Umgengni barns við aðra en foreldri

Reglur um rétt barns til umgengni við aðra en foreldri eru í 46. gr. a og 46. gr. b barnalaga. Reglum þessum var breytt, með lögum nr. 50/2019 sem samþykkt voru á Alþingi 4. júní 2019.

Umgengni við aðra þegar foreldri er á lífi.

Ef foreldri er ókleift að rækja umgengnisskyldur sínar við barn eða foreldri nýtur verulega takmarkaðrar umgengni á barnið rétt á umgengni við nána vandamenn þess foreldris eða aðra nákomna barni, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið.

Umgengni við aðra þegar annað foreldra barns er látið eða bæði.

Ef annað foreldra barns er látið eða bæði á barnið rétt á umgengni við nána vandamenn þess foreldris eða foreldra eða aðra nákomna barni, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið.

Sýslumaður getur boðið eftirlifandi foreldri og nánum vandamönnum hins látna foreldris eða öðrum nákomnum barni ráðgjöf skv. 33. gr. eða ákveðið að sátta verði leitað milli aðila eftir ákvæði 33. gr. a.

Þegar sýslumanni berst tilkynning um andlát sem ber með sér að hinn látni eigi barn undir lögaldri skal hann kanna tengsl barns við nána vandamenn þess eða aðra nákomna því. Sýslumaður skal vekja athygli á rétti barnsins og gefa barni og foreldri eða forsjáraðila þess tækifæri til að mæta á fund sýslumanns á tilteknum tíma. Sýslumaður skal hafa samráð við barn eftir því sem aldur og þroski þess gefur tilefni til sem og við foreldri eða forsjáraðila, og skal hann leiðbeina þeim um inntak umgengnisréttar skv. 1. mgr. og um réttaráhrif hans. Barn getur sjálft gert kröfu um umgengni.

Krafa barns um umgengni

Samkvæmt 46. gr. b, lokamálslið, getur barn sjálft gert kröfu um umgengni við vandamenn, eða aðra nákomna, þegar annað foreldri eða bæði eru látin.

Krafa til sýslumanns um ákvörðun umgengni

Barnið sjálft, nánir vandamenn látins foreldris eða aðrir nákomnir barni, geta óskað eftir að sýslumaður taki umgengnismál til meðferðar og ljúki því með úrskurði eða samningi eftir atvikum. Sé slíkrar meðferðar óskað er bent á eyðublað á vef sýslumanna sem heitir beiðni um úrskurð um umgengni. Barn getur snúið sér til sýslumanns og borið erindið upp munnlega.

Ef barn er í fóstri á vegum barnaverndarnefndar, tekur barnaverndarnefnd ákvörðun um umgengni við barnið.

Upplýsingar til tilkynnanda andláts

Sá sem tilkynnir andlát til sýslumanns og fram kemur að hinn látni átti barn eða börn undir 18 ára aldri, fær afhentar leiðbeiningar um framangreindar reglur. Á bakhlið þess skjals er jafnframt óskað eftir að veittar verði upplýsingar um nánustu vandamenn barns og þeim upplýsingum síðan komið til sýslumanns. Óskað er eftir að þær upplýsingar hafi borist sýslumanni innan fjögurra mánaða frá andlátinu.

Þess er einnig óskað að tilkynnandi andláts, sé hann ekki aðstandandi, komi upplýsingum þessum í hendur forsjáraðila eða umönnunaraðila barns.

Þjónusta sýslumanna

Hægt er að óska eftir þjónustu sýslumanns samkvæmt 46. gr. b, með því að hringja eða senda tölvupóst á viðkomandi embætti sýslumanns.

Reglugerð um meðferð mála samkvæmt hinu nýju ákvæðum hefur ekki verið sett. Að svo stöddu munu sýslumenn ekki hafa frumkvæði að því að setja sig í samband við forsjáraðila eða vandamenn barns, á grundvelli 2. og 3. mgr. 46. b greinar barnalaga.

Uppfært 29.08.2020.