Sérstök framlög skv. 60. gr. barnalaga

Í vissum tilfellum er sýslumanni heimilt samkvæmt 60. gr. barnalaga nr. 76/2003 að úrskurða meðlagsskyldan aðila til greiðslu sérstakra framlaga með barni.

Sérstök framlög með barni - auk meðlags

Þannig má úrskurða meðlagsskyldan aðila til greiðslu framlaga vegna skírnar, fermingar, gleraugnakaupa, tannréttinga, sjúkdóms eða greftrunar.

Önnur tilefni geta einnig orðið grundvöllur slíkra framlaga en þó aðeins ef þau eru sérstaks en ekki almenns eðlis, enda er reglubundnum meðlagsgreiðslum ætlað að standa straum af almennri framfærslu barns. Meðlagsgreiðandi verður því almennt ekki úrskurðaður til að taka þátt í kostnaði vegna tónlistarnáms barns eða íþróttaiðkunar. Kostnaður við sérkennslu vegna námserfiðleika barns getur á hinn bóginn orðið tilefni úrskurðar um sérstakt framlag.

Kröfu þarf að leggja fram innan þriggja mánaða frá því að svara varð til útgjalda. Miðað er við að krafa vegna kostnaðar við fermingu þurfi að vera komin fram innan þriggja mánaða frá fermingardeginum. Sérregla er um tannréttingar, ekki er talið skylt að setja fram kröfu um framlag vegna tannréttinga, sem iðulega stendur yfir í nokkurn tíma, innan þriggja mánaða frá því að hver einstök greiðsla var innt af hendi, að minnsta kosti ekki ef um samfellda meðferð er að ræða, heldur getur verið eðlilegt að bíða með kröfu vegna slíkra aðgerða allt þar til innan þriggja mánaða frá því að meðferð lýkur.  Lok meðferðar miðast við það tímamark er föst tæki (teinar) eru fjarlægð af tönnum samkvæmt staðfestingu réttingatannlæknis.

Aðilum er einnig heimilt að gera með sér samkomulag um að annar aðili greiði hinum aðilanum sérstakt framlag samkvæmt því sem að framan greinir. Slíkan samning verður sýslumaður að staðfesta.

Þegar aðili óskar úrskurðar sýslumanns um sérstakt framlag eða aðilar óska staðfestingar hans á samkomulagi um slíkt framlag  skulu þeir láta beiðni fylgja frumrit þeirra reikninga sem eru grundvöllur kröfunnar.   

Framlög sem innt eru af hendi samkvæmt þessari grein tilheyra þeim sem svarað hefur til útgjaldanna.  Þau eru því ekki meðlag sem tilheyrir barni.

Dómsmálaráðuneytið skal gefa út leiðbeiningar til sýslumanna um viðmiðunarfjárhæðir vegna krafna um sérstök framlög og ber að uppfæra þær árlega miðað við vísitölu neysluverðs, sem í desember 2020 var 490,3 stig.  Samkvæmt bréfi ráðuneytisins frá 5. janúar 2021 þykja fjárhæðirnar hæfilega ákveðnar sem hér segir: 

  • Kr. 80.000 - 106.000 vegna fermingar
  • kr. 21.000 - 27.000 vegna skírnar
  • kr.  80.000 - 118.000 vegna greftrunar.

Ekki eru gefnar út leiðbeiningar vegna annarra framlaga en sem hér eru talin. 

Framlag til menntunar eða starfsþjálfunar 

Meginreglan er sú að framfærsluskyldu foreldris gagnvart barni lýkur þegar það verður 18 ára.  Samkvæmt 62. gr. barnalaga er þó heimilt að ákveða framlag til menntunar eða starfsþjálfunar ungmennis þar til það nær 20 ára aldri.  Það er ungmennið sjálft sem setur fram ósk um slíkt framlag og hefur heimild til að ráðstafa fjármununum.

Annars vegar getur ungmenni og framfærsluskylt foreldri gert samkomulag um greiðslu foreldris á framlagi til menntunar ungmennis. Fá skal staðfestingu sýslumanns á slíku samkomulagi áður en það öðlast gildi.

Ef ekki er grundvöllur fyrir samkomulagi getur ungmenni óskað úrskurðar sýslumanns um skyldu foreldris til greiðslu framlagsins.  Samkvæmt fyrrnefndri 62. gr. barnalaga er heimilt en ekki skylt að úrskurða menntunarframlag og því tekur sýslumaður ákvörðun í málinu á grundvelli fjárhags- og félagslegrar stöðu beggja aðila.  

Bent skal á að samkvæmt 3. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er Tryggingastofnun heimilt að greiða barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18–20 ára ef annað foreldri eða báðir foreldrar eru látnir, enn fremur ef foreldrar eru ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar, annað eða báðir.  Ef úrskurði sýslumanns verður ekki við komið vegna efnaleysis foreldris eða ekki tekst að hafa uppi á því er heimilt að greiða barnalífeyri með ungmenni er stundar sannanlegt nám, í samræmi við þessa málsgrein.  Þegar svo stendur á ber að beina umsókn um framlag beint til Tryggingastofnunar.

Greiðsla sérstakra framlaga og menntunarframlags

Tryggingastofnun ríkisins er skylt að greiða foreldri bæði meðlag og sérstök framlög hvort sem greiðsluskylda byggir á dómi eða dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi sem staðfestur hefur verið af honum.  Sama á við um framlag til menntunar.  Viðtakandi greiðslu verður þó að vera búsettur hér á landi til þess að hann njóti greiðslna frá stofnuninni.  

Athugið að hægt er að sækja um þessar greiðslur í gegnum mínar síður hjá TR.

Greiðslur er standa í tengslum við barnsburð og meðgöngu

Framlög til móður

Samkvæmt 25. gr. barnalaga getur sýslumaður úrskurðað föður barns [eða kjörmóður skv. 2. mgr. 6. gr. barnalaga ]1) til að greiða framfærslueyri með móður þess samtals í þrjá mánuði fyrir og eftir fæðingu barns, að kröfu hennar, ef sérstaklega stendur á.  Nú veikist móðir vegna meðgöngu eða barnsfara og er sýslumanni þá heimilt, að kröfu hennar, að úrskurða barnsföður [eða kjörmóður skv. 2. mgr. 6. gr. barnalaga ]1) til að greiða henni mánaðarlega styrk til hjúkrunar og framfærslu, þó ekki lengur en níu mánuði eftir fæðingu. Skylda má mann [eða kjörmóður skv. 2. mgr. 6. gr.]1) til greiðslu framlaga samkvæmt þessari grein þótt barn fæðist andvana.

Kostnaður vegna meðgöngu, barnsfara og fleira

Hafi barnsfaðir orðið sannur að slíku tilræði við barnsmóður sem um getur í 58. gr. barnalaga (sem vísar í XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940)  skal sýslumaður úrskurða hann að kröfu hennar til að greiða allan kostnað er af meðgöngu og barnsförum stafar, samanber 26. gr. barnalaga.

Að kröfu konu getur sýslumaður enn fremur úrskurðað þann sem valdur er að þunga hennar, samanber 1. mgr., til að greiða útgjöld vegna lögmætrar eyðingar á fóstri hennar.


1)  Kjörmóðir skv. 2. mgr. 6. gr. barnalaga telst kona sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á samvistar- eða sambúðarmaka sínum samkvæmt lögum um tæknifrjóvgun.    


Uppfært 03.01.2020.