Stofnun hjúskapar erlendis

Unnt er að óska eftir yfirlýsingu sýslumanns vegna fyrirhugaðrar stofnunar hjúskapar erlendis en embætti sýslumanns í Vestmannaeyjum annast útgáfu slíkra yfirlýsinga á landsvísu.

Sótt er um með stafrænum hætti á vef sýslumanna. Afla þarf hjúskaparstöðuvottorðs frá Þjóðskrá Íslands sem þarf að fylgja með stafrænni umsókn. Sýslumaður mun afla annarra nauðsynlegra upplýsinga um umsækjanda úr starfakerfum sýslumanna. 

Hér er hlekkur á stafræna umsókn 

Ef umsækjandi er ekki með rafræn skilríki er hægt að hafa samband við embætti sýslumanns í Vestmannaeyjum í síma 458 2900 eða á netfanginu vey@syslumenn.is til að fá eyðublaðið afhent á öðru formi. Slíku eyðublaði þarf að fylgja staðfest afrit af vegabréfi, ökuskírteini eða nafnskírteini auk hjúskaparstöðuvottorðs frá Þjóðskrá Íslands.

Yfirlýsing sýslumanns verður send í pósthólf umsækjanda á island.is eða með öðrum hætti sé þess sérstaklega óskað, innan 3ja virkra daga, ef fullnægjandi fylgigögn berast með umsókn og skilyrði reynast uppfyllt.

Erlend yfirvöld geta farið fram á að íslensk skjöl og vottorð séu formlega staðfest við framvísun þeirra. Með formlegri staðfestingu er átt við að utanríkisráðuneyti á Íslandi staðfesti að þar til bært yfirvald hafi gefið út skjalið. Nefnist slíkt vottun utanríksiráðuneytis apostille vottun, sjá nánari upplýsingar hér.