulegt að umgangast hvert annað.

Foreldri búsett erlendis

Ef krafa kemur fram um að umgengni fari fram annars staðar en á Íslandi og forsjárforeldri er því andvígt hefur þótt rétt að hafna slíkri kröfu ef um er að ræða önnur lönd en Norðurlönd.

Eftirlit með umgengni

Sýslumaður getur í úrskurði ákveðið að umgengni skuli fara fram undir eftirliti sérfræðings í málefnum barna, skv. 4. mgr. 47. gr. barnalaga nr. 76/2003.  Þetta á helst við í tilvikum þar sem ekki er öruggt að fari nógu vel um barn hjá umgengnisforeldri eða þegar mikla deilur og jafnvel átök eru milli foreldra þegar barn er sótt eða því skilað.

Kostnaður við ferðir vegna umgengni

Það foreldri sem barn býr ekki hjá skal greiða kostnað við ferðir vegna umgengninnar nema þeir sem fara með forsjá barnsins ákveði annað með samningi eða sýslumaður hafi úrskurðað annað. Þó hefur verið miðað við að foreldri sem barn býr hjá greiði kostnað við ferðir innan síns svæðis eins og t.d. ferðir til og frá flugvöllum eða miðstöðvum áætlunarbíla.

Sérfræðiráðgjöf

Áður en sýslumaður úrskurðar um umgengni ber honum að bjóða foreldrum séfræðiráðgjöf, nema hann telji hana ónauðsynlega eða tilgangslausa. Ráðgjöf þessari er ætlað að aðstoða foreldra við að finna lausn á deilumálum sínum um umgengni með hagsmuni barns að leiðarljósi.

Rétt er að benda á að þó sýslumönnum sé almennt skylt að bjóða sérfræðiaðstoð er foreldrum ekki skylt að þiggja hana. Þá er einnig rétt að benda á að sérfræðingar ræða ekki við börn nema með samþykki forsjárforeldra.

Tímabundinn úrskurður um umgengni

Sýslumaður (dómari) getur ákveðið hvernig umgengni skuli vera um ákveðinn tíma, til dæmis á meðan á forsjármáli stendur.

Bréfa- og símasamband

Ef foreldri getur af einhverjum ástæðum ekki sinnt umgengni við barn með því að barnið dvelji hjá því, getur sýslumaður úrskurðað um að foreldrið fái að hafa bréfa- og símasamband við barnið. Þá getur sýslumaður einnig ákveðið að foreldri fái að hafa samband við barn með tölvupósti.

Upplýsingar um barn

Forsjárlaust foreldri á rétt á að fá upplýsingar um barn frá forsjárforeldri, t.d. um heilsufar, dvöl á leikskóla, skólagöngu o.s.frv. Þá á forsjárlaust foreldri einnig rétt á að fá upplýsingar um barn hjá leikskólum, skólum, sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum, barnaverndarnefndum og lögreglu. Þessi réttur til upplýsinga frá stjórnvöldum og stofnunum felur hins vegar ekki í sér rétt forsjárlausa foreldrisins til að fá upplýsingar um hagi forsjárforeldris.

Stofnanir og stjórnvöld geta neitað að gefa upplýsingar upplýsingar, ef t.d. upplýsingagjöf er skaðleg fyrir barn. Hægt er að bera neitun um upplýsingar undir sýslumann og úrskurðar hann í málinu.

Flutningur barns úr landi

Forsjárforeldri má ekki flytjast úr landi með barn nema það hafi tilkynnt umgengnisforeldri um flutninginn með minnst 30 daga fyrirvara. Ef foreldrar eru ekki sammála um hvernig umgengni skuli vera getur sýslumaður úrskurðað um umgengni.

Þvingunarúrræði

Dagsektir

Ef forsjáraðili meinar þeim, sem á umgengnisrétt, að hitta barn getur sýslumaður lagt dagsektir á forsjáraðila.  Geta þær numið allt að 30.000.- kr. fyrir hvern dag sem umgengni er hindruð; frá því að sýslumaður hefur úrskurðað og þar til hætt er að hindra umgengni.

Aðför

Ef forsjárforeldri heldur áfram að hindra umgengni þrátt fyrir dagsektir getur dómari úrskurðað að umgengni verði komið á með þeim hætti að barn sé tekið úr umsjá forsjárforeldrisins. Ef til þessa kemur skal barnaverndarnefnd vera viðstödd og aðstoða barn. Ef þörf er lögregluaðstoðar skulu lögreglumenn vera óeinkennisklæddir.